Landráð

„Hristu hana aðeins,“ sagði annar pjakkurinn við hinn, þar sem þeir góndu á tvö skriðkvikindi sem þeir höfðu fangað í krukku. „Sjáum hvort þau ráðist ekki hvort á annað.“

Þarf ég að segja meira? Mér finnst að ég ætti ekki að þurfa þess. Leggðu snöggvast á minnið hvernig þú ræður í þetta. Ég kem aftur að þessu seinna.

– – –

Mér hefur fundist eins og ég þyrfti að segja eitthvað yfir Icesave-málunum. En það er bara svo ómögulegt að koma inn í þetta einhvernveginn, héðan utanað. Inn í hitann og kófið.

Landráð!, er hrópað innan úr kösinni. Þjóðníð! Kvislingar!

Og um hverja? Bræðum það aðeins með okkur í hljóði.

Ég kem aftur að þessu seinna.

– – –

Eitt hefur legið ljóst fyrir alveg síðan síðasta haust: Við munum aldrei aftur hafa það eins gott og við höfðum það. Og mér finnst það reyndar gott, útaf fyrir sig. Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það.

Ég endurtek: Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það.

Og núorðið er annað ekki hægt en að horfast í augu við eftirfarandi: Sama hvað verður gert, hvort sem Icesave samningarnir verða samþykktir eða ekki, með eða án fyrirvara, þá mun fyrirsjáanleg framtíð lands og þjóðar verða, fyrir allan praktískan samanburð við nýliðna tíma, ömurleg. Þetta er ekki svartagall, þetta er staðreynd. Að ætla eitthvað annað er að berja höfðinu við steininn. Það er kominn tími til að vakna og finna lyktina af forhúðarostinum.

– – –

Bara svo það sé á tæru: Ég er reiður. Ég er alveghreint bandhoppandi brjálaður. En þetta er ekki sú heiftþrungna, stefnulausa reiði sem fyllti svo marga (þarámeðal mig) síðasta október, og svo aftur í janúar.

Einusinni fyrir óramörgum árum var ég að keyra frá Hólum í Hjaltadal niður á Sauðárkrók seint um kvöld. Ég var með bílfylli af krökkum á svipuðu reki og ég og við ætluðum aðeins að skreppa niður í Ábæ fyrir lokun. Stúlkan sú sem ég elskaði þá sat í farþegasætinu.

Ég var enn að gefa inn upp að einbreiðu brúnni sem lá yfir Víðinesána á blindhæðinni rétt utan við Hólastað þegar ég sá að það var ekki allt með felldu; það var eitthvað í veginum. Þegar ég gerði mér ljóst að þetta var kindarskrokkur sem lá á miðju brúargólfinu var orðið of seint að negla á bremsurnar, en það var ekkert annað að gera. Mér tókst að stýra með vælandi dekkjum og öskrandi farþegum á milli brúarstólpanna, fann skepnuna skella á hægra framhjólinu og dragast undir bílnum útá brúarendann hinumegin áður en hún losnaði aftur. Svo námum við staðar.

Í þögninni á eftir gerði ég mér nokkra hluti ljósa:

  1. Ég var ekki fyrstur til að keyra yfir kindina.
  2. Sá sem var á undan mér hafði skilið hræið eftir þarna og ekið í burtu.
  3. Kindin var enn uppi á miðjum veginum.

Og nötrandi af adrenalínsjokki og hamslausri bræði yfir hugsunarleysi þess sem fór á undan mér rauk ég út, þreif um lappirnar á skepnunni þar sem hún lá í malbikinu með iðrin úti, dró hana út í kant og fleygði upp fyrir veg af meira afli en ég átti til.

Þetta var ömurlegt verk. En ég varð að gera það. Það varð bara andskotakornið að gera þetta.

Eitthvað þessu lík er sú reiði sem fyllir mig í dag.

– – –

Það verður andskotakornið að gera þetta. Þannig blasir þetta við mér. Og mér sýnist úr fjarlægð sem þeim röddum fari fjölgandi sem segja það sama. Þetta er spurningin um að gera eins og maður hefur lofað, að gera það sem maður er skuldbundinn (bókstaflega) til að gera. Þetta snýst um að halda í einhvern snefil af sjálfsvirðingu, ef ekki virðingu annarra.

Heiður. Er ekki talað um eitthvað svoleiðis í Íslendingasögunum?

– – –

Ha? Hvað segirðu? Hljómar þetta einsog eitthvað útúr Bjarti í Sumarhúsum? Ég er bara alveg sammála því. Þetta eru 600 1800 milljarðar (and counting) sem þessi Bjartur sem við erum þarf að „sá í akur óvinar síns,“ ef allt er talið. Og ég er, satt best að segja, ekki sannfærður um að við höfum efni á þessu. Og ef svo er, þá verður bara að horfast í augu við það.

Só bí itt.

Kannski mun þetta sliga okkur öll í gröfina. Kannski endar þetta með því að íslenska þjóðarbúið verður tekið uppí skuld. Kannski munum við neyðast til að ganga Noregskonungi á hönd. Eða Englandsdrottningu.

(og ég minni á: óháð því hvort samningurinn verður samþykktur eða ekki).

Við gætum verið með dauða íslensks lands, þjóðar og tungu í spilunum.

Þetta er ekki svartagall. Þetta er raunverulegur möguleiki í stöðunni.

Kannski ekki stór. En til staðar.

En nota bene: Það er þá ekki atburðarás sem er hrundið af stað með samþykkt eða höfnun Icesave-samninganna. Það er ekki einusinni atburðarás sem hófst með hruninu í október síðastliðnum. Þetta er eitthvað sem fór af stað enn fyrr en það.

– – –

Ojæja. Ef ekki vill betur til, þá hefur þjóðin hér allavega sitt tækifæri til að deyja hetjudauða, frekar en sem lítilsvirtur svíðingur og varmenni meðal þjóða. Það er mín persónulega afstaða.

Hetjudauði. Er ekki talað um eitthvað svoleiðis í Íslendingasögunum? Einhvernveginn finnst mér þeir sem sóttu hvað grimmast í arfinn síðustu árin hafa náð að leiða þetta hugtak þægilega hjá sér.

– – –

Að lokum: Manstu eftir pjökkunum tveimur í upphafinu? Reyndirðu að ráða í táknmyndina?

Ef þú settir Breta og Hollendinga í hlutverk þeirra ertu fallinn á myndmálsprófinu. Líka ef þú settir Steingrím J, Samfylkinguna, InDefence-hópinn eða hvern annan þann sem af sinni eigin ósérplægni vill reyna að gera það skásta sem mögulegt er úr þeirri ómögulegu stöðu sem upp er komin.

En hverja þá? Af hverra völdum erum við lokuð hérna ofaní til að kljást hvert við annað? Saka hvert annað um kvislingshátt og þjóðníð?

Þeir standa þarna enn og skemmta sér við að hrista krukkuna.

Hvern ætlar þú að kalla landráðamann í dag?