Hin eina sanna viðskiptavild

Ókei. Gamla Íslandsstjórnin er frá. Fjármálaeftirlitið í yfirhalningu. Seðlabankinn stefnir sömu leið. Allt virðist heldur potast áleiðis nokkuð í stjórnkerfinu. Svo hvað er eftir? Hverju þarf frekar að andæfa?

Nú segi ég fyrir mig.

Ég hef fengið nóg af öllum þeim sögum sem hafa borist nánast dag hvern upp á síðkastið af gjörningum frammámanna í ónefnda viðskiptabankanum mínum í aðdraganda íslenska bankahrunsins. Ég væri löngu búinn að flytja fjármál mín til stofnunar sem mér finnst frekar þess verð að njóta viðskipta við mig ef þar væri um auðugan garð að gresja: einhvernveginn virðast þær allar enn að stærstum hluta ýmist undir stjórn siðblindra glæpamanna eða vanhæfra vitleysinga. Eins og er er ég enn að hugsa málið. En ég er að hugsa það.

Ég er líka markvisst farinn að efla með mér viðskipta(ó)vild: Ég legg mig að fremsta megni eftir því í hverra eigu þær verslanir eru þar sem ég þarf að kaupa inn: ég reyni að stunda mín innkaup hjá þeim sem ég veit fyrir víst að eru í eigu aðila sem komu hvergi nærri bankahruninu, meðan verslanir í eigu „útrásarvíkinganna“ eru hreinlega á svörtum lista hjá mér. Stundum þarf ég reyndar að brjóta odd af oflæti mínu og skipta við fyrirtæki sem mér er meinilla við (það er tildæmis erfitt að benda á síma- eða tryggingafyrirtæki sem er ósnert af bankahruninu) en ég er mér þó alltaf meðvitaður um það að hver einasta verðlausa króna sem ég eyði, svo dæmi sé tekið af handahófi, í Bónusverslun, er fræ sem ég sái í akur óvinar míns.

Ég held við getum verið okkur meðvitaðri um það við hverja við skiptum, og hvort okkur finnst viðkomandi þess verður að fá að sýsla með peningana okkar. Mörg eignatengsl eru mjög á huldu og ekki auðvelt að ganga að upplýsingum um þau á einum og sama staðnum. Þessvegna er mér hreinasti fjársjóður að komast yfir upplýsingar eins og þær sem Egill Helgason hefur frá Viðskiptablaðinu um eignatengslin í Baugsveldinu. Svona upplýsingar myndi ég gjarnan þiggja um Thorsarana. Um Pálma í Fons. Um Bakkabræður. Þessi listi er að sjálfsögðu ekki tæmandi.

Mér hefur fundist vanta einhvers lags internetsíðu, til dæmis wiki-vef af einhverju tagi, þar sem maður gæti farið inn og skoðað sig um eftir fyrirtækjum í hinum eða þessum geiranum (afþreying / tryggingar / smásala / bankaviðskipti / samskipti / búsáhöld og innréttingar / veitingahús / osfrv) og þau væru kannski flokkuð í þrennt og auðkennd, til dæmis með rauðum, gulum eða grænum lit, allt eftir því hversu mikil tengsl eigendur þeirra áttu við íslensku útrásina (Rautt: Bein sannanleg tengsl; Gult: Langsóttari tenging eða eignarhlutur; Grænt: Ótengt útrásarævintýrinu). Með því að smella á hvert fyrirtæki fyrir sig mætti svo sjá frekari rökstuðning og útlistun á tengslunum. Ef til vill væri líka þörf á gráum lit, fyrir þau sem ekki væri búið að grafast fyrir um ennþá; bla bla, útfærsluatriði. En vefur sem byði upp á eitthvað í líkingu við þetta er nokkuð sem mér finnst vanta.

Og eitt finnst mér alveg furðulegt að ég hafi ekki séð ennþá: fyrirtæki og verslanir í eigu þeirra sem hvergi komu nærri íslenska bankahruninu ættu miskunnarlaust að auglýsa að svo sé og betrekkja hjá sér útstillingargluggana með grobbi um það: „Eigendur þessarar verslunar komu hvergi nálægt íslenska útrásarævintýrinu“ eða „Þetta fyrirtæki er án tengsla við íslenska bankahrunið.“ Ég er sannfærður um að fólk myndi taka eftir því og hafa til hliðsjónar þegar það ákveður hvað það gerir við peningana sína.

Það er, í mínum huga, hin eina sanna viðskiptavild.