Grand Prix der Volksmusik – kynning (fyrri hluti)

Sama ár og Ísland tók í fyrsta skipti þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva tóku þrjár sjónvarpsstöðvar í hinum þýskumælandi hluta heimsins sig saman um að halda sína eigin söngvakeppni til eflingar þjóðlegrar tónlistar og annarra fagurra gilda. Hin þýska Zweites Deutsches Fernsehen (ZDF), Svissneska ríkissjónvarpið (Schweizer Fernsehen) og Österreichischer Rundfunk (ORF) slógu saman í keppni þar sem lögin skyldu falla innan ramman þýskrar alþýðutónlistar (Volksmusik).

Fyrsta árið (sama ár og Gleðibankinn tapaði fyrir Söndru Kim í Björgvin) var keppnin haldin í Vín og þá vann Nella Martinetti fyrir Sviss með laginu Bella Musica. Í Hanover árið eftir (þegar Halla Margrét fór halloka fyrir Johnny Logan) var það aftur Sviss, þegar Maja Brunner vann með laginu Das kommt uns spanisch vor, og kom heldég engum spánskt fyrir sjónir. Ekki það að ég geti fullyrt, enda hvorugur fyrstu sigurvegaranna finnanlegur á internetinu í dag.

Fyrsta rafræna hreyfimynd- og hljóðheimildin sem fundist hefur af sigurvegurum GPdV er með Original Naabtal Duo sem unnu fyrir Þýskaland árið 1988 (ár Sverris Stormskers og Celine Dion) í Zürich með Patrona Bavariae. Þarna má sjá helstu aðalsmerki keppninnar sem hafa haldið velli æ síðan – gullfalleg melódía og bæði klæðnaður og sviðsframkoma til mikillar fyrirmyndar, auk þess sem ekkert er skilið eftir fyrir hendinguna í formi tónlistarflutnings í beinni útsendingu:

Árið 1989 var mikið niðurlægingarár í Evróvisjónkeppninni, bæði fyrir Íslendinga (sem vermdu botnsætið með Daníel Ágúst) og Evrópu alla, sem kaus yfir sig júgóslavnesku grúppuna Riva með ömurðina Rock me. En öðru máli gegndi með GPdV sem haldin var í Linz: Austurríki bar sigur úr býtum í fyrsta sinn þegar Stefan Mross blés sig inn í hjörtu þýskumælenda með Heimwehmelodie, fyrsta instrúmental vinningslaginu. Þetta er sko blástur sem bræðir steinhjörtu:

Nú skal farið hratt yfir sögu. Látum okkur nægja að taka saman að fyrstu fjórtán árin unnu Þjóðverjar keppnina fjórum sinnum, Austurríkismenn þrisvar, en Sviss hvorki meira né minna en sjö sinnum: fyrstu tvö árin, og svo fimm sinnum í röð 1995 til 1999. Lítum að lokum á hápunkt þessarar sigurgöngu svissneskra, lagið Ich suche nicht das Paradies sem Sandra Weiss söng sama ár og Páll Óskar steig sinn hinsta dans í Dyflinni:

Árið eftir varð breyting á framkvæmd keppninnar. Og það var líka ár mikillar stórstjörnu þýskrar alþýðutónlistar. Meira um það næst.