Landráð

„Hristu hana aðeins,“ sagði annar pjakkurinn við hinn, þar sem þeir góndu á tvö skriðkvikindi sem þeir höfðu fangað í krukku. „Sjáum hvort þau ráðist ekki hvort á annað.“

Þarf ég að segja meira? Mér finnst að ég ætti ekki að þurfa þess. Leggðu snöggvast á minnið hvernig þú ræður í þetta. Ég kem aftur að þessu seinna.

– – –

Mér hefur fundist eins og ég þyrfti að segja eitthvað yfir Icesave-málunum. En það er bara svo ómögulegt að koma inn í þetta einhvernveginn, héðan utanað. Inn í hitann og kófið.

Landráð!, er hrópað innan úr kösinni. Þjóðníð! Kvislingar!

Og um hverja? Bræðum það aðeins með okkur í hljóði.

Ég kem aftur að þessu seinna.

– – –

Eitt hefur legið ljóst fyrir alveg síðan síðasta haust: Við munum aldrei aftur hafa það eins gott og við höfðum það. Og mér finnst það reyndar gott, útaf fyrir sig. Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það.

Ég endurtek: Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það.

Og núorðið er annað ekki hægt en að horfast í augu við eftirfarandi: Sama hvað verður gert, hvort sem Icesave samningarnir verða samþykktir eða ekki, með eða án fyrirvara, þá mun fyrirsjáanleg framtíð lands og þjóðar verða, fyrir allan praktískan samanburð við nýliðna tíma, ömurleg. Þetta er ekki svartagall, þetta er staðreynd. Að ætla eitthvað annað er að berja höfðinu við steininn. Það er kominn tími til að vakna og finna lyktina af forhúðarostinum.

– – –

Bara svo það sé á tæru: Ég er reiður. Ég er alveghreint bandhoppandi brjálaður. En þetta er ekki sú heiftþrungna, stefnulausa reiði sem fyllti svo marga (þarámeðal mig) síðasta október, og svo aftur í janúar.

Einusinni fyrir óramörgum árum var ég að keyra frá Hólum í Hjaltadal niður á Sauðárkrók seint um kvöld. Ég var með bílfylli af krökkum á svipuðu reki og ég og við ætluðum aðeins að skreppa niður í Ábæ fyrir lokun. Stúlkan sú sem ég elskaði þá sat í farþegasætinu.

Ég var enn að gefa inn upp að einbreiðu brúnni sem lá yfir Víðinesána á blindhæðinni rétt utan við Hólastað þegar ég sá að það var ekki allt með felldu; það var eitthvað í veginum. Þegar ég gerði mér ljóst að þetta var kindarskrokkur sem lá á miðju brúargólfinu var orðið of seint að negla á bremsurnar, en það var ekkert annað að gera. Mér tókst að stýra með vælandi dekkjum og öskrandi farþegum á milli brúarstólpanna, fann skepnuna skella á hægra framhjólinu og dragast undir bílnum útá brúarendann hinumegin áður en hún losnaði aftur. Svo námum við staðar.

Í þögninni á eftir gerði ég mér nokkra hluti ljósa:

 1. Ég var ekki fyrstur til að keyra yfir kindina.
 2. Sá sem var á undan mér hafði skilið hræið eftir þarna og ekið í burtu.
 3. Kindin var enn uppi á miðjum veginum.

Og nötrandi af adrenalínsjokki og hamslausri bræði yfir hugsunarleysi þess sem fór á undan mér rauk ég út, þreif um lappirnar á skepnunni þar sem hún lá í malbikinu með iðrin úti, dró hana út í kant og fleygði upp fyrir veg af meira afli en ég átti til.

Þetta var ömurlegt verk. En ég varð að gera það. Það varð bara andskotakornið að gera þetta.

Eitthvað þessu lík er sú reiði sem fyllir mig í dag.

– – –

Það verður andskotakornið að gera þetta. Þannig blasir þetta við mér. Og mér sýnist úr fjarlægð sem þeim röddum fari fjölgandi sem segja það sama. Þetta er spurningin um að gera eins og maður hefur lofað, að gera það sem maður er skuldbundinn (bókstaflega) til að gera. Þetta snýst um að halda í einhvern snefil af sjálfsvirðingu, ef ekki virðingu annarra.

Heiður. Er ekki talað um eitthvað svoleiðis í Íslendingasögunum?

– – –

Ha? Hvað segirðu? Hljómar þetta einsog eitthvað útúr Bjarti í Sumarhúsum? Ég er bara alveg sammála því. Þetta eru 600 1800 milljarðar (and counting) sem þessi Bjartur sem við erum þarf að „sá í akur óvinar síns,“ ef allt er talið. Og ég er, satt best að segja, ekki sannfærður um að við höfum efni á þessu. Og ef svo er, þá verður bara að horfast í augu við það.

Só bí itt.

Kannski mun þetta sliga okkur öll í gröfina. Kannski endar þetta með því að íslenska þjóðarbúið verður tekið uppí skuld. Kannski munum við neyðast til að ganga Noregskonungi á hönd. Eða Englandsdrottningu.

(og ég minni á: óháð því hvort samningurinn verður samþykktur eða ekki).

Við gætum verið með dauða íslensks lands, þjóðar og tungu í spilunum.

Þetta er ekki svartagall. Þetta er raunverulegur möguleiki í stöðunni.

Kannski ekki stór. En til staðar.

En nota bene: Það er þá ekki atburðarás sem er hrundið af stað með samþykkt eða höfnun Icesave-samninganna. Það er ekki einusinni atburðarás sem hófst með hruninu í október síðastliðnum. Þetta er eitthvað sem fór af stað enn fyrr en það.

– – –

Ojæja. Ef ekki vill betur til, þá hefur þjóðin hér allavega sitt tækifæri til að deyja hetjudauða, frekar en sem lítilsvirtur svíðingur og varmenni meðal þjóða. Það er mín persónulega afstaða.

Hetjudauði. Er ekki talað um eitthvað svoleiðis í Íslendingasögunum? Einhvernveginn finnst mér þeir sem sóttu hvað grimmast í arfinn síðustu árin hafa náð að leiða þetta hugtak þægilega hjá sér.

– – –

Að lokum: Manstu eftir pjökkunum tveimur í upphafinu? Reyndirðu að ráða í táknmyndina?

Ef þú settir Breta og Hollendinga í hlutverk þeirra ertu fallinn á myndmálsprófinu. Líka ef þú settir Steingrím J, Samfylkinguna, InDefence-hópinn eða hvern annan þann sem af sinni eigin ósérplægni vill reyna að gera það skásta sem mögulegt er úr þeirri ómögulegu stöðu sem upp er komin.

En hverja þá? Af hverra völdum erum við lokuð hérna ofaní til að kljást hvert við annað? Saka hvert annað um kvislingshátt og þjóðníð?

Þeir standa þarna enn og skemmta sér við að hrista krukkuna.

Hvern ætlar þú að kalla landráðamann í dag?

Join the Conversation

35 Comments

 1. Góð samlíking. Ég hef reyndar líka keyrt á kind, en gat því miður ekki verið reiður út í neinn annan en sjálfan mig fyrir eftirtektarleysið. Sem ég var.

  Það sem ég skil ekki og gerir mig mest reiðan, er þegar þeir sem keyrðu hratt og gáleysislega kenna öðrum um ófarirnar.

 2. Djöfull andskoti er þetta vel skrifað hjá þér, strákur! Fer langt með að ýta mér upp úr fáfræðiskapaða afstöðuleysisfarinu sem ég hef legið í í þessu máli.

 3. Þetta er svo rétt, svo rétt. Eða eins og Hávamál segja:
  Deyr FÉ.
  Deyja frændur
  Deyr sjálfur hið sama
  en orðstír
  deyr aldregi
  hveim sér GÓÐAN getur

 4. Sérkennilegur texti og dálítið langt frá sannleikanum. Minnir á aðferðir áróðursmeistara.

  1. ICESAVE varðar ekki heiður hinnar íslensku þjóðar eða almennings því þeir aðilar hafa ekki fengið neitt að láni í Hollandi eða Bretlandi. Um þetta ætti ekki að þurfa að deila.

  2. Ljóst er að íslenska ríkið ber þarna ábyrgð að hluta til. Það er vegna aðgerðarleysis. En það er ábyrgð sem dreifist með fleiri ríkjum sem sýndu sama aðgerðarleysi, bæði Holland og Bretland og einnig ESB. Það er ekki tekið tillit til þess í samningnum.

  3. ICESAVE er pólitískur samningur, sem framkvæmir pólitískan vilja ákveðinna Vestur-Evrópuríkja – og það má alveg eins rökstyðja að heiður almennings felist í því að verjast í málinu, ef menn eru í ritæfingum.

  4. Svo mikil óvissa er í samningnum og áhættan er svo stór að hann stórspilli framtíð landsins, að sagan kann að kalla það ábyrgðarleysi að samþykkja hann. Þetta getur orðið einhver dýrasti nauðarsamningur sem þjóð hefur gert í mannkynssögunni. Um það veit enginn.

 5. Orð í tíma töluð. Takk kærlega. Held að þetta sé líka að renna upp fyrir flestu þenkjandi fólki að undan þessu verður ekki komist. En kannski síst og síðast, rennur þetta upp fyrir þeim sem komu okkur í og kusu þessa ömurð yfir okkur.

 6. Tek undir með Hauki. Alvarlegar fallasíur í annars fantavel skrifaðri lesningu. Og í ljósi ESB umsóknarþráhyggju Samfylkingarinnar þá finnst manni eins og margt Samfylkingarfólk vilji samþykkja hvað sem er, bara til að það stoppi ekki umsóknarferlið. Hvað myndum við kalla slíkt ef rétt er?

 7. Þakka þér frábær skrif.
  Drengskapur og æra hin nánasat gleymdu orð þarfnast nýs lífs í íslenskum sálum.
  Helga Ág.

 8. Sæll Haukur og velkominn.

  Áróður segirðu? Ég er bara alveg sammála því. Ég veit reyndar ekki hvort ég á inni fyrir meistaratigninni, en þakka samt hólið. Athugaðu að það er hægt að reka áróður en segja samt satt hvert orð – þetta er hvorki neikvætt orð né jákvætt í sjálfu sér. Og ég fullyrði: Hver einasti sá sem tjáir sig opinberlega um Icesave-málið er að reka áróður.

  Auðvitað er þessi texti fullur af tilfinningum, frekar en beinhörðum staðreyndum og formfastri rökvísi. Þeir sem vilja kljást við svoleiðis ættu að glíma við Baldur McQueen, eða Jón Baldvin, já eða Grím Atlason eða Helgu Völu (fyrst þau villtust hingað – þakka ykkur blessuð), svo ég nefni nokkra sem ég hef séð reyna að taka fyrir staðreyndir málsins, yfirvegað og án heimóttarskaps. En mér finnst alveg mega vekja athygli á að andstæðingar Icesave-samningsins eru ekki þeir einu sem er heitt í hamsi.

  1) Í fullkomnum heimi þyrfti hvorki að deila um þetta né annað. Þá gætum við rætt málin af yfirvegun, greitt úr því sem á greinir og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Réttkjörnir stjórnmálamenn (og embættismenn ríkisins) sögðu hverjum sem heyra vildi, bæði fyrir og eftir hrun, að þetta væri ábyrgð sem við tækjumst á hendur. Ég kaus þá ekki sjálfur, en þeir sátu í mínu umboði (les: almennings) samkvæmt leikreglum lýðræðisins. Þessu lofuðu þeir. Þetta (og meira til) staðfestu þeir með undirskriftum sínum í nóvember í samningsdrögum sem Íslendingar síðan höfnuðu. Hversu oft er hægt að ganga á bak orða sinna áður en það fer að varða við heiður? Þrisvar? Fjórum sinnum? Oftar?

  2) Þarna erum við “að hluta til” sammála. Nema að ábyrgðin á Icesave reikningunum var á herðum íslenskra yfirvalda, punktur.

  3) Auðvitað er þetta pólitík. Þessvegna er svona erfitt fyrir okkur að nálgast viðfangsefnið sem skyni bornar manneskjur. Og ekki síður erfitt að hlusta á þá sem gera það án þess að undan svíði (sjá þá sem ég nefndi áður, t.d.). Ég tek annars undir sem þú segir þarna, þ.e.a.s. ef með vísun þinni til „ákveðinna Vestur-Evrópuríkja“ er átt við öll Vestur-Evrópuríki nema eitt.

  4) Þarna erum við mestanpart sammála líka: Þetta er nánast það sama og ég held fram að ofan. Nema ábyrgðarleysið er ekki hægt að skrifa á þá sem þurfa að skrifa undir samninginn.

 9. Sæll einnig Gunnar og þakka þér. Má vera með fallasíurnar – megináherslan við skriftirnar var ekki á skothelda rökbrynju. En þú skalt endilega taka til konkret dæmi ef þig langar. Svo gleður mig að a.m.k. einn skuli leitast við að svara lokaspurningunni. 🙂

 10. Já Ásgeir, vissulega er þetta fíll. Og þess þá heldur lokar hann veginum.

  Annars gaman að sjá ykkur, öll með tölu. Gleður mig hvað allir ganga vel um hérna.

 11. Takk fyrir þetta, það er allavega hægt að skilja þessi skrif, engin flókin orð sem þarf að leita að í orðabók og svoleiðis vesen. Ég veit að ég mun alltaf bjarga mér og mínum og eiga nóg að bíta og brenna, það verður kannski bara eilítið öðruvísi heldur en áður.

  En það er alveg satt að þetta er allt grautfúlt, en ég er sammála því að við þurfum að standa við þessa samninga, þó fúlt sé.

  góðar stundir og njótið nú góða veðursins
  Ingibjörg

 12. Þótt VG-rífist um þetta, eru þeir engar pöddur og hreyfingin ekki sú týpa að „fylkja sér um foringjann“, sama hvað á dynur. Við sáum nóg af þöggun og þýlyndi hjá fyrri ríkisstjórn. Nú skulum við bara takast á um þetta.

  Við erum fórnarlömb fyrri ríkisstjórnar (xD og XS, áður xB) sem matreiddi almenning ofan í hákarlana. Ég finn ekki til neins heiðurs með því að standa við loforð þeirra.

  Hins vegar finn ég til samúðar með fórnarlömbum þeirra, innlendum sem erlendum. Og vil gjarnan taka þátt í að bæta skaðann, en ég vil t.d. ekki taka að mér að stoppa persónulega uppí öll göt á regluverki ESB. Göt sem þeir myndu aldrei staga í sjálfir, kæmi svipuð staða upp hjá þeim.

  Hvað myndu t.d. Bretar gera, ef það yrði kerfishrun hjá þeim? Allir bankar á hausnum. Myndu þeri borga úti um allan heim. Aldrei.

  Ég finn ekki til neins stolts í því að borga skuldir glæpamanna. Ég ætla ekki að borga rolluna, sem bíllinn á undan keyrði á. Hins vegar skal ég taka þátt í að bera hana út af veginum… og elta svo bílinn.

 13. Nánari umhugsun: Þessi fyrrum nýlenduveldi bæta ALDREI neinn skaða sem þau valda. Höfum það á hreinu. Stillum því samviskubiti okkar í hóf.

  Aflandseyjakerfið fundu bretar sjáfir upp. Látum þá um afleiðingarnar. Þeir bjuggu til þetta kerfi, sem grefur undan þeirra eigin samfélagi – og nú okkar. Hinn almenni Breti kaus eiginhagsmunaseggina, sem fundu þetta kerfi upp. Þeir bera því amk samskonar ábyrgð á því, og við kjósendur hér á landi berum á slúbbertunum í Sjálfstæðisflokknum.

  Auðvitað viljum við komast nokkurn veginn klakklaust út úr þessu… með því að gera einhvers konar samninga. Og helst viljum við að vesalingarnir sem lögðu peninga inná þessa reikninga, fái allt sitt til baka.

  Og auðvitað skammast ég mín fyrir samlanda mína, sem kusu þessa labbakúta, ár eftir ár, vertíð eftir vertíð. Leit í spegil og taldi sig hreinlega „of fínt“ til þess að kjósa VG, þótt það væri oft á tíðum sammála VG í einu og öllu. Leiddi frekar yfir sig Samspillinguna t.d. En ég létti ekki á samvisku minni með því að „dumpa“ Icesave skuldum á börnin mín og annarra.

  Og þótt þetta sé ekki alveg sambærilegt, þá má benda á að fórnarlömb nígeríusvindlara geta ekki farið til Nígeríu og fengið endurgreitt.

 14. Ég skil mjög vel hvað þú ert að fara Ragnar. Ég get bara ekki tekið undir þá niðurstöðu sem þú kemst að.

  Auðvitað verður að beita öllum þeim ítrustu ráðum sem til eru til að heimta þetta fé af óreiðumönnunum (hér stilli ég mig í orðavali). Mér blöskrar hversu lítið er búið að gera í því nú þegar. En það hvernig gera skal upp skuldirnar er ekki hægt að draga þangað til.

  En rollan verður andskotakornið að lenda á réttum reikningi áður en yfir lýkur. Annað væri hneisa.

  Insidentíelt, þá var það akkúrat þetta sem ég gerði þarna um árið: Ég elti fyrri bílstjórann upp heimreiðina á næsta bæ. Sagan af því sem gerðist á hlaðinu í framhaldinu er býsna skemmtileg (á íslenska fyndnimátann) en á ekki alveg heima með þeirri samlíkingu sem notuð var hérna. Enda er það náttúrulega einn af göllunum við samlíkingar: Þær eiga aldrei við að öllu leyti.

  Talandi um það: Þótt Nígeríulíkingin sé ekki alveg sambærileg, þá er hún þó svo nærri sanni að ég fann til þegar ég áttaði mig á því. Það er hægt að líkja íslenskum bankaklækjum við nígerískar svikamyllur. Það er sárt.

  Það er ógeðslega sárt.

 15. Getur þú útskýrt fyrir mér hvernig það er heiðarlegt að skrifa undir svona samkomulag sem við svo augljóslega getum ekki staðið undir? Samkvæmt skilningi mínum á heiðarlegri framkomu falla gúmmítékkaskrif undir óheiðarlega framkomu og ég mun ekki afsaka slíkt vegna þess að fólk lætur eins og það eigi ekkert val.

  Við eigum alltaf val og eigum hvorki að velja að ljúga því að okkur sjálfum né útlöndum að við ráðum við þessar skulbindingar til að ýta hinu opinbera gjaldþroti nokkur ár fram í tíman. Við eigum að koma heiðarlega fram og láta umheiminn vita að við lenntum í stórfelldu Ponzi-svikum og að við séum ekki í neinu standi til að standa við skuldbindingu svindlaranna. Við eigum síðan að leggjast í uppgjöri á hversu mikið við sem samfélag berum með réttu stóran hluta af ábyrgðinni á því hvernig fór og greiða þann hluta á eins mörgum árum og til þarf til að við samhliða getum staðið undir samfélaginu okkar.

  Við getum valið að skrifa bara undir og nota svo næstu árin til að koma okkur úr landi og greiða á endanum ekki neitt til baka og skilja Bretana og Hollendingana eftir með kröfur í tómt bú. Slíkt væri hinsvegar ekki heiðarlegt og frekar sorglegur endir á samfélagi sem lifði af móðurharðindin og Sturlungaöld.

 16. Komdu sæll og fagnandi Héðinn.

  Þér mælist vel. Og þú færir góð rök fyrir máli þínu. Þetta er illt mál og erfitt viðfangs.

  Ég óttast hvað gerist ef Alþingi hafnar samkomulaginu. Ef við ákveðum að skrifa ekki undir. Ég er sannfærður um að af tveimur illum kostum sé það sá verri. Og myndi hafa skelfilegri afleiðingar en hitt, bæði í lengd og bráð.

  Ef gefur auga leið að íslenska ríkið sé ekki til borgunar fyrir þeim ábyrgðum sem það tókst á herðar, þá sér það hver maður. Þá þarf augljóslega að leita annarra leiða. Um það deili ég ekki við þig. En að stíga fyrsta skrefið í átt til þeirra leiða með því að hafna að axla ábyrgðina til að byrja með, það sýnist mér augljóslega röng leið að markinu.

  Ég get ekki séð þetta mál horfa við öðruvísi en þannig að gagnvart Bretum og Hollendingum berum við, sem samfélag, alla ábyrgð á því hvernig fór. Það ganga enn um jörðina menn sem bera ábyrgð gagnvart okkur. Okkar skylda er að sjá til þess að hvað er þá varðar nái réttlæti fram að ganga. En sök okkar gagnvart Bretum og Hollendingum er söm fyrir því.

  Röng leið að markinu sagði ég. Ég hef ekki fylgst í þaula með plottum í þingsölum síðustu daga, en eitthvað hef ég séð um það að eftilvill sé verið að leita hófanna með einhvunnlags þverpólitískt samþykki með fyrirvörum (upphátt eða þegjandi). Ég gæti trúað að mér þætti það góð þróun mála. Ég kýs að bíða og sjá.

  Samþykki með fyrirvörum. Ekki með skilyrðum – skilyrði setur sá sem vill hafa hluti eftir sínu eigin höfði. Fyrirvara setur sá sem er boðinn og búinn til að gera eins vel og hann getur.

  Og mér finnst það algjör lágmarkskrafa á íslenska ríkið. Að það geri eins vel og það getur.

 17. Og auk þess, eins og ég sagði: ef við getum ekki staðið við ábyrgðir okkar, ef við þurfum að selja allar okkar auðlindir héðan og til endimarka tímans til að standa okkar pligt, þá það.

  Töff lökk.

  Skaðinn er löngu skeður. Ef okkur er ekki við bjargandi, þá er ekki hægt að skella skuldinni á þá alþingismenn sem samþykkja Icesave-samninginn. Með eða án fyrirvara.

 18. Takk. Takk. Takk.

  Þetta er frábærlega skrifuð grein 🙂

  Þú skalt endilega halda áfram að svara lögspekingunum fullum hálsi. Lífið á nefnilega alls ekki að snúast um túlkanir á lögum og orðum enda er tungumálið ófullkomið tæki sem auðvelt er að snúa upp á og út úr. Lífið á mun fremur að snúast um heilindi og gott siðferði. Það siðrof sem átti sér stað á síðustu árum setur svartan blett á Íslandssöguna. Það að leita diplómatískra lausna á þessari ömurlegu deilu er fyrsta skrefið í endurreisn íslensku þjóðarinnar.

 19. Ég skil vel þín hlið málsins en ég óttast afleiðingarnar af því að halda áfram ponzi-svindlinu og halda áfram að fá lánaða peniga m.a. frá frændum okkar á norðurlöndunum til að borga vexti af öðrum lánum. Sárst er þó að tekið skildi á móti láninu frá Færeyjum sem borin von er að þeir fái nokkurn tíman aftur. Við verðum að fara að horfast í augu við staðreyndir málsins og hætta að skaða vinaþjóðir okkar og fara í heiðarlegt uppgjör við þær sem heild sem gengur út á að viðurkenna að við ráðum ekki við þetta.

  Ef ég hefði vissu fyrir því að það væri stefnan eftir undirskrift Icesave-samkomulagsins gæti ég alveg fallist á hana, en stefnan er á að áframhalda ruglinu þar sem þú borgar vextina með trausti umheimsins og lánsfénum sem því fylgir. Umheimurinn á ekki að treysta því að fá peningana sína aftur þegar þeir lána okkur því þeir munu ekki gera það. Það eina heiðarlega í stöðunni er því að gefast upp. Ég mun allavega mæta með hvíta fánan í komandi mótmæli og tala fyrir heiðarlegri uppgjöf. Hvort sem framtíð okkar er hér á landi eða annarsstaðar eigum við að ganga frá þessu þrotabúi með reisn.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *