Með fingurinn í rassgatinu

Til að fyrirbyggja misskilning: þetta er ekki blogg um framgang rannsókna á bankahruninu.

– – –

Allt frá barnæsku hef ég verið dálítið heillaður af risaeðlum. Eru það ekki flestir, að minnsta kosti á sínum yngri árum? Þessar skepnur sem áttu jörðina í næstum 200 milljón ár og hurfu svo, nánast eins og hendi væri veifað.

(Reyndar ekki alveg rétt, þetta með að þær hafi átt jörðina. Eða allavega umdeilanlegt. Ég hef séð færð fyrir því sterk rök að ef maður lítur kalt á málin þá sé til dæmis núna ekki öld mannsins. Eða spendýranna. Ekki einusinni öld skordýranna, þótt það sé reyndar heldur nær lagi („The majority of Terrans were six-legged“ var upphafið á góðri bók). Vitur maður sannfærði mig um að það sé nokk sama hvaða hlutlæga mælistika sé lögð á það, þá sé og hafi alltaf verið öld bakteríanna. En það er önnur saga.)

En risaeðlur. Ég hef alltaf verið svag fyrir þeim.

Svo það var gaman hjá okkur núna um helgina, þegar við fórum á Urwelt Museum Hauff í nágrenndarbænum Holzmaden og skoðuðum steingervinga af risaeðlum, ammónítum og forsögulegum sæliljum, svo eitthvað sé nefnt.

Holzmaden er við rætur Schwäbísku Albanna (ekki Alpanna, svo það sé á tæru), þarsem á miðlífsöld var fjöruborð … bíðum nú við … Pangaeu, minnir mig. Svo þar er heil dobía af steingerðum dýra- og jurtaleifum frá þeim tíma (sérstaklega af fiskieðlum, ammónítum og öðrum grunnsæviskvikindum) og kjörinn staður fyrir safn af þessu tagi. Ljómandi góða útlistun af heimsókninni má sjá í bloggi frúarinnar frá í gær.

En mig langar til að segja frá því þegar við sátum úti í garðinum við safnið (sem var mestmegnis gróinn barrtrjám og Ginkgo biloba fyrir verísimilítet) og ég horfði á risaeðlulíkönin, eða stytturnar, sem voru þarna allt í kringum okkur, og ég tók eftir að líkönin voru „anatómískt réttari“ en ég hef áður átt að venjast. Og alltíeinu áttaði ég mig á því að það var partur af anatómíunni sem maður hafði ekkert séð pælt í áður í þessum venjulega Pop-Sci risaeðlulitteratúr. Allir vita að risaeðlur þurftu að éta eitthvað: Sumar voru grasbítar, aðrar kjötætur og enn aðrar voru alætur. En hvergi minnst á að auðvitað þurftu þær að míga og skíta rétt eins og dýrin í dag. Og hvergi hef ég séð gert ráð fyrir því í þeim myndum og líkönum sem ég hef séð af þeim.

Fyrr en í gær.

Og mér fannst það svo merkilegt að ég mátti til með að láta taka mynd af mér við það tækifæri. Og hana gullfallega, verð ég að segja:

Mjög merkileg uppgötvun
Mjög merk uppgötvun

– – –

Annars er bloggfall hjá frúnni: hún er farin dauðþreytt í rúmið eftir daginn. Auk þess sem það gerðist ekkert markvert í dag. Nema þvottavélar.