Temavika kórtónlist (fyrsti hluti): “Dona Nobis Pacem“

Kórtónlist bjargaði lífi mínu. Eða átti allavega góðan part í því. Ekki endilega í skilningnum að halda því í mér, en að minnsta kosti þannig að hún átti þátt í að beina því inná brautir sem það fylgir enn í dag: Í upphafi árs 1994 fór ég á mína fyrstu æfingu með Háskólakórnum og uppgötvaði eitthvað sem snerti mig á svo nýjan og óvæntan hátt að ég hef aldrei orðið alveg samur síðan. Ég söng með Háskólakórnum í fjögur ár, minnir mig, og skipti þá yfir í kórinn Vox Academica sem ég fylgdi næstu tíu árin.

Nú er reyndar annar veturinn í röð sem ég hef ekkert sungið – kemur til af kringumstæðunum. En ég veit og finn að ég mun taka til við það aftur síðar.

– – –

Ég hef tekið þátt í mörgum mögnuðum tónleikum. Fengið að syngja mörg stórfengleg verk. Svo hef ég kynnst nokkrum öðrum verkum sem ég hef ekki enn orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að taka þátt í að flytja.

Og mig langar skyndilega til að eyða púðri í að tala um nokkur þeirra.

– – –

Árið 1936 var frumflutt verkið Dona Nobis Pacem eftir Ralph Vaughan Williams. Á þessum árum gætti vaxandi spennu í Evrópu og Williams samdi verkið sem ákall og bæn um að skelfingar styrjaldarinnar miklu frá 1914-1918 yrðu ekki endurteknar: „Gef oss frið.“ Verkið er byggt í kringum texta latneskrar messu (sérstaklega Agnus Dei kaflann), með viðbótum úr ýmsum áttum: Biblíunni, þremur ljóðum eftir Walt Whitman, og úr þrumandi varnaðarræðu sem stjórnmálamaðurinn John Bright hélt í upphafi Krímstríðsins.

Verkið er fyrir kór og stóra hljómsveit með sópran- og baritónsóló. Það var gerður góður rómur að því á sínum tíma (og æ síðan), þótt bænin hafi ekki fengið að rætast. Það eru í því punktar sem kallast á við Requiem Verdis, og eins sækir Stríðssálumessa Benjamin Britten (War Requiem) nokkuð til verks Williams, með það hvernig hún notaði skelfingar seinni heimsstyrjaldarinnar sem brýningu um að leyfa svona nokkru ekki að gerast aftur.

Ég veit ekki til þess að það hafi nokkrusinni verið ráðist í flutning á Dona Nobis Pacem á Íslandi.

– – –

Það var einhverntíma sem Voxið söng verkið Agnus Dei eftir Samuel Barber. Þetta er raddsetning fyrir fjórradda kór á hinu gullfallega Adagio for Strings, sem ég held að allir hljóti að þekkja (tékkið á því í þessu geðveikislega flotta þjónvarpi). Og einhverntíma uppúr því vafraði ég inní Tólf tóna á Skólavörðustíg og sá disk sem innihélt meira eftir Barber, ásamt með verkum eftir Béla Bartók og Ralph Vaughan Williams. Hvorugt af fyrri verkunum tveimur náðu neitt sérstaklega til mín, en ég heillaðist af því þriðja: Dona Nobis Pacem. Gott ef það var ekki um svipað leyti sem gætti stigvaxandi spennu fyrir botni Persaflóa – þegar misgegnsæjum svikráðum var beitt til að blása glæður að eldi ófriðar, með lista „hinna staðföstu þjóða“ (svo) og öllu sem því fylgdi, og manni fannst sárvanta að heyrðist í þeim röddum sem kölluðu eftir friði.

Allavega, mér hefur verið hlýtt til þessa verks æ síðan. Og ég myndi stökkva á að fá að taka þátt í að syngja það, ef mér stæði það til boða.

– – –

Fyrir nokkrum mánuðum sé ég að var sett upp alveg prýðisgóð þjónvarpssería með öllu verkinu einsog það leggur sig. Hún er vafin inn í færsluna hér að neðan. Ég mæli sérstaklega með klippu númer tvö, þeirri sem hefur að geyma textann úr ljóðinu Reconciliation eftir Walt Whitman:

Word over all, beautiful as the sky!
Beautiful that war, and all its deeds of carnage, must in time be utterly lost;
That the hands of the sisters Death and Night, incessantly softly wash again, and ever again, this soil’d world:
… For my enemy is dead—a man divine as myself is dead;
I look where he lies, white-faced and still, in the coffin—I draw near;
I bend down, and touch lightly with my lips the white face in the coffin.

Gullfalleg orð, og gullfalleg tónlist við þau.

– – –