Blogg á feisbúkköld: Þegar hugmyndirnar eru orðnar of margar í einu til að nota sem status updates.
– – –
Ég sá einn vin minn rétt í þessu stinga uppá að kalla það Fasbók. Og þótti ekki algalið. Sjálfur hef ég reyndar lengi verið skotinn í að kalla það Trýnu.
– – –
En degi maraþonfundahalda er lokið. Merkilegt hvernig – þrátt fyrir besta vilja og frammistöðu – maður getur fengið þessa feik-itt-till-jú-meik-itt tilfinningu fyrir sjálfum sér, bara við það eitt að eyða deginum í samræður við fólk sem er betur gefið en maður sjálfur.
– – –
(og vil ég þó meina að ég sé ekki alvitlaus)
– – –
Fann gúrmei-matvöruverslun í verslanakjarnanum þar sem ráðstefnan er haldin sú sem ég er ekki á, heldur bara á fundum sem haldnir voru í tengslum við hana. Notaði tækifærið og gerði stórinnkaup til heimilisins: Dijon sinnep, Lyle’s Golden Syrup og Sharwood’s Korma (hvorttveggja a.m.k. illfáanlegt í Tübingen), mandarínuconfiture og þær bestu ferskjur sem ég hef nokkrusinni bragðað. Að minnsta kosti sú fyrsta þeirra. Hinar tvær geymi ég mér í morgunmat í fyrramálið, áður en ég brenni út á Charles de Gaulle fyrir allar aldir.
– – –
Það helltist yfir mig voða skrýtin tilfinning þegar öll fundahöldin voru búin: mér leið eins og ég hefði ekki borðað neitt að ráði í heilan sólarhring. Sem ég áttaði mig á að var vegna þess að ég hafði varla borðað neitt að ráði síðasta sólarhringinn, fyrir utan morgunmat í morgun og ómælt magn af kaffi. Svo ég hoppaði inná sushistað við hliðina á gúrmeiversluninni og skellti mér á hóptilboðssushibakka með misosúpu. Sem ég hafði aldrei bragðað áður (súpuna þ.e.a.s.) og þótti jafnvel betri en ég hafði brynjað mig fyrir.
– – –
Núna ætla ég hinsvegar að skella mér uppá Sigurbogann.
– – –
Í ljósi þess hve vel gekk í gær ætti ég að gera meira af því að láta færslurnar mínar heita í höfuðið á nafntoguðum bloggum. Sjáum hvernig gengur með þessa.