Fékk nóg af vinnunni uppúr þrjú og ákvað að hitta í staðinn fjölskylduna í Lystigarðinum (þeim nýja sem er altso skammt frá heimili okkar, ekki þeim gamla í miðbænum). Sáum þar þá háværustu froska sem ég hef nokkru sinni vitað – frúin verður eiginlega að sýna ykkur vídeóið sem hún náði af látunum. Þarna var líka þýsk eldri frú með barni eða barnabarni sem lék sér að því að grípa þá einn og einn í senn og láta þá þenja bringuna í lófa sér. Krakkarnir okkar horfðu dolfallin á, beygðu sig að vatnsborðinu, döngluðu höndunum út yfir vatnsborðið og hrukku við í hvert sinn sem froskarnir stukku. Þarna var líka virðulegur eldri maður sem vék að mér einhverjum orðum. Ég átti fyrst í vandræðum með að skilja hvað hann var að fara, hélt fyrst að hann væri að tala um þessa æsku sem væri ung og léki sér.
Það var líka svo mikill hávaðinn í þessum kvikindum.
Ég baðst afsökunar á þýskukunnáttunni, útskýrði að krakkarnir væru ekki froskum vanir þaðan sem þeir kæmu, þetta væri svo nýtt fyrir þeim greyjunum. Þá setti hann upp alvarlega svipinn og fór að brýna raustina svo ég loksins skildi að honum þætti þetta ekki hægt, það ætti ekki að veiða froskana í garðinum. Þá færu þeir bara allir eitthvað annað og hvar værum við þá, ha? Væri það það sem ég vildi? Ja gená, sagði ég, stuggaði krökkunum í burtu frá vatnsborðinu. Í því sem við drógum okkur í hlé sáum við hvar strákur þeirrar þýsku myndaði sig við að ná einum í viðbót. Við vorum að mestu komin í hvarf þegar við heyrðum köllin í karlinum og sáum svo bara lengra að þar sem hann elti þau (lang?)mæðgin upp hlíðina hinumegin, enn með brýnda raustina, og reyndi að ná athygli starfsmanna til að gera eitthvað í þessari óhæfu. Hann sá okkur tilsýndar, gekk nokkur skref í átt til okkar og kallaði einhver ókvæðisorð. „Jájá,“ svaraði ég á mínu ástkæra, „þú um það bara.“ Svo hélt hann eltingarleiknum áfram og ég fékk í framhaldinu væga aðkenningu af sniglahnyttni (eða l’esprit de l’escargot, sem kallað er).
Það voru með honum tvær eldri Fráen sem héldu sig til hlés í gegnum þetta alltsaman, horfðu upp hlíðina í hina áttina (að þeirri fegurð sem er Uni Morgenstelle) og reyndu að spjalla um eitthvað annað.
Hádegið var annars eitt heljarinnar gastronomisches Abenteuer, með því sem ég er næstum alveg viss um að hafi verið það sem Þjóðverjinn kallar Rouladé, kartöflumús (heitri, ósúrsaðri og allt), soðnu spergilkáli og, öh, uxahalasósu, er ég nokkuð viss um.
Þetta er sko alvara lífsins, maður minn.