Ég fór í afmælisferð til Kölnar.
(Hún var mjög ánægjuleg, takk fyrir að spyrja – sjá frúna fyrir ferðalýsingu.)
Við stoppuðum á leiðinni norðureftir til að fá okkur skyndibita. Í sjoppunni voru seldar DVD-myndir, sem var kjörið, þar sem maður á til að þreytast á þýska döbbinu.
Meir um það rétt bráðum.
En einnig fyrir það að við gáfum okkur einmitt í jólagjöf ferða-DVD-spilara, til að hafa ofanaf fyrir krökkunum í langferðum (einsog tildæmis til Kölnar). Og okkur eftir að þau eru komin í ró á gistiheimilunum.
Svo við keyptum okkur tvo diska. Annan þeirra horfðum við á strax þá um kvöldið: Cloverfield.
(Smáragrund? Smáravellir? Smáratún? Gengur ekki alveg í þýðingunni: kemur alltaf út einsog götuheiti í Grafarvogi…)
Við vorum aldrei búin að sjá hana áður. Og ég var mjög impóneraður. Skemmtilegasta skrímslamynd sem ég hef séð svo áratugum skiptir.
Vildi bara benda á þetta, ef einhverjir skyldu enn eiga eftir að sjá hana…
– – –
Hinn diskurinn sem við keyptum innihélt tvær myndir. Annarsvegar einhvern vestra, sýnist mér, með Angelínu Jolie. Hann er enn óséður. Hinsvegar myndina A Few Days in September – alþjóðlega spennumynd með Juliette Binoche, John Turturro og Nick Nolte í blikkaðu-og-misstu-af-honum-ódauðum-hlutverki.
Þetta leit út sem hin sæmilegasta ræma á pappírnum. Og það má vel vera að hún sé það.
Nema.
Eins og með allar myndir sem maður getur keypt hérna úti, þá er hægt að velja um að horfa á hana með þýsk-döbbuðu hljóðrásinni, eða enska orgínalnum. Nema það sem var kallað ensk hljóðrás kom fljótlega í ljós að var að, hvaaað, svona tveimur þriðju til þremur fjórðuhlutum á frönsku.
Og engir textar í boði, takk fyrir.
Svo maður var tilneyddur að hamast á audio-takkanum í gegnum alla myndina, að ná enskunni hvenær sem hennar naut við, en skipta yfir í þýska döbbið um leið og franskan byrjaði. Og ekki einusinni hægt að reiða sig á amerísku leikarana: John Turturro talaði sig á frönsku gegnum alla myndina.
Gaman.
Það stakk dálítið meira en vanalega að heyra hve raddirnar í þeim Turturro og Binoche dýpkuðu í hvert skipti sem skipt var yfirá þýskuna. Það er nógu skrítið að horfa á heilar myndir með leikurum sem tala framandi röddu, þótt þeir fari ekki alltíeinu í mútur í miðri setningu.
– – –
Svo horfðum við á forkeppni Evróvisjón á rúv-vefnum í gærkvöldi. Og þótti báðum sem skástu kostirnir væru kosnir áfram.
(Er það ekki einmitt íslenska lýðræðið í hnotskurn þessa dagana? Frelsi til að fá að kjósa illskásta kostinn?)
Vorum á leiðinni heim í gær eftir skemmtilega heimsókn hjá vinum þegar ég sagði frúnni frá þessu: Við yrðum að horfa, þetta væri allt að fara í gang. Sigurjón Brink á sjó dreginn og alles.
„Sigurjón hver?“ spurði hún.
„Nú Sigurjón Brink manneskja,“ svaraði ég. „Fastamubla í hverri forkeppni í áraraðir. Bíddu bara, hann rifjast upp fyrir þér.“
Leið svo fram á kvöldið.
„Þarna er hann,“ sagði ég og benti á tölvuskjáinn. „Þetta er hann, þekkirðu hann ekki núna?“
„Njeeeh,“ sagði hún og mundaði prjónana. „Þetta er nú bara einhver Sigurjón Blank fyrir mér.“
Setti mig þá ofurlítið stúmm.
Og hefur téður Sigurjón aldrei verið titlaður annað en Blank á heimilinu síðan.
(Um þá tvo flytjendur sem enn eru ónefndir hef ég engin orð. Segjum að það sé af tillitssemi.)
Annars ætlaði ég ekki að fjalla neitt sérstaklega um íslensku forkeppni Evróvisjón þetta árið, þótt ég kannski stikli á einhverju aftur á næstu vikum.
Hér á heimilinu er nefnilega mun meiri spenningur fyrir Bundesvision 2010.
Um það verður pottþétt betur fjallað síðar.