Þér ég ann

Dálítið merkilegur dagur sem þetta var í dag. Við hjónin áttum tíu ára brúðkaupsafmæli.

– – –

Við eigum margt saman. Og þrennt það yndislegasta er náttúrulega hjá okkur hérna úti í Tübingen, sofandi inní rúmum þegar þetta er ritað.

(Einsog reyndar frúin, ef útí það er farið.)

En eitt sem við höfum einhvernveginn aldrei átt er „lagið okkar,“ þetta eina lag sem nútímagoðsögur segja að pör eigi sér og tengi þau saman gegnum það sem enginn skilur nema þau. Það bara einhvernveginn vill þannig til, þótt við höfum bæði yfirmáta gaman af tónlist.

Reyndar ekki alltaf þeirri sömu.

En það var heldur ekki þannig sem það byrjaði. Ekki með lagi. Þá væri tónlistin okkar sándtrakkið úr Pulp Fiction.

– – –

Fyrir tæpu ári síðan var ég einn úti í Danmörku meðan frúin var ein uppi á skerinu með ómegðina í fjóra mánuði. Þá var það einhvern eftirmiðdaginn að ég vafraði meðfram veggjakrotsskreyttum járnbrautarteinunum sem liggja gegnum Hróarskeldu. Sennilega á leið í bíó, á Batmanmyndina eða eitthvað. Þá kom hann Haukur til mín gegnum iPodinn með þessa perlu sem ég hafði aldrei tekið eftir áður, en hef aldrei síðan getað hugsað um eða hlustað á öðruvísi en að verða hugsað til konunnar minnar.

Árný mín, einhverndaginn langar mig að syngja þetta til þín. Bara verst að ég mun aldrei geta gert það jafnvel og hann Haukur: