Eitthvað segir mér að Mamma Mia! muni ganga vel í íslenskum bíóum eitthvað enn um sinn. Þörfin fyrir gleðina fer a.m.k. ekki minnkandi. Þrátt fyrir hrun kapítalismans lifir lögmálið um framboð og eftirspurn enn góðu lífi – í kvikmyndunum.
– – –
Biedermann og brennuvargarnir. Þessi leiksviðsdæmisaga eftir Max Frisch um Þýskaland nasismans hefur verið dregin upp reglulega til að vara við öllu frá uppgangi Bush-veldisins til íslamskrar bókstafshyggju. Mig grunar að hægt væri að líta yfir síðustu metrana í baksýnisspeglinum og koma auga á eina túlkun í viðbót.
– – –
Austurstræti.
Nei, ekki gatan, heldur lagið með Ladda. Ég er með 100 beztu lög lýðveldisins í iPodinum þessa dagana og finnst andinn ekki eiga síður vel við í dag en þá.
– – –
Einnig úr sömu átt: Orti Nýdönsk spádómsóð um íslensku fjármálakreppuna? Líkindin eru hrollvekjandi:
Hjálpaðu mér upp, ég get það ekki sjálfur.
Ég er orðinn leiður á að liggja hér.
Gerum eitthvað gott, gerum það saman,
ég skal láta fara lítið fyrir mér.
Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna!
Hvað getum við gert ef aðrir bjóða betur,
dregið okkur saman, skriðið inní skelina?
Nei, það er ekki hægt að vera minni maður
og láta slíkt og annað eins spyrjast út um sig!
Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna!
Þú! getur miklu betur en þú hefur gert.
Þú! ert ekki sami maður og þú varst í gær.
Þú! Þú opnar ekki augun fyrr en allt of seint,
opnar ekki augun fyrr en allt er breytt.
Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna,
drukkna í öllu þessu í kringum mig.
Flýtum okkur hægt, gerum það í snatri.
Ég verð að láta fara lítið fyrir mér.
Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna!
– – –
Annars fylgjast Danir enn grannt með gangi mála uppi á skerinu og stendur greinilega ekki alveg á sama, hvað sem líður öllu Magasínsdjóki. Þeir virðast samt eiga nóg með sig: Morgunfréttirnar á TV2 voru svartsýnar á daginn fyrir hérlenda.