Það er skemmst frá því að miðvikudagur og fimmtudagur fóru í lítið annað en vinnu. Tengdapabbi renndi eftir mér niðrá Sturlugötu síðdegis á miðvikudeginum og leyfði mér að fljóta með uppí Grafarvoginn. Þar voru mæðgurnar að tygja sig í sund með krökkunum og ég skellti mér með þeim. Vinkona þeirrar eldri fékk að fara með svo við fórum tvíbíla. Það var sitthvað vesen sem kom uppá á leiðinni, eitt og annað sem gleymdist og svo var Grafarvogslaugin lokuð vegna viðhalds, en við komumst loksins oní í Mosfellsbænum.
Þegar heim var komið uppgötvaði ég að ég hafði gleymt kútunum af stráknum í sturtuklefanum á leið uppúr, svo ég renndi uppeftir aftur til að ná í þá. Á leiðinni út með þá mætti ég draugnum af sjálfum mér.
Allir voðalega punkteraðir um kvöldið og snemma skriðið í kojs.
Í vinnudagslok í gær tók ég þátt í málstofu við læknadeild HÍ. Hún gekk vel. Fékk leiðbeinandann til að skutlast með mig uppí Grafarvoginn og ræða við hann í leiðinni. Svo ég yrði kominn heim fyrir klukkan sjö.Frúin fór í saumaklúbb um kvöldið, ég var heima með tengdó og krökkunum og horfði á Evróvisjón.
Stelpurnar fóru í skólann í morgun, tengdó til vinnu og frúin að útrétta fyrir sín mál, svo við feðgarnir vorum einir í kotinu. Höfðum það náðugt framaf, dvöldum aðeins útá leifunum af leikvellinum hér í botnlanganum (því sem eftir er eftir að hún Hanna Birna fjarlægði sandkassann) og gengum svo uppí Spöng þarsem ég sá að er meira í gangi en nokkru sinni. Mér líst sérstaklega vel á fiskbúðina. Svo sá ég að vídeóleigan er búin að gefa upp öndina. Segir manni eitthvað um það hvernig afþreyingarmenningin er að breytast, frekar en neitt um ástandið í þjóðfélaginu í dag.
Við feðgar fórum og skiptum með okkur línubát á Hlölla. Og ég mátti þakka fyrir að fá helminginn.
Nú síðdegis er yngri systirin komin heim og með vinkonu sína í heimsókn. Þau voru öll úti í pottinum á pallinum þegar fyrstu línurnar voru ritaðar. Núna heyri ég í þeim innan úr stofu.