Kreppan kemur! (Vol 2) – blogg í rauntíma

Jæja, þá virðist restin af spilapeningaborginni vera að hrynja til grunna (meiri bölmóð!) og nánast allir bubbarnir sem enn tórðu við það að fara að segja sig á sósjalinn. Nema Lúlli í Sögu, af öllum mönnum.

Þá er bara eitt að gera – endurtaka leikinn.

  1. The Velvet Underground – Sunday Morning. Þynnkulag fyrir þynnkutíma.
  2. Isaac Hayes – Soulsville. Horfumst í augu við það, kæru vinir. Nýi Íslendingurinn er Nýi Svarti Maðurinn. Mikið skal Johnny National vera glaður yfir þessu öllusaman. Hayes var flottur, Hubbard blessi minningu hans.
  3. Placebo – Slave to the Wage. Þetta er rottukapphlaup í völundarhúsi. Og svo drepast þær. Minnist á býlið hennar Möggu, sem er vísun sem ég hef verið á leiðinni að skoða nánar (ég er skelfilega lítt verseraður í Dylan, fyrir utan Blood on the Tracks).
  4. Flytj. ók. – Kveiktu ljós. Eldgamalt singalong, kannski ekkert yfirmáta kreppulegt og eiginlega meira út í stúkumóral. En óneitanlega upplífgandi ef maður er dán yfir því hvað allt er í miklu volli. Þeir sem kannast við upprunalegan flytjanda eru hvattir til að fræða mig um hann.
  5. KK – Vegbúinn. Það var erfitt annað en að hafa þetta með, fyrst ég átti það. Enda innblásið af rykskálarkreppunni. Hvern þann sem ekki hefur lesið Þrúgur reiðinnar ætti að skylda til að gera það hið fyrsta.
  6. The B52’s – The Deadbeat Club. Helvítis letiblóð sem leggjast upp á hinn almenna launamann. Svo situr þetta pakk við sundlaugarnar sínar og sötrar kokteila. Og maður getur ekki annað en komist í gott skap við að hlusta á það.
  7. Blind Alfred Reed – How Can a Poor Man Stand Such Times and Live. Hann blindi Alfreð hittir bara akkúrat naglann á höfuðið. Hvernig er þetta hægt? Ha?
  8. Tom Waits – In the Colosseum. Hjaðningavíg í fjölmiðlasirkusnum. Þingmennirnir, forsetinn og vísitölufjölskyldan.
  9. Radiohead – Just. Þú gerir þér þetta sjálfur. Þú og enginn annar. Og það er það sem er sárast af öllu. Víðgesjónin er rosaleg. Rosaleg.
  10. Norah Jones – Come away with me. Æ, ætli það séu ekki nokkrir þarna úti sem láta sig dreyma um að skilja þetta bara allt eftir. Tala nú ekki um ef þeim væri boðið með henni Nóru.
  11. Prefab Sprout – Elegance. Eldgamalt lag með þeim þessum. Voðalega gáfumannalega lyklaður texti: En hefur eitthvað að gera með það að tími þeirra sem eiga tjörnina styttist í annan endann. Og svo þarftu heldur ekkert þessa tjörn, þannig.
  12. Vilhjálmur og Ellý Vilhjálms – Fátt er svo með öllu illt. – að ei boði gott. Fleiri orð eru óþörf í þessu samhengi.
  13. Facon – Vísitölufjölskyldan. Syd-Barrettsk sýra aðlöguð að kotbúskap á Vestfjörðum. Og Jón hann hló: Bravó. En aldrei gat hann auðgast þó. Bravó!
  14. R.E.M. – Ignoreland. Ort af öðru tilefni, en þó náskyldu. Baráttusöngur: Þeir tóku af okkur landið af því að við leyfðum þeim það. Landið sem lét sér standa á sama.
  15. David Bowie – Heroes. Hmm. Alveg er ég búinn að gleyma af hverju þetta fékk að fljóta með. Rökstuðnings er hérmeð óskað – ég kem ekki auga á hann sjálfur.
  16. Þursaflokkurinn – Þögull eins og meirihlutinn (í speglinum). Lærðu að meta blokkina. En vertu umfram allt þögull. Einsog meirihlutinn.
  17. Cars – Drive. Jæja, væna mín. Hver á nú að segja þér að það sé orðið of framorðið? Að þetta sé ekkert í svo góðu lagi lengur? Hver á að keyra þig heim í kvöld? IMF? Japan? Pútín? Og hvað heldurðu að bíltúrinn kosti?
  18. Pixies – Build High. BYGGJA HÆRRA! BYGGJA HÆRRA! BYGGJA HÆRRA! BYGGJA HÆRRA! HAHAHAHAHAHA!
  19. 200 – Exodus (2015). Brjálað stuð með færeyskum rokkhundum. Og fjallar einmitt um fjöldabrottflutninga.
  20. Tears for Fears – Shout. Af því að stundum þarf maður bara að öskra. Hleypa þessu út öllu saman.
  21. ABBA – Money money money. Jamm. Við skulum bara hætta hérna. Enda diskurinn fullur.