IgNóbel gærdagsins og leiðin útúr kreppunni

Eitt af fáu sem hefur verið árviss viðburður á þessu bloggi mínu síðan ég byrjaði fyrir meira en sex árum eru IgNóbelsverðlaunin, sem veitt eru árlega til að kallast á við Nóbelsverðlaunin og hampa rannsóknum sem fá okkur til að hlæja, og síðan til að hugsa. Ég sá fyrr í vikunni að Nóbelsverðlaunin eiga í dálítilli krísu með það hvort eigi að taka upp nýja verðlaunaflokka í takt við nýja tíma. IgNóbellinn hefur aldrei verið fastur á þeim klafa og tilnefnir bara þá tíu fulltrúa sem þykja eiga það mest skilið, svo eru fræðasviðin ákveðin eftirá. Nánast undantekningarlaust eru þó veitt verðlaun í læknisfræði, líffræði, efnafræði, hagfræði og eðlisfræði, auk bæði Bókmennta- og Friðarverðlauna IgNóbels. Svo koma þetta þrenn til fimm verðlaun hvert úr sinni áttinni.

Nítjánda fyrsta árlega Ignóbelsverðlaunaafhendingin („19th First Annual IgNobel Prize Ceremony„) fór fram í gærkvöldi, og aldrei þessu vant var ég bara skúbbaður af öllum á íslenska internetinu – ég frétti af niðurstöðunum á vef Ríkisútvarpsins í morgun. Sem náttúrulega var vegna þess að IgNóbelsverðlaunin í hagfræði þetta árið unnu (og það verðskuldað) yfirmenn Kaupþings (Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Ármann Þorvaldsson et al.), Landsbankans (Björgólfur Guðmundsson, Halldór J. Kristjánsson, Sigurjón Þ. Árnason et al.), Glitnis (Þorsteinn Már Baldvinsson, Lárus Welding et al.) og Seðlabanka Íslands (Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason, Ingimundur Friðriksson et al.), fyrir sýnikennslu í því hversu hratt er hægt að breyta pííínulitlum bönkum í riiisastóra – og öfugt – og einnig fyrir að sýna fram á að eins er hægt að fara með heilt land eins og það leggur sig: Litlasta land í heimi getur orðið það stórasta – og öfugt.

Þeir kumpánar eru svo sannarlega í góðra vina hópi: Yfirmenn Enron, Arthur Andersen og fleiri álíka góðra fyrirtækja fengu hagfræðiverðlaunin árið 2002 fyrir nýstárlega notkun á ímynduðum tölum í viðskiptum; Nick Leeson og yfirmenn hans í Barings bankanum sáluga fengu hagfræðiverðlaunin árið 1995; Chilebúinn Jan Pablo Davila hlaut hagfræðiverðlaunin árið 1994 fyrir að afreka uppá sitt eindæmi að tapa hálfu prósenti af vergri landsframleiðslu Chile í spákaupaæði fyrir ríkisfyrirtækið Codelco (þess má geta að síðan hafa Chilebúar notað sögnina „davilar“ um það að klúðra málum á stórfenglegan máta – sbr „að hannesa“); eigendur Lloyd’s í Lundúnum árið 1993 fyrir klúður sem var víst svo skelfilegt að nálgaðist næstum Sjóvárskalann; og Michael Milken árið 1991, en heimurinn stendur í mikilli „þakkarskuld“ við hann fyrir að finna upp hin svokölluðu „ruslbréf“ (junk bonds).

Aðrir vinningshafar gærkvöldsins hafa hinsvegar fallið í skuggann af „Strákunum okkar.“ Það er miður, enda margt af frambærilegum kandídötum í öðrum flokkum:

Dýralæknisfræði: Veitt fyrir að sýna fram á að nytin úr Skjöldu, Huppu og Hyrnu sé meiri en úr nafnlausum stallsystrum þeirra.

Friðarverðlaun IgNóbels: Fyrir að skera úr um það með kontróleruðum tilraunum hvort sé hættulegra að vera barinn í hausinn með fullri bjórflösku eða tómri.

Efnafræði: Fyrir aðferð til þess að búa til demanta úr Tequila. Ósjálfrátt velti ég fyrir mér hvernig vísindamennirnir hafi haldið uppá áfangann.

Læknisfræði: Ignóbellinn í læknisfræði í ár fór til Dr. Donald Unger, sem í þágu vísindanna lét braka í puttunum á vinstri hendi tvisvar á hverjum degi í sextíu ár –  en aldrei á þeirri hægri – til að prófa þá kerlingabók að það orsaki liðagigt í fingrum. Ég mæli með því að smella og lesa frásögnina eins og hún kemur af kúnni með hans eigin ályktunum („This result calls into question whether other parental beliefs, e.g., the importance of eating spinach, are also flawed. Further investigation is likely warranted.“) og viðbrögðum jafningja á fræðasviðinu („Although it is not clear, it appears that the study was not blinded. Blinding would only be possible if the investigator didn’t know left from right.“). Það batnar svo bara í framhaldinu.

Eðlisfræði: Fyrir eðlisfræðilegu skýringuna á því af hverju óléttar konur detta aldrei fram fyrir sig.

Bókmenntaverðlaun IgNóbels: Féllu í skaut írsku umferðarlögreglunni fyrir að hafa skrifað fleiri en fimmtíu umferðarsektir á ökuníðinginn Prawo Jazdy – sem er pólska fyrir „Ökuskírteini.“ Minnir mig reyndar á söguna af einhverjum Íslendingnum sem tókst einhvern tíma að troða sér inná VIP blaðamannafund í útlöndum undir því yfirskini að hann skrifaði fyrir íslenska dagblaðið „Ökuskírteini.“ Hann hefði blaðamannapassa til að sanna það.

Lýðheilsa: Fyrir einkaleyfið á brjóstahaldara sem með nokkrum snöggum handtökum er hægt að breyta í tvær gasgrímur (sjá mynd) fyrir notandann og einn, hömm, heppinn náunga viðkomandi.

Stærðfræði: Þessi verðlaun voru veitt Gídeon Gónó Seðlabankastjóra í Zimbabve, sem veitti almennum þegnum góða talnaþjálfun með því að láta þá höndla með seðla allt frá einu senti upp í hundrað billjón ríkisdali (eða hundrað banderískar trilljónir: $100.000.000.000.000). Svakalega hlægilegt þetta þriðjaheimslið sem getur ekki haft stjórn á sínum eigin efnahag maður! Bloddí hilaríös!

Líffræði: Fyrir að sýna fram á að hægt er að minnka massa eldhúsúrgangs um heil níutíu prósent með bakteríum sem eru unnar úr hægðum risapöndunnar. Hænan sem verpti gulleggjunum bliknar í samanburðinum.

Að lokum: Kannski vísa IgNóbelsverðlaunin okkur veginn áfram? Smáríkið Liechtenstein hlaut í það minnsta hagfræðiverðlaun IgNóbels árið 2003 fyrir að bjóða uppá, fyrir rétt verð, heilt land fyrir hvern þann sem vildi leggja vel í ráðstefnuna sína, brúðkaupið, nú eða bara fyrir fermingar krakkanna.

Skyldi þetta geta verið leiðin útúr kreppunni?

One reply on “IgNóbel gærdagsins og leiðin útúr kreppunni”

Comments are closed.