Lífstréð

Nú er nóg komið af bölmóði í bili – ég verð bara hálfþunglyndur af þessu hérna úti í fásinninu.

Það hefur sosum gerst áður, og verr en nú. Og reyndar er ég að ljúga þessu – mér líður alveg ljómandi vel, þannig lagað. En mig langaði alltíeinu til að hripa hérna inn ljóð eftir eitt af okkar bestu skáldum (og sennilega eitt það vanmetnasta), Kristján frá Djúpalæk.

Ég kynntist þessu ljóði fyrst þegar móðir mín skráði það í minningabókina mína er ég var enn á barnsaldri. Ég fór ekki að botna í því fyrr en einhverntíma á táningsárum og hef sótt í það reglulega síðan til að sækja mér styrk og von gegnum erfiða tíma. Svo  mér datt í hug að það væru kannski einhverjir þarna úti (jafnvel einsog eitt stykki þjóð) sem hefðu gott af að komast í kynni við það.

Ég hef ekkert leyfi til að birta þetta hérna – ef minn ágæti gamli mentor, dr. KK, rekur hér inn nefið og krefst þess að ég taki þetta út þá geri ég það. En þangað til skulum við leggja frá okkur hversdagsvafstrið í smástund (svona einsog fjórtán línur) og njóta:

Lífstréð

Þig hryggir fölvi blaðs hins rauða blóms
sem bar þitt tré, og veitti sumaryndi.
Það afrækt var, því önn er líf þitt tengt.

Við getum hvorki rödd vors eðlis rengt
né rýnt þann vef, sem hugann fastan bindur
við það, sem okkur þó er einskis vert.

Hitt gildir að þú heill og sannur sért
í sorg og gleði, játir ei né verjir
annað en það sem er þitt hjartans mál.

Svo tæm því djarfur draums þíns gullnu skál
og dvel hjá þínu lífstré alla tíma
og hlú að því, þótt hrunið skart þess sé.

Það geymir brum til blóms, sem önnur tré
og ber þitt líf til sigurs – einhvern tíma.

(Kristján frá Djúpalæk)

2 replies on “Lífstréð”

Comments are closed.