Þjónvarp: Froskasöngur og, öhh, froskasöngur

Frúin nennir ekki að standa í því að hlaða myndböndum á netið, svo ég ákvað að taka að mér sjálfur að leyfa ykkur að heyra lætin í Lystigarðsfroskunum um daginn. Ég vek athygli á að sjá má Loga grípa fyrir eyrun vegna hávaðans:

Því miður erum við ekki með myndband af ofsafengna vininum þeirra.

En hins vegar langar mig að fleygja hérna inn í restina myndbandi með Stefáni Raab. Ég ætlaði fyrst að finna eitt af tuttugogfimm vandræðalegustu mómentunum í þýskri sjónvarpssögu, þegar hann var fenginn til flutnings í þýskum sönglagaþætti, ranglaði einsog rallhálfur inná sviðið og brosti fleðulega (og orðalaust) ofaní hljóðnemann á meðan hann heyrðist syngja hárri raust í gegnum allt lagið. En ég fann það hvergi. Svo í staðinn, og í tilefni af komandi Evróvisjón, kemur eitt af glæsilegustu mómentum Þjóðverja í þeirri ágætu sönglagakeppni. Þökk sé Stefáni Raab:

Og griðkonurnar hans syngja engu verr en Deutschland-sucht-ein-Superstar-þátttakendurnir sem við hjónin horfum á með öðru auganu og hálflokuðum eyrum.