Landráðamaður ráðleggur (1. hluti): Þýskir vængir

Fyrir margt löngu furðaði ég mig á því að ekki væri unnið markvisst í því að halda til haga við hverja sé óhætt að skipta án þess að verið sé um leið að borga undir fólkið sem tók veð í börnunum okkar. Síðan þá hef ég ekki séð mikla burði í þá veruna. Mér var reyndar bent á tengslanet Tíðarandans sem var mikil opinberun, en það er samt ekki alveg það sama – það er ekki nógu gagnsætt fyrir hinn réttsýna neytanda. Kannski maður verði bara að reyna að halda því helsta til haga sjálfur.

Fyrir utan að í sumum geirum er sama hvert maður snýr sér: Er tildæmis ekki alveg örugglega ómögulegt að finna óspillt síma- og fjarskiptafyrirtæki á skerinu? Engin lágvöruverðsverslun virðist ósnortin (eða hvernig var annars með Krónuna? Hverjir eiga hana? – Er hún kannski illskást?). Og ekki einusinni hægt að fljúga úr vistarbandinu án þess að borga með sér, annaðhvort til Hannesar Smárasonar eða Pálma í Fons (leiðréttið mig ef þörf krefur samkvæmt nýjustu kaupunum á eyrinni).

Hélt ég. Þartil núna fyrr í vikunni.

German Wings er lággjaldaflugfélag sem flýgur vítt og breitt um Evrópu, og þarámeðal sýnist mér á heimasíðunni þeirra milli Reykjavíkur og átján áfangastaða sem spanna frá Lissabon til Berlínar. Ég hef ekki skoðað nema einn þeirra sjálfur – Stuttgart, þarsem það er sú borg sem er næst okkur hjónunum. Og ákvað að gera smá verðsamanburð. Ég bar annarsvegar saman við flug með Icelandair til Frankfurt, og valdi alltaf ódýrustu dagsetningar sem voru í boði innan þess ramma sem lagt var upp með. Hinsvegar skoðaði ég Iceland Express, og leyfði hvort heldur sem er flug til Frankfurt eða Friedrichshafen, eftir því hvort var ódýrara.

Dæmi 1: Einn einstaklingur sem flýgur frá Reykjavík í næstu viku og til baka viku síðar. German Wings býður honum að fljúga á 338 evrur, eða tæpar 61 þúsund krónur á gengi dagsins. Icelandair býður honum að fljúga fyrir tæp 73 þúsund, og Iceland Express býður upp á hvortheldur sem er, Frankfurt eða Friedrichshafen, á rúm 66 þúsund.

Dæmi 2: Fimm manna fjölskylda (2+2+1) flýgur út í byrjun ágúst til tveggja vikna. German Wings býður 1213 evrur, eða rúm 218 þúsund. Icelandair kemst oní rúm 235 þúsund, og IE flýgur þeim til Frankfurt fyrir rúmlega 214 þúsund.

Dæmi 3: 2 fullorðnir skreppa út um mánaðamótin ágúst/september (undir lok sumaráætlunar lággjaldaflugfélaganna). German Wings býður sérlega vel í restina á sumrinu og hleypir fólkinu fram og til baka á 458 evrur, eða rúmlega 82 þúsund krónur. Icelandair rukkar skötuhjúin um rúmar 117 þúsund krónur. Og IE býður þeim uppá Friedrichshafen fyrir 120 þúsund.

Af þessu sýnist mér að German Wings sé að minnsta kosti samkeppnishæft við hin flugfélögin tvö, ef ekki hreinlega það ódýrasta að jafnaði. Fólk ætti endilega að skoða málin betur og gera verðsamanburð fyrir sitt leyti.

Og það besta er að ég veit ekki betur en að það sé að öllu leyti í eigu þýskra kapítalista, og því algerlega ósnortið af útrásarvíkingunum. Mér finnst dálítið undarlegt að ég hef ekki orðið var við að þetta sé auglýst neitt þarna heima. Það ætti að vera létt verk að ná undir sig markaði með örfáum grípandi slagorðum. Hvernig væri tildæmis eitthvað svona:

Gerðu Íslandi greiða. Verslaðu fjarri heimabyggð.