Mánaðarskipt færslusafn fyrir: ágúst 2009

GPdV 2009: Austurríki

Síðasta forkeppni Grand Prix der Volksmusik fór fram þrítugasta maí. Þar kepptu fimmtán þátttakendur um hylli landa sinna í Austurríki til að komast í úrslitakeppnina í München tvær vikur héðan í frá. Þetta var hörð og spennandi keppni og má með sanni segja að úrslitin hafi komið í opna skjöldu, enda sátu eftir með sárt ennið í lok kvölds ekki ómerkari nöfn en Steirerbluat, Zellberg Buam og Bernd Roberts.

Leona & Swen er dúett sem rétt marði Steirerbluat í blóðugri keppni um fjórða sætið með laginu „Mach das noch mal mit mir“ (7,42% greiddra símaatkvæða). Það er fyrsti smellurinn af plötunni „My Love“ sem væntanleg er í allar betri tónlistarbúðir 28. ágúst næstkomandi. Þau Leona og Swen eiga sér annars afskaplega sæta sögu – þau eru hjónakorn til átta ára og eiga sér sameiginlegan einlægan áhuga á listforminu, auk tveggja barna: þeirra Phillips (8) og Önnu (6).

Þótt ótrúlegt megi virðast var framkoma þeirra á undanúrslitakvöldinu frumraun þeirra í sjónvarpssal. Lagið sjálft sækir að vísu meira í Schlager og spænska þjóðlagahefð, frekar en þá þýsku, en við flutninginn er fagmennskan ein í fyrirrúmi. Eins og þau segja sjálf, þá hafa þau fært Volksmúsíkurgeiranum alveg nýja dúett-upplifun:

Þriðja sætinu náði stuðgrúbban Die Grubertaler með lagið „Du darfst beim Autofahr’n nit auf die Mädels schau’n“ (9,28%). Þeir Florian, Michael og Reinhard  eru bræður og leikfélagar frá uppsveitum Týról sem hafa, þrátt fyrir ungan aldur (22-25 ára) troðið upp við góðan orðstí í meira en sjö ár núna.

Die Grübertaler

Die Grübertaler

Lagið þeirra er holl áminning þeirra til allra ungra sveina sem nýbúnir eru að fá bílprófið: Það má ekki glápa á stelpurnar þegar maður er að keyra – það á að hafa bæði augun á veginum. Auglýsingastofa Umferðarráðs ætti endilega að setja sig í samband við þá strákana:

Andreas Gabalier er ungur og hjartahreinn lögfræðistúdent frá Graz sem hefur sungið sig inn hug og hjörtu Austurríkismanna með laginu „So liab hob i di,“ sem lenti í öðru sæti (12,36%) á téðu kvöldi. Hann semur öll sín lög og texta sjálfur (sem ku vera soddan rarítet í kreðsunum) og er auk þess býsna slyngur á harmónikku.

Lagið sem um ræðir er nokkuð greinilega ástarljóð, en hvað „So liab hob i di“ annars þýðir hef ég ekki minnstu hugmynd um. Sama segir reyndar gervallur þýskumælandi málheimur, enda er þetta sungið á einhverjum heimulegum Graz-díalekt. En það geta allir tekið undir með kynninum í Musikantenstadl in Tulln hér á eftir: Ástarljóð skilur maður fyrst og fremst með hjartanu.

Þá er það bara sigurlagið. Öllum að óvörum kom óþekktur katólskur prestur að nafni Franz Brei, sá og sigraði. Pfarrer Franz Brei & Signum hreinlega möluðu þetta (24,15%) með laginu „Das Leben.“ Ég kann ekki á því neina haldgóða skýringu, nema að það hlýtur að vera hátt hlutfall katólskra eldri kvenna með opinn símreikning og sterkan bent fyrir Volksmusik. Ekki samt það að ég ætli að kasta fyrsta steininum:

GPdV 2009: Þýskaland

Þýska forkeppnin í í Grand Prix der Volksmusik var haldin 21. maí og var með dálítið öðru sniði en í öðrum löndum, þar sem úrslit réðust ekki beint úr innhringiprósentum, heldur var skipt upp eftir stigagjöf frá Norður-, Suður-, Austur- og Vestur-Þýskalandi. Keppendurnir voru 15 og fékk hver frá einu upp í fimmtán stig frá hverjum landsfjórðungi. Ég hef áður minnst á þessa keppni og má til með að geta að ég sýti að Isartaler Hexen skyldu ekki hafa komist áfram.

Í þriðja til fjórða sæti voru tvö lög jöfn með 48 stig. Annars vegar voru það þau skötuhjú Claudia og Alexx með sinn hugljúfa móðurástaróð, „Mama, danke.“ Rétt er að vekja athygli á að þetta verður ekki eina lagið í úrslitum sem lofsyngur móðurástina (sjá sigurlagið í svissnesku forkeppninni) – ég hef rökstuddan grun um að þetta hafi meira en lítið að gera með það hverjir eru helstu markhópar keppninnar. Claudia og Alexx eru svo sannarlega ungur og ferskur slagaradúett sem hefur svo sannarlega tekið fólksmúsíkurheiminn með trompi síðan þau fóru að syngja saman fyrir fjórum árum. Og þau eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér, enda yngri en ég sjálfur, samanlagt. Og hafa útlitið svo sannarlega með sér – svo sannarlega draumapar hverrar tengdamömmu:

Claudia und Alexx – Mama, Danke

Það er nú meira en hægt er að segja um hrukkudýrin og hjónakornin þau Judith og Mel sem deildu með þeim þriðja til fjórða sætinu með laginu „Liebe gibt – Liebe nimmt.“ Þau hafa nú verið að í tuttugu ár og – eins og þau segja sjálf frá – standa á hápunkti ferils síns. Gegnum þykkt og þunnt, súrheit og sælu og það álag sem fylgir því að tjalda á hinum kalda og einmanalega toppi  þýskrar Volksmúsíkur, þá lafa þau enn saman, alltaf jafn ástfangin. Það er greinilegt að hér er sungið frá innstu hjartarótum um þeirra eigin persónulega reynsluheim (upptaka frá keppniskvöldinu sjálfu):

Öðru sætinu (með 52 stig) náði fjórtán ára fermingardrengur frá Karlsruhe, hann Rico Seith (heimasíðan hans er algjört cutting edge í Volksmusik-geiranum) með lagið „Tausend Augen Hoffnung.“ Fyrsta platan hans er væntanleg núna síðar í mánuðinum og mun eflaust renna út eins og heitar lummur, enda þétt pökkuð af slögurum sem hafa nú þegar gert það gott, svo sem „Santa Rosa“ og „Hallo Mam“ (samanber markhópun), að ógleymdu silfurlaginu. Ég hef því miður ekki séð hvernig hann stóð sig á þýska keppniskvöldinu, en hér er klippa sem ég hef sýnt áður frá öðru söngvakvöldi í sjónvarpssal:

Sigurvegari kvöldsins var Volksmusik-goðsögnin Oswald Sattler sem hafði sér til fulltingis fjallafóstbræðurna Die Bergkameraden til að kyrja átthagamærðina „Ich träume von der Heimat.“ Þeir möluðu þetta með næstum fullt hús stiga (59 stig) og stigið sem uppá vantaði fór frá norðurhlutanum til þeirra Judith og Mel, enda er það þeirra heimabyggð (mafía og klíkuskapur). Ég hef séð a.m.k. þrjár klippur af flutningi þeirra í sjónvarpssal og þeir eru ekkert um of að hrista upp í forminu – alltaf stilla þeir sér eins upp og sömu tveir fóstbræðurnir halda á sigvaðnum og ísöxinni. Sjáið hvernig þeir gersamlega áttu salinn á kvöldinu sjálfu:

GPdV 2009: Suður-Týról

Ég held að mig langi til að skrifa eitthvað um pólitík. En ég þyrfti þá fyrst að sofa á því nokkrar nætur í viðbót. Þangað til skal talað um eitthvað sem skiptir máli.

Suður-týrólska forkeppnin fyrir Grand Prix der Volksmusik fór fram þann 8. maí. Fimmtán keppendur mættu til leiks en einungis fjórir hlutu nægjanlega náð fyrir eyrum símnotenda til að taka þátt í úrslitakeppninni í München þann 29. næstkomandi. Og má með sanni segja að keppnin hafi verið hörð, enda mikið af hæfileikafólki og ástríðufullum Volksmusiköntum í héraði. Enn eitt árið stefnir í sterka keppendur frá Suður-Týról.

Hann Alexander Pezzei er ekki nema rétt nýskriðinn á þrítugsaldurinn, hann er borinn og barnfæddur Suður-Týróli og talar meiraðsegja ladínu (ladínsku?) að móðurmáli. Hann hefur helgað líf sitt Volksmusik allt frá sex ára aldri og þetta er að minnsta kosti þriðja skiptið sem hann tekur þátt í GPdV. Núna náði hann fjórða sætinu inn í úrslitin (með 11,64% atkvæða) með aðstoð þriggja gjörvulegra alpahornablásara. Sjáið Alex und die grödner Alphornbläser flytja lagið „Wenn i auf Bergeshöhen steh“ (sem ég held að þýði „Er ég stend á fjallstindi“ – hann er ekki að syngja á móðurmálinu heldur á einhvunnlags þýðversku):

Það eru ekki síður stórar kanónur sem náðu sér í þriðja sætið inn í úrslitin (með 14,34% greiddra atkvæða): söngvabræðurnir Vincent og Fernando með lagið „Die Engel von Marienberg“. Þeir eru hinir suður-týrólsku Simon og Garfunkel fyrir Volksmusik – syngja engilþýðum tvíröddum við settlegan undirleik og eru þessutan alltaf svo smartir í tauinu:

Vincent og Fernando

Þvímiður hef ég ekki náð að grafa upp hvernig þeir tóku sig út á landskeppniskvöldinu, en í sárabætur má hlusta á brot úr laginu um engilinn af Maríufjalli sem þeir sungu sig með inní úrslitin. Mér sýnist þetta á öllu vera alveg rosalega gott lag:

Vincent & Fernando – Der Engel von Marienberg

Sem er meira en ég get sagt um annað sætið (með 15,15% atkvæða), lagið „Mein Reschen am See“ með hljómsveitinni Sauguat (sem vill þó svo skemmtilega til að þýðir einmitt rosalega gott). Þeir sem hafa brennandi áhuga geta hlustað á lagið eins og það leggur sig með glærusýningu af hljómsveitinni og túrhestamyndum á þjónvarpinu. Öðrum ætti að nægja að sjá hvernig þeir taka sig út strákarnir, með ofurstuttu hljóðbroti úr téðu lagi:

Sauguat

Sauguat

Sauguat – Mein Reschen am See

Sigurvegari kvöldsins var fólksrokksveitin Volxrock (ég hef ekki hugmynd um á hvaða tungumáli þessi heimasíða er), sem hlaut 18,77% innhringdra atkvæða með laginu „Wenn du kannst.“ Og það fyllilega verðskuldað, verð ég að segja. Þetta eru mjög hæfileikaríkir strákar og með víðari tónlistarsmekk en maður sér vanalega í þessum bransa: Þeir geta troðið upp með allt frá hefðbundnu Volksmúsíkurgömludönsunum, gegnum Schlager og allt útí argasta rokk og ról: Status Quo og Creedence Clearwater Revival. Jafnvel AC/DC fyrir unga fólkið. Sigurlagið er léttur og leikandi slagari sem hrífur alla með í söng og dans sem það geta (wenn du kannst):

Þeir gera þetta vel, strákarnir.