Bloggið um veginn

Að stjórna bloggi er eins og að sjóða litla fiska.

– – –

Frúin kom heim á mánudaginn var. Þá var liðin helgi þar sem við feðgin afrekuðum það helst að skreppa í skoðunartúr út til Baggersee, þangað sem við munum ábyggilega fara með sundföt seinna í sumar þegar verður óþægilega heitt í veðri. En um helgina var bara ósköp þægilega íslenskur sumarhiti, svo vatnið sjálft varð að bíða.

Við urðum vör við dálítið undarlegt tré, það voru mjó á því blöðin og froða sem spratt útúr öxlunum á því, og þegar hreyfði vind ýrði af því þunnfljótandi, glærum, lyktar- og bragðlausum vökva yfir okkur. Hlaut af þeim sökum nafnið „Rigningartré.“ Ég var aldrei sleipur í grasafræðinni og hef sattbestaðsegja ekki hugmynd um hvaða tré þetta var. Mig langar að vita það.

– – –

Hitt þekkti ég þegar ég sá það; blað af Ginkgo biloba sem lá á stéttinni framan við innganginn á UKT Frauenklinik þegar ég mætti til vinnu í morgun. Það þótti mér hið dularfyllsta mál, enda hef ég vakandi auga fyrir Musteristrjám hvar sem ég fer. Ég held dálítið uppá þau. En ég hef hvergi séð neitt slíkt í grennd við spítalann ennþá.

Leitin heldur áfram.

– – –

Á mánudeginum, meðan við biðum eftir frúnni, skruppum við í stutta skógarferð í útjaðri þorpsins Kiebingen, sem er hérna skammt suðvesturundan. Það er annar túr sem verður endurtekinn.

– – –

Frúin mun eflaust útlista fjölskylduævintýri komandi helgar. Þar á eftir mun ég síðan skreppa á fund til Parísar og verð tvær nætur í burtu. Það verður í fyrsta skipti sem ég kem þangað. Fundurinn verður á hótelinu sem fjallað er um hér að neðan. Vonandi fæ ég samt að fara heim að honum loknum.