Voðalega datt botninn úr þessu þarna í restina.
– – –
Það sem eftir var dvalar var ágætt, svo ég komi því frá. Dálítið litlausara samt eftir að kona og börn fóru aftur heim á sunnudagsmorgni. En pródúktíft. Sem var tilgangur ferðarinnar til að byrja með.
– – –
Á þriðjudagskvöldinu eftir að þau fóru skrapp ég úr húsi vestur í bæ á óttalega menningarlegt mannamót. Og skemmti mér hið allrabesta. Nú má meiraðsegja sjá afraksturinn af því í Kanada á tölvuöld.
Ég leyfði frúnni að sjá þetta um kvöldið og hún sagði já, að sér þættu þetta nú ekki teljast með mínum betri verkum. En ég er ekki svo viss um að ég taki undir það, þótt ég taki annars mikið mark á henni. Það er eitthvað þarna sem ég tengi við, einhver merking milli suðurveggjanna á samhenginu sem rifjar upp sælar minningar frá því þegar ég gerði allt upptækt.
– – –
Annað: Sinfónían hafði samband við mig í haust og bað um afnot af þýðingunum á Carmina Burana sem ég vann fyrir Voxið á sínum tíma. Fyrir tónleika í febrúar. Svo ég gróf hana upp, renndi yfir og snittaði aðeins til. Fyrsta boðorð er eins og áður að íslenski textinn fari sem næst frumtextanum, línu fyrir línu, þannig að fari vel í tónleikaskrá. En þessutan að sé sem rembingslausast að lesa. Nánast algjörlega laust við allar bindingar í rím og stuðla. Svona er tildæmis þýðingin á In trutina kaflanum:
Á bláþræði
Á bláþræði tilfinninga minna
vega salt
lostafull ást og lítillæti.
En ég kýs það sem ég sé
og legg háls minn undir okið,
gef mig ljúfu okinu á vald.
Verst að missa af herlegheitunum sjálfur: Ég hefði ekkert á móti því að sjá þau Hallveigu og Brósa frænda troða upp í einu af mínum uppáhaldsverkum. Sem ég hef ítrekað farið á mis við að taka þátt í að syngja sjálfur. En þannig gengur það.