Ellefu atriði við hrunið sem ég þoli ekki

Það er víst afmæli í dag. Fyrir mitt leyti hef ég hlakkað meira til annars afmælis sem verður eftir tvo daga. En það breytir því ekki að það er afmæli í dag, hvort sem manni líkar betur eða verr.

Af því tilefni vil ég ryðja frá mér nokkrum punktum um ýmislegt sem mér líkar verr frekar en betur.

– – –

Ég hef fengið nóg af því að heyra fólk halda því fram að það verði að komast á sátt í þjóðfélaginu. Fólk ætti að vera búið að átta sig á því fyrir löngu: Það á aldrei eftir að nást sátt í íslensku þjóðfélagi um hrunið, afleiðingar þess og aðgerðir til að bregðast við því.

– – –

Og ekki nóg með það: Ég hef fengið nóg af fólki sem talar um þetta sáttleysi eins og það sé eitthvað slæmt. Mér sjálfum finnst hreinlega nauðsynlegt að það ríki ósætti um hverja þá ákvörðun sem tekin verður í íslenskri stjórnsýslu um langa framtíð. Helst héðan og til eilífðar. Til að íslensk þjóð komist útúr þessum þrengingum sem hún er í núna er bókstaflega nauðsynlegt að hver höndin sé upp á móti annarri hvert einasta skref leiðarinnar. Ef klórað er undir yfirborðið á orðum margra þeirra sem vilja „ná sátt í þjóðfélaginu“ grunar mig að þá langi í sama samfélagslega drómann sem kom landinu í þessi vandræði til að byrja með. Það má aldrei verða.

Síðasta árið hafa Íslendingar lært að rífa kjaft við valdhafa. Þeir mega aldrei gleyma því aftur.

– – –

Því tengt: Ég er búinn að fá mig fullsaddan á þessu eilífa tuði um þjóðstjórn. Á hverju einasta rauða ljósi og biðskyldumerki sem stjórnvöld hafa ekið framá síðasta árið (allt frá því einn seðlabankastjórinn mætti á sögufrægan fund með skömmum fyrirvara) hefur hvert tækifæri verið gripið til að kalla á þjóðstjórn. En það verður bara að segja þetta upphátt: Það er bókstaflega útilokað að hægt sé að skapa starfhæfa þjóðstjórn, hvorki nú né nokkru sinni. Það mun ekki gerast svo lengi sem vötn renna til sjávar.

– – –

Og líka: Ég þoli ekki þegar vælt er eftir „sameiningartákni“ fyrir „íslenska þjóð“ á „þessum erfiðu tímum.“ Það er ekki til, það á ekki að vera til og það væri eitthvað verulega mikið að ef til væri nokkur skapaður hlutur (hvað þá manneskja) sem skipti nokkru máli og sem allir Íslendingar gætu sameinast um sem táknmynd sína.

Íslendingar eru klofin þjóð. Það er gjá milli þjóðar og þjóðar. Og þjóðar. Og þjóðar.

Já það er nokkuð: kannski gætum við einna helst sameinast um Almannagjá. Ekki útaf sögulegum signifikans, heldur sem jarðfræðilegt fyrirbæri. Sem táknmynd um það jarðrek sem hefur orðið á milli okkar og sem mun aldrei gróa um heilt aftur.

– – –

Sem dæmi: Ég þoli ekki þá sem gjamma um það að þeir neiti að taka að sér að borga skuldir annarra. Oft titlaðra óreiðumanna. Sérstaklega ef þeim finnst í öðru orðinu útilokað að íslenska ríkið taki á sig krónu vegna Icesave klúðurs Landsbankamanna, og í hinu skýlaus krafa að ríkið taki á sig afföll vegna gengistryggðra bílalána. Þarna sést klofningurinn í sinninu sjálfu. Það er til fólk sem gengur um með Almannagjá í höfðinu á sér.

– – –

Fyrir utan að mér finnst óþolandi þegar látið er eins og Icesave samningarnir séu stóri pósturinn í þessum vandræðum öllum, eins og vandræði okkar í dag yrðu eitthvað auðleystari ef þessi ógreiddi fyllerísreikningur sem Icesave er hyrfi fyrir eitthvert kraftaverk eins 0g dögg fyrir sólu. Því þeir eru það ekki. Og þau yrðu það ekki.

– – –

Og í guðanna bænum, ekki minnast á „vinaþjóðir okkar“ í mín eyru. Það er til fólk sem lætur og talar eins og Ísland eigi sér enga vini í veröldinni, fyrir það hvernig fulltrúar nánast allra annarra landa virðast sammála um að draga lappirnar við að aðstoða við viðreisnina þartil Íslendingar sjálfir hafi sýnt einhverja döngun og dug til að gera hreint fyrir sínum eigin dyrum. Meiraðsegja „vinaþjóðir okkar“ í Skandinavíu taka þátt í samsærinu um að þvinga okkur til aðgerða, segir fólk.

Gimja breik.

Íslenskan á sér málshátt:

Vinur er sá er til vamms segir.

– – –

Og fyrst ég er farinn að tala um Skandinavíu: Enn ein ástæðan fyrir mig til að láta þá fara í taugarnar á mér sem kveinka sér undan að „greiða skuldir annarra“: Er virkilega mögulegt að þetta sé sama fólk og með hinu munnvikinu kallar eftir endurreisn Skandinavíumódelsins í íslenskri pólitík, með öllum þeim sameiginlegu byrðum sem því fylgja? Er ég einn um að sjá misræmið? Almannagjána í hausnum?

– – –

Ég þoli ekki þegar fólk hrópar eftir „leiðréttingu krónunnar.“ Gott og vel: Ég hef séð bregða fyrir notkuninni í þeirri merkingu að áður hafi krónan verið alltof hátt skráð, og nú sé hún búin að leiðrétta sig. En mig langar stundum til að arga innan í mér þegar fólk kallar eftir að „leiðrétta“ krónuna í þeirri meiningu að fá hana aftur í átt að því sem hún var í þá gömlu góðu daga.

Ég hef sagt það áður: Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það. Það vissi það hver sem vildi vita að krónan var alltof hátt skráð. Hver sem augu hafði gat séð það. Og nú er hún að verða búin að leiðrétta sig: Munurinn milli Seðlabankans og erlendra markaða er víst kominn niður fyrir tíu krónur á evruna.

Það eru komnir nýir tímar. Þeim fylgir ný króna.

– – –

Og börnin okkar. Blessuð börnin. Það munu þungar byrðar lenda á þeim af völdum þess sem náði hámarki fyrir ári síðan. Ég tek undir með þeim sem ergja sig yfir því. Ég þoli það ekki. Mér finnst það næstum jafn óþolandi og fólk sem ergir sig yfir þessu í öðru orðinu, og kvartar yfir þeim þungu böggum sem lagðir eru á íslensku þjóðina akkúrat í dag. Niðurskurðinum og skattahækkununum.

En lets feis itt: Þess léttari sem byrðarnar eru núna strax, því meira af þeim lendir á börnunum okkar. Með vöxtum og verðbótum. Ef menn vilja fara þá leið, þá er þeim fullfrjálst að viðra þá skoðun sína. En ef í næstu setningu er talað um að það sé ekki sanngjarnt að velta byrðunum yfir á börnin okkar fer hljómurinn í orðunum að verða býsna holur og klingjandi.

– – –

Að ekki sé minnst á hvert einasta skipti sem ég sé eitthvert af smettunum sem báru bróðurpartinn af sökinni á þessu öllusaman voga sér að bíta í hæla og naga bök yfir því hvernig farið er að því að hreinsa til eftir þau. Ég bara…

…ohhh.

En það er víst nokkuð sem mér skilst að ég sé ekki einn um.

17 replies on “Ellefu atriði við hrunið sem ég þoli ekki”

 1. Þið eruð öll jámenn og vitleysingar. Ekki hlusta á þennan Hjörvar súrkálshaus.

 2. Þakka þér Arinbjörn – ég er reyndar að norðan sjálfur.

  Og þakka ykkur hinum öllum. Ég átti von á að heyra frá fullt af fólki sem væri ósammála mér, en nei, þessar skoðanir eru greinilega almennari en ég þorði að vona útfrá því sem ég sé gegnum þennan internetglugga sem ég hef til að guða uppá skerið.

  Og ah, þá sé ég rétt mátulega að Magnús hefur tekið upp hanskann. 🙂

 3. Svo við höldum nú í gagnrýna hugsun er hér mínar hugleiðingar út frá þínum:

  1. Varðandi sáttina tel ég að það sé soldið mikilvægt að við finnum okkur nokkuð breiðan bakgrunn til að grundvallaratriðin í því sem við ákveðum einfaldlega vegna þess að slíkum málum þarf að vera hægt að taka ákvarðanir sem halda í nokkra mánuði og jafnvel ár í einu ef við eigum komast eitthvað áfram. Þannig tel ég t.d. að það hafi verið mjög áhættusamt fyrir áhugamenn um ESB-aðild fyrir Ísland að fara í ESB samningana á minnsta mögulegum stuðningi því ef verða stjórnarskipti í miðju ferlinu og hætt verður við að klára samningana verður Ísland fær ESB en nokkru sinni. Eða heldur þú að við getum gengið inn og út úr ESB á nokkurra ára fresti? Sama gildir varðandi framtíðarskipulag á bankarekstri í landinu og hvaða starfsemi eigi að verða í samfélagslegum rekstri og hvað í einkarekstri. Ef við stöndum í að þjóðnýta og einkavæða rekstursfyrirkomulag til skiptis á nokkurra ára fresti rústum við efnahaglífinu okkar algerlega.

  2. Við getum horft til norðurlandanna og þess samningskúltúrs sem er þar um langtímamarkmið ríkisins sem gerir það að verkum að stóru málin þar fara fram í samkomulagi milli stærsta hluta þingsins. Það setur ekki samfélagin þar í dróma heldur gefur þeim kjölfestu í stjórnun sem gerir það að verkum að bæði ríki og efnahagslíf geta skipulagt sig til lengri tíma en nokkurra ára sem er forsenda þess að hægt sé að ná sjálfbærum hugsunarhætti inn í nokkuð kerfi. Það er innbyggður hvati til að gera hlutina hratt og illa með fókus á skammtíma hagsmuni í okkar kerfi og það kemur okkur í koll.

  3. Sammála þér um þjóðstjórnina. Alvarlegustu mistökin sem gerð voru í hruninu voru gerð meðan að stjórnarandstaðan hafði stigið til hliðar og leyfði framkvæmdarvaldinu að stýra í krafti neyðarréttar.

  4. Almannagjá er gott tákn fyrir Íslendinga.

  5. Skuldirnar í erlendri mynt er ólögleg og er því eðlilegt að færa þær yfir í venjulega verðtryggingu. Síðan er eðlilegt að skuldarar semji beint við erlendu kröfuhafana um afskriftir gegnum samtök sín og að ríkið blandi sér utan við þetta alfarið, nema þá til að leiða saman deilendur. Bæði gagnrýnin á að ríkið sé að taka á sig skuldir stórlaxanna og tilraunir til að bæta samningsstöðu skuldara gagnvart erlendu kröfuhöfunum er því gagnrýni á neyðarlögin og því tengdari en lítur út við fyrstu sýn.

  6. Deilan um Icesave gengur í raun út á hvort við eigum að fara í greiðslufallið strax eða seinna. Sumir telja að við munum standa betur í greiðslufalli í dag og að það sé hin rétta og heiðarlega leið þjóða sem ekki ráða við skuldsettningu sinni, en aðrir telja að við getum notað næstu ár til að velta vandanum á undan okkur og á meðan muni heimskreppan hjaðna og þá verði heimurinn mildari gagnvart okkur. Ég hallast að hinu fyrra en tel að það sé betra að við förum seinni leiðina ef það gerir það að verkum að við getum farið í greiðslufallið samstíga sem samfélag.

  7. Ef við tökum stórfelld lán frá vinaþjóðum okkar sem við höfum engan séns á að endurgreiða erum við ekki sérlega góðir vinir vina okkar.

  8. Skandinavíumódelið færir soldið af tekjum frá hinum best settu til millistéttarinnar og undirstéttarinnar en gengur ekki síst út á að dreyfa tekjum fólks milli aldursskeiða þess og sjá til þess að fólk veslist ekki upp í ellinni og hafi efni á að vera í námi en hafi á móti lægri neyslugeti á hámarkstekjutímanum. Það er því algerlega í mótsögn við skandinavíumódelið að færa skuldir frá yfirstéttarinnar yfir á undir- og millistéttina.

  9. Krónan verður rétt skráð þegar hún hefur fallið aðeins í viðbót svo jafnvægi komist á viðskiptajöfnuðinn. Fall hennar minnkar verðgildi launa og verðtrygðra lána og heldur þannig upp atvinnustiginu. Líklega þyrfti að setja á atvinnubótavinnu til að mannauðurinn okkar taki ekki varanlegum skemmdum meðan á kreppunni stendur en krónan gerir mest af verkinu. Það sem þarf að leiðrétta er misvægi launa og lána og auðveldast er að ná því inn með afnámi verðtryggingar en það má gera það líka með öflugri verkalýðsbaráttu.

  10. Hvað börnin varðar að þá skiptir mestu að passa upp á foreldra þeirra svo þeir flytji ekki úr landi en barnafjölskyldur þessa lands hafa farið einna verst út úr kreppunni sem gæti kostað okkur heilu kynslóðirnar úr landi. Verði engin börn til að taka við af okkur á vinnumarkaðnum verður til lítils að hafa safnað í góðan lífeyrissjóð.

  11. Allir þingmenn eru fulltrúar ákveðins hóps í samfélaginu og ef við eigum að forða borgarastríði í landinu okkar (tek fram að ég er hef ekki gert upp við mig hvort ég hafi áhuga á að forða slíku) verðum við að hlusta og taka tillit líka til þeirra sem hafa vægast sagt vonda reynslu af því að vera í stjórnmálum.

 4. Sæll Héðinn. Hjúkk að þú komst, liggur mér við að segja, enda hefði mærðin í kommentunum annars verið nægjanlega sterk árás á fyrsta punktinn útaf fyrir sig. (Fyrir utan þennan Magnús – hann er nú bara einhver þurs.)

  1) Það er nefnilega málið Héðinn. Við munum ekki einusinni geta komið okkur saman um grundvallaratriðin. Það er rokgjarnara ástand í íslenskum þjóðmálum en hefur verið í amk 30 ár. Ef við ætlum að bíða eftir sátt um grundvallaratriðin er eins gott að draga fram kúluhattana og rykuðu sparifötin. (ESB málin eru ís sem ég hætti mér ekki útá hér, þótt ég hafi skoðanir á þeim. Ég hefði getað rantað um ESB umræðuna. En hún átti ekki afmæli í gær.)

  2) Ég er sammála þér um þetta með innbyggða hvatann til þess að gera hlutina hratt og illa. Ég sé hann bara svo nátengdan þessu með drómann og sáttina. Það þarf að berjast fyrir langtímahagsmununum. Annars er líklegast verið að leyfa einhverjum að hlaupa í burtu með peningana.

  3) og 4) – Kannski eru bara allir á sama máli um þetta án þess að nokkur hafi kunnað við að segja það upphátt, ég veit það ekki (sjá þó blogg frá því um daginn hjá honum Daníel Frey hér á truflun – hann skúbbaði mig að minnsta kosti: http://truflun.net/daniel/?p=741).

  5) Lögfræðin verður settluð á annanhvorn veginn – það er ekki hún sem ergir mig hérna. Heldur tvískinnungurinn, almannagjáin: „Það er fáránlegt að ríkið taki á sig skuldbindingar ef það þarf þess ekki,“ (sem er ef sem ég er reyndar býsna ósammála sjálfur) „nema það séu skuldirnar mínar.“

  6) Ég hallast að hinu seinna rétt eins og þú útfærir það. Og kemst þarmeð kannski í mótsögn við sjálfan mig úr fyrsta punktinum. Mér er sama: Ég er einstaklingur og á að geta rúmað andstæðar skoðanir (og kemst þarmeð einnig í mótsögn við sjálfan mig í punkti fimm). Það er ekki eins og ég sé StjórnmálaFLokkur.

  7) Það var ekki það sem ég átti við. Heldur barlómurinn sem maður hefur heyrt um að „vinaþjóðir okkar“ hafi svikið okkur um einhvern móralskan stuðning sem okkur fannst við eiga inni hjá þeim, bara útá frændskapinn. Meðvirknishugsunin.

  8 ) Þarna hefurðu nokkuð til þíns máls. Ég gerði mér ljóst að þarna dansaði ég á grensunni.

  9) og 10) – Þarna erum við í raun sammála.

  11) Það er rétt: Það hafa allir rétt til að tjá sig, sama hversu bíræfnir þeir eru. En þá hefur líka hver sem það lystir rétt til að benda þeim á að þeir séu að tala út um rassgatið á sér.

  Eða nei, það er ekki réttur okkar. Það er heilög skylda. Samanber punkta 1 og 2.

 5. Það er skemmtilega öðruvísi að ræða við þig á bloggi en aðra. Man aldrei eftir að hafa séð svona komment á blogginu áður:
  „Þarna hefurðu nokkuð til þíns máls. Ég gerði mér ljóst að þarna dansaði ég á grensunni.“

  Segir kannski soldið um skerta umræðuhefð á Íslandi 🙂

Comments are closed.