Þessi læða er ekki með öllum mjalla

Fyrir ellefu árum fengum við fyrsta afkvæmið á heimilið: lítinn gráan kettling. Svo óx hann og varð að fullvaxinni læðu. Reyndar ekki svo stórri, en samt. Fljótt kom í ljós að það var eitthvað verulega mikið að henni í skapinu. Við sættum okkur við það og elskuðum hana eins og hún var, með öllum hennar kostum og kenjum. Áður en fyrsta barnið kom á heimilið óttuðumst við dálítið hvernig hún brygðist við því, en merkilegt nokk, þá skánaði hún töluvert við það.

Hún hefur samt aldrei verið auðveld í sambúð. Satt best að segja þá er hún geðveik. Klínískt geðveik. Hún hefur reyndar mildast töluvert í skapinu með árunum og hverju nýju barni á heimilinu, en hún er samt enn sérlunduð og útaf fyrir sig. Hún skemmir húsgögn. Einn af fáum kostum hennar er að hún er létt á fóðrum. Þótt hún noti hvern matmálstíma til að lýsa yfir að hún sé því ósammála.

Ég hef rakið nokkrar sögur af henni í bloggi áður. Eins og hér, hér og hér.

Hér er topp fimm listinn yfir það sem hún hatar, í sívaxandi mæli:

5. Pestin (altso, allt sem fylgir á eftir hatar hún meira)
4. Knús og gælur
3. Gervallt mannkyn, og þá sérstaklega börn
2. Ryksugur
1. Allir aðrir kettir í heiminum

Nú er svo komið að sér fram á búferlaflutninga hjá fjölskyldunni. Strax uppúr áramótum. Og við ætlum ekki að hafa hana með okkur. Svo ef það er einhver sem gæti hugsað sér að fá hana inn á heimilið hjá sér, annað hvort til frambúðar eða til þeirra tveggja ára sem við ætlum okkur að vera í útlöndum, þá má viðkomandi annað hvort nefna það í kommentum hér fyrir aftan eða senda mér tölvupóst (hjorvarpez hjá gmailnum). Annars endar hún á Kattholti. Og þá meina ég að hún Endar. Á Kattholti.

Hér er mynd af henni í óvenju lítt drápsóða skapinu sínu:

Madditt

Hún heitir Madditt. Ekki samt eins og hún gegni nafninu.

6 replies on “Þessi læða er ekki með öllum mjalla”

  1. Ég á alveg eins læðu, nema hún er ekki létt á fóðrum og hún lætur vera að skemma húsgögn. Hún heitir Dimma. Takk fyrir boðið en mig langar ekki í annað eintak! Gangi þér samt vel að losna við Madditt.

Comments are closed.