Nú þegar frestur fyrir framboð til komandi stjórnlagaþings er útrunninn virðist sem þau slagi eitthvað á fimmta hundraðið. Dálítill munur frá því fyrir minna en þremur vikum þegar einhvernveginn virtist ósköp lítil umræða í gangi um komandi þjóðfund og kosningar. Nú berast líka fréttir af því að þjóðfundur í byrjun nóvember verði fullsetinn og ekkert sem bendi til annars en að þaðan eigi að geta komið skýr skilaboð frá fundargestum um þau gildi sem þeir vilja sjá í stjórnarskránni sinni.
Á fimmta hundrað manns gefur kost á sér í kosningum til stjórnlagaþings þann 27. nóvember. Ég verð einn þeirra.
Þetta er það sem mér finnst mestu máli skipta:
Mikilvægasta verkefni stjórnlagaþings verður að breyta hlutföllum í þrískiptingu valdsins, þ.e. að styrkja löggjafar- og dómsvaldið gegn framkvæmdavaldinu. Það þarf að treysta bæði framkvæmda-, löggjafar- og dómsvald gegn áhrifum flokkakerfisins, og vernda stjórnmálaumhverfið sem frekast er unnt fyrir áhrifum valdablokka og viðskiptalífs. Hlutverk, ábyrgð og réttindi forsetaembættisins þarf að afmarka nákvæmlega, og valdmörk þess við framkvæmdavaldið.
Margir óska sér ákvæðis um náttúruauðlindir sem þjóðareign í nýja stjórnarskrá. Þá verður að vera ljóst hvað átt er við, þannig að hafi raunverulegt inntak og merkingu. Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eru mun betri í dag en þau voru við upphaf lýðveldisins. Enn má samt til einhvers vinna – mér sjálfum er annt um að þar verði kveðið á um rétt fólks til eigin tungu og eigin menningar. Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju og afnámi atkvæðamisvægis eftir búsetu.
Á fimmta hundrað sem býður sig fram. Það eru gleðitíðindi.
Ég vona að hvar sem fólk kemur saman á næstunni noti það tækifærið til að ræða hvert við annað um stjórnarskrána, komandi þjóðfund og stjórnlagaþing, og hvernig það vilji móta lýðveldið til framtíðar. Ef vel tekst til er dálítið merkur tími að fara í hönd.