Mánaðarskipt færslusafn fyrir: janúar 2010

Ólöglegt verðsamráð

Ég var búinn að finna mér uppáhaldskaffi til hvunndagslegs heimabrúks – Dallmayr Prodomo – einhverntíma á haustdögum. Ætlaði að reyna að halda mig við það sem oftast. Þá birtist rétt fyrir jólin frétt um að dómur hefði fallið í máli sem snerist um ólöglegt verðsamráð kaffirisanna þriggja hér í Þýskalandi: Melitta, Tchibo og Dallmayr. Með sekt uppá samtals 159 og hálfa milljón evra. Þá ákvað ég að finna mér nýja uppáhaldstegund til heimilisnota.

Ég er enn að leita. Og tek feginn á móti uppástungum. Ég hef reynt mig við týpur frá bæði Jacobs og Eduscho án þess að ná fullum sáttum. En jólunum var blessunarlega reddað með sendingu ofanaf skeri af hátíðarblöndu frá Rúbín.

Soddan synd. Ég var mjög sáttur við Dallmayr Prodomo. En sumt gerir maður bara ekki. Hvar í landi sem maður er staddur.

Ekki satt?

Þrjú kvöld af sjónvarpi

Ég fór í afmælisferð til Kölnar.

(Hún var mjög ánægjuleg, takk fyrir að spyrja – sjá frúna fyrir ferðalýsingu.)

Við stoppuðum á leiðinni norðureftir til að fá okkur skyndibita. Í sjoppunni voru seldar DVD-myndir, sem var kjörið, þar sem maður á til að þreytast á þýska döbbinu.

Meir um það rétt bráðum.

En einnig fyrir það að við gáfum okkur einmitt í jólagjöf ferða-DVD-spilara, til að hafa ofanaf fyrir krökkunum í langferðum (einsog tildæmis til Kölnar). Og okkur eftir að þau eru komin í ró á gistiheimilunum.

Svo við keyptum okkur tvo diska. Annan þeirra horfðum við á strax þá um kvöldið: Cloverfield.

(Smáragrund? Smáravellir? Smáratún? Gengur ekki alveg í þýðingunni: kemur alltaf út einsog götuheiti í Grafarvogi…)

Við vorum aldrei búin að sjá hana áður. Og ég var mjög impóneraður. Skemmtilegasta skrímslamynd sem ég hef séð svo áratugum skiptir.

Vildi bara benda á þetta, ef einhverjir skyldu enn eiga eftir að sjá hana…

– – –

Hinn diskurinn sem við keyptum innihélt tvær myndir. Annarsvegar einhvern vestra, sýnist mér, með Angelínu Jolie. Hann er enn óséður. Hinsvegar myndina A Few Days in September – alþjóðlega spennumynd með Juliette Binoche,  John Turturro og Nick Nolte í blikkaðu-og-misstu-af-honum-ódauðum-hlutverki.

Þetta leit út sem hin sæmilegasta ræma á pappírnum. Og það má vel vera að hún sé það.

Nema.

Eins og með allar myndir sem maður getur keypt hérna úti, þá er hægt að velja um að horfa á hana með þýsk-döbbuðu hljóðrásinni, eða enska orgínalnum. Nema það sem var kallað ensk hljóðrás kom fljótlega í ljós að var að, hvaaað, svona tveimur þriðju til þremur fjórðuhlutum á frönsku.

Og engir textar í boði, takk fyrir.

Svo maður var tilneyddur að hamast á audio-takkanum í gegnum alla myndina, að ná enskunni hvenær sem hennar naut við, en skipta yfir í þýska döbbið um leið og franskan byrjaði. Og ekki einusinni hægt að reiða sig á amerísku leikarana: John Turturro talaði sig á frönsku gegnum alla myndina.

Gaman.

Það stakk dálítið meira en vanalega að heyra hve raddirnar í þeim Turturro og Binoche dýpkuðu í hvert skipti sem skipt var yfirá þýskuna. Það er nógu skrítið að horfa á heilar myndir með leikurum sem tala framandi röddu, þótt þeir fari ekki alltíeinu í mútur í miðri setningu.

– – –

Svo horfðum við á forkeppni Evróvisjón á rúv-vefnum í gærkvöldi. Og þótti báðum sem skástu kostirnir væru kosnir áfram.

(Er það ekki einmitt íslenska lýðræðið í hnotskurn þessa dagana? Frelsi til að fá að kjósa illskásta kostinn?)

Vorum á leiðinni heim í gær eftir skemmtilega heimsókn hjá vinum þegar ég sagði frúnni frá þessu: Við yrðum að horfa, þetta væri allt að fara í gang. Sigurjón Brink á sjó dreginn og alles.

„Sigurjón hver?“ spurði hún.

„Nú Sigurjón Brink manneskja,“ svaraði ég. „Fastamubla í hverri forkeppni í áraraðir. Bíddu bara, hann rifjast upp fyrir þér.“

Leið svo fram á kvöldið.

„Þarna er hann,“ sagði ég og benti á tölvuskjáinn. „Þetta er hann, þekkirðu hann ekki núna?“

„Njeeeh,“ sagði hún og mundaði prjónana. „Þetta er nú bara einhver Sigurjón Blank fyrir mér.“

Setti mig þá ofurlítið stúmm.

Og hefur téður Sigurjón aldrei verið titlaður annað en Blank á heimilinu síðan.

(Um þá tvo flytjendur sem enn eru ónefndir hef ég engin orð. Segjum að það sé af tillitssemi.)

Annars ætlaði ég ekki að fjalla neitt sérstaklega um íslensku forkeppni Evróvisjón þetta árið, þótt ég kannski stikli á einhverju aftur á næstu vikum.

Hér á heimilinu er nefnilega mun meiri spenningur fyrir Bundesvision 2010.

Um það verður pottþétt betur fjallað síðar.

Árið í aldanna skaup

Gleðileg jól og árs og friðar.

Þau voru ljúf hjá fjölskyldunni, bæði jólin og áramótin, eins og lesa má hjá frúnni. Þar má meðal annars sjá undirritaðan í Lederhosen og alsælan yfir íslenskri jólabók í hendi. Ég fékk þær þrjár: Svörtuloft eftir Arnald, Harm englanna eftir Jón Kalman og Milli trjánna eftir Gyrði. Ég byrjaði á Arnaldi, svo frúin gæti fengið hann þegar hún væri búin með þær þrjár sem hún fékk í jólagjöf.

Hann var ágætur, betri en ég átti von á. Mér fannst Vetrarborgin betri en flestum öðrum á sínum tíma. En Harðskafi síðri. Og nennti ekki að lesa Myrká í fyrra. Sýnist sem ég verði að gera ráðstafanir til að fá hana senda hingað út – mig er aftur farið að langa til að fylgjast með honum karlinum.

– – –

Nú vantar einn dag uppá að það séu sex ár síðan ég byrjaði að blogga, og tvo til að ég fylli þrjátíuogátta ára aldurinn. Ég verð að heiman og utan internets báða afmælisdagana. Hyggst ekki halda neitt frekar uppá þá. Enda hvorugur af stærra taginu.

– – –

Ég er núna að lesa Jón Kalman. Fer að verða búinn. En frúin er búin með sínar þrjár. Og Arnald að auki. Og bíður þolinmóð eftir því að ég klári.

Hún er hraðlæsari en ég.

Jón Kalman á skilið að láta vitna í sig:

Auðsveipnin virðist inngróin í þjóðina, eins og þrálátur sjúkdómur, dúrar einstaka sinnum niður en tekur sig alltaf upp aftur, og þá gjarnan andspænis auðmagni, þungum húsgögnum, sterkum og ósvífnum valdhöfum. Við erum hetjur við eldhúsborðið, auðsveip í stórum sölum.

– – –

Talandi um það, þá gæti ég farið að tala um þennan merkilega viðsnúning sem orðið hefur á þjóðinni minni frá sama tíma á síðasta ári. Veit það ekki…

En Icesave, eigum við ekki að tala um Icesave?

Blegh.

Ég skráði mig um daginn á hvatningalistann til Ólafs Ragnars. Þess sem átti að hvetja hann til að skrifa undir altso.

En síðan fór ég að hugsa.

Ég hefði eiginlega frekar átt að skrá mig á hinn, þennan sem er með 25% þjóðarinnar, eða hvað sem það var annars nákvæmlega, fyrir rest. Mikkamúsarlistann.

Bara af þveröfugri ástæðu við alla aðra.

Sumsé, ég fór að hugsa.

Það er dálítill alki í þjóðarsálinni. Kannski frá náttúrunnar hendi, ég veit það ekki. Allavega, það er þessi gríðarsterka þörf til að benda á alla aðra sökudólga en sjálfan sig. Einsog Breta og Hollendinga, í þessu tiltekna dæmi. Samninganefndina. Ríkisstjórnina. Forsetann. Alla nema sjálfan sig.

Og ég áttaði mig á að ef forsetinn skrifar undir fær hver einasti sérbarmandi og lómberjandi meðalíslendingur hina fullkomnu afsökun til að segja sig stikkfrí frá Icesave-klúðri Landsbankans og ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks/Samfylkingar. Það væri kannski jafnvel skárra að forsetinn tilkynnti það á morgun að hann skrifaði ekki undir, svo hver einasti Íslendingur væri neyddur til þess í kosningum að axla einhvern hluta ábyrgðarinnar á sínum eigin gjörðum og gjörðaleysi, í dag og síðustu nítján árin.

En það mun ekki gerast. Líkastil skrifar hann undir og heldur hola og hjartnæma ræðu af því tilefni. Ef ekki verður samningunum sennilega sagt upp af viðsemjendum hvorteðer og allt mun fara til fjandans án þarfar á frekari hjálp frá litla manninum. Þvímiður.

– – –

Við viljum ekki ögrun heldur viðfelldni, viljum ekki áreiti heldur gleymsku, ekki örvun heldur doða. Þessvegna sækir fólk í rímur en ekki skáldskap, þessvegna efast það ekki fremur en kindurnar…

– – –

Jón Kalman aftur. Gaman að hann skuli tala um kindur.

Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér þessu með sameiningartáknið. Fólk hefur nefnt Pál Óskar í framhaldi af ágætu skaupi (sem ég sá einmitt að kveldi nýársdags). Sjálfur stakk ég einusinni uppá Almannagjá. En kannski er sauðkindin best af öllu. Þessi sauðþráa skepna sem lætur smala sér onaf fjalli haust hvert og leiða sig til slátrunar af eigendum sínum, sífellt jarmandi á þá sem standa henni næstir.

Íslensk þjóð sem jarmandi óttaslegið ósjálfbjarga safn af fjalli á leið í pyngjur eigenda sinna.

Já, ég held það bara.

Almenningur. Tvírætt orð, þegar maður lítur þannig á það.

– – –

Gyrðir bíður á náttborðinu. Kemst í hann innan nokkurra daga – hann verður að koma með í ferðalagið, held ég. En frúin bíður ekki eftir honum. Hann á ég einn.