Árið í aldanna skaup

Gleðileg jól og árs og friðar.

Þau voru ljúf hjá fjölskyldunni, bæði jólin og áramótin, eins og lesa má hjá frúnni. Þar má meðal annars sjá undirritaðan í Lederhosen og alsælan yfir íslenskri jólabók í hendi. Ég fékk þær þrjár: Svörtuloft eftir Arnald, Harm englanna eftir Jón Kalman og Milli trjánna eftir Gyrði. Ég byrjaði á Arnaldi, svo frúin gæti fengið hann þegar hún væri búin með þær þrjár sem hún fékk í jólagjöf.

Hann var ágætur, betri en ég átti von á. Mér fannst Vetrarborgin betri en flestum öðrum á sínum tíma. En Harðskafi síðri. Og nennti ekki að lesa Myrká í fyrra. Sýnist sem ég verði að gera ráðstafanir til að fá hana senda hingað út – mig er aftur farið að langa til að fylgjast með honum karlinum.

– – –

Nú vantar einn dag uppá að það séu sex ár síðan ég byrjaði að blogga, og tvo til að ég fylli þrjátíuogátta ára aldurinn. Ég verð að heiman og utan internets báða afmælisdagana. Hyggst ekki halda neitt frekar uppá þá. Enda hvorugur af stærra taginu.

– – –

Ég er núna að lesa Jón Kalman. Fer að verða búinn. En frúin er búin með sínar þrjár. Og Arnald að auki. Og bíður þolinmóð eftir því að ég klári.

Hún er hraðlæsari en ég.

Jón Kalman á skilið að láta vitna í sig:

Auðsveipnin virðist inngróin í þjóðina, eins og þrálátur sjúkdómur, dúrar einstaka sinnum niður en tekur sig alltaf upp aftur, og þá gjarnan andspænis auðmagni, þungum húsgögnum, sterkum og ósvífnum valdhöfum. Við erum hetjur við eldhúsborðið, auðsveip í stórum sölum.

– – –

Talandi um það, þá gæti ég farið að tala um þennan merkilega viðsnúning sem orðið hefur á þjóðinni minni frá sama tíma á síðasta ári. Veit það ekki…

En Icesave, eigum við ekki að tala um Icesave?

Blegh.

Ég skráði mig um daginn á hvatningalistann til Ólafs Ragnars. Þess sem átti að hvetja hann til að skrifa undir altso.

En síðan fór ég að hugsa.

Ég hefði eiginlega frekar átt að skrá mig á hinn, þennan sem er með 25% þjóðarinnar, eða hvað sem það var annars nákvæmlega, fyrir rest. Mikkamúsarlistann.

Bara af þveröfugri ástæðu við alla aðra.

Sumsé, ég fór að hugsa.

Það er dálítill alki í þjóðarsálinni. Kannski frá náttúrunnar hendi, ég veit það ekki. Allavega, það er þessi gríðarsterka þörf til að benda á alla aðra sökudólga en sjálfan sig. Einsog Breta og Hollendinga, í þessu tiltekna dæmi. Samninganefndina. Ríkisstjórnina. Forsetann. Alla nema sjálfan sig.

Og ég áttaði mig á að ef forsetinn skrifar undir fær hver einasti sérbarmandi og lómberjandi meðalíslendingur hina fullkomnu afsökun til að segja sig stikkfrí frá Icesave-klúðri Landsbankans og ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks/Samfylkingar. Það væri kannski jafnvel skárra að forsetinn tilkynnti það á morgun að hann skrifaði ekki undir, svo hver einasti Íslendingur væri neyddur til þess í kosningum að axla einhvern hluta ábyrgðarinnar á sínum eigin gjörðum og gjörðaleysi, í dag og síðustu nítján árin.

En það mun ekki gerast. Líkastil skrifar hann undir og heldur hola og hjartnæma ræðu af því tilefni. Ef ekki verður samningunum sennilega sagt upp af viðsemjendum hvorteðer og allt mun fara til fjandans án þarfar á frekari hjálp frá litla manninum. Þvímiður.

– – –

Við viljum ekki ögrun heldur viðfelldni, viljum ekki áreiti heldur gleymsku, ekki örvun heldur doða. Þessvegna sækir fólk í rímur en ekki skáldskap, þessvegna efast það ekki fremur en kindurnar…

– – –

Jón Kalman aftur. Gaman að hann skuli tala um kindur.

Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér þessu með sameiningartáknið. Fólk hefur nefnt Pál Óskar í framhaldi af ágætu skaupi (sem ég sá einmitt að kveldi nýársdags). Sjálfur stakk ég einusinni uppá Almannagjá. En kannski er sauðkindin best af öllu. Þessi sauðþráa skepna sem lætur smala sér onaf fjalli haust hvert og leiða sig til slátrunar af eigendum sínum, sífellt jarmandi á þá sem standa henni næstir.

Íslensk þjóð sem jarmandi óttaslegið ósjálfbjarga safn af fjalli á leið í pyngjur eigenda sinna.

Já, ég held það bara.

Almenningur. Tvírætt orð, þegar maður lítur þannig á það.

– – –

Gyrðir bíður á náttborðinu. Kemst í hann innan nokkurra daga – hann verður að koma með í ferðalagið, held ég. En frúin bíður ekki eftir honum. Hann á ég einn.