Sit og sötra Hefe-Weissbier fyrir framan sjónvarpið. Frúin og tengdó sitja við hlið mér með sitthvort prjónasettið og saman horfum við á Die ultimative Chart Show – 50 Jahre deutsche Charts. Við misstum reyndar af alltof miklu þarsem krakkarnir þurftu að horfa á teiknimyndina um Heidi áður en þeir komust í ró. Eftilvill þarámeðal Rednex, Bobby Farrell og Vicky Leandros, sem talin voru upp í sjónvarpsdagskrá Schwäbisches Tagblatt í morgun. En höfum þó náð bæði Boney M og Mathias Reim, sem akkúrat núna er að taka stórsmellinn sinn, „Verdammt, ich lieb’ dich.“
Þið bara verðið að tékka á þessu:
Stefnir í stuð frameftir kvöldi með Goombay Dance Band og fleiri góðum gestum.
Endrum og sinnum er hægt að ná þessum líka ágætu skemmtiþáttum í sjónvarpssal. Mig minnir að það hafi verið Pro Sieben, frekar en RTL, sem var með stórgóða topp-25 seríu í fyrra mánuði: Topp 25 fyrir bestu vangalögin. Topp 25 fyrir stærstu sjónvarpsskandalana (þar sem meðal annars var rifjað upp þegar Rudi Völler missti sig í beinni eftir 0-0 jafntefli þýska landsliðsins í fótbolta gegn Íslendingum í forkeppni EM árið 2003). Topp 25 Schlagers. Og svo framvegis.
En skemmtiþættir í sjónvarpssal. Það er auðvelt að verða háður þeim. Ég er farinn að leita þá uppi.
Ahh. Og nú er komið Scorpions kóverband að taka Winds of Change. Það væri dálítið fallegt ef söngvarinn væri ekki jafnvel enn laglausari söngvari en hann er falskur að flauta inngangslínuna.
Í hádeginu var í boði steiktur fiskur og kartöflur. Ekki spurning.