Til hamingju með dag íslenskrar tungu.
– – –
Það eru tvær fréttir sem mig langar að staldra við eftir daginn. Þær eru hvor úr sinni áttinni, þótt þær tengist. Sú fyrri er gleðileg (að mestu) og er einmitt í tilefni af deginum. Gísli Einarsson var í beinni útsendingu í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins frá Landnámssetrinu í Borgarfirði:
Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flutti ávarp og talaði meðal annars um mikilvægi þjóðtungunnar en minnti um leið á að hundruð Íslendinga hefðu annað tungumál, táknmálið, að móðurmáli og að því þyrfti einnig að hlúa. Einnig talaði hún um mikilvægi þess að nýir Íslendingar hefðu aðgang að íslenskukennslu og að þeim væri sýnd þolinmæði við íslenskunámið.
Að mestu gleðileg, sagði ég. Ég veit nefnilega ekki hversu margir heyrnarlausir hafa frétt af þessu ennþá. Þeir hafa að minnsta kosti ekki komist að þessu gegnum fréttirnar á internetinu. Þar er ekkert um þetta á prenti, það voru bara útvarpsfréttir RÚV klukkan sex sem impruðu á þessu. Sem kemur að takmörkuðum notum við fréttamiðlun til heyrnarlausa samfélagsins.
– – –
Það vilja margir að það verði grein í nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið sé á um það að íslenska sé opinber þjóðtunga. Ég er einn þeirra. En það verður þá um leið að tryggja rétt þeirra sem tala hana ekki. Það þarf að ganga kirfilega frá því að víst sé að slíkt ákvæði troði ekki á mannréttindum þeirra sem skilja ekki opinbera tungumálið. Þetta má ekki bara vera einhver grein sem við setjum inn án frekari umhugsunar, til þess eins að geta mært okkur af henni á dögum eins og í dag.
– – –
Önnur frétt sem barst í dag, og ekki alveg eins gleðileg og sú fyrri, er af baráttu heyrnarlausra við Tryggingastofnun Ríkisins. Úr frétt Vísis um málið:
Heyrnarlausir eru að mörgu leyti háðir táknmálstúlkum í samskiptum sínum við Tryggingastofnun ríkisins. Stofnunin lítur hins vegar svo á að henni sé ekki skylt að greiða fyrir túlka og því þurfa heyrnarlausir sem leita til stofnunarinnar sjálfir að greiða reikninginn. Um er ræða tæpar sjö þúsund krónur.
Sú opinbera stofnun sem sér um málefni almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar lítur sem sagt ekki á það sem sitt mál — hvað þá réttindi skjólstæðinga sinna — að þeir fái þjónustu á öðru tungumáli en íslensku, jafnvel þótt sama fötlun og veldur því að þeir leita til stofnunarinnar geri þeim erfitt um vik að eiga samskipti við hana öðruvísi en á táknmáli með aðstoð túlks.
Og þetta er án þess að þurfi að tilgreina íslensku sem opinbert tungumál í stjórnarskrá.
– – –
Þetta er gömul saga og ný. Í Mílanó var árið 1880 haldin alþjóðleg ráðstefna um menntun heyrnarlausra, sú önnur í sögunni. Fundargestir voru 164. Þar af var einn þeirra heyrnarlaus. Eftir viku fundahöld var ákveðið með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að notkun táknmáls væri skaðleg raddmótun og vitsmunaþroska heyrnarlausra, og því skyldi hætta að nota táknmál við menntun þeirra. Í staðinn skyldu heyrnarlausir öðlast menntun og fræðslu gegnum raddmál eingöngu.
Þessari stefnu var fylgt í þaula víðast hvar í heiminum — meðal annars á Íslandi — með þeirri mismunun og félagslegu einangrun sem hægt er að sjá í hendi sér. Þannig liðu meira en hundrað ár og sú saga verður ekki rakin hér. Ég vil þó minnast á þá uppreisn sem heyrnarlausir Íslendingar fengu haustið 2009, þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók skýrslu Breiðavíkurnefndarinnar þar sem m.a. var fjallað um Heyrnleysingjaskólann fyrir á Alþingi og baðst afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og íslenskra stjórnvalda á því sem þar kom fram.
Í júlí 2010 var svo 21. alþjóðlega ráðstefnan um menntun heyrnarlausra haldin í Vancouver. Í lokaályktun hennar voru allar ályktanir Mílanóráðstefnunnar dregnar til baka, beðist afsökunar á afleiðingum hennar, og stjórnvöld hvött til að taka tillit til allra tungumála og samskiptamáta við mótun menntastefnu sinnar.
Hér má aftur gleðjast yfir fyrri frétt dagsins.
– – –
Í ýmsum stjórnarskrám er hugað að réttindum heyrnarlausra og annarra málminnihlutahópa. Í finnsku stjórnarskránni frá 1999 er ákvæðið um opinber tungumál (finnsku og sænsku) fyrsta málsgrein sautjándu greinarinnar, „Um rétt til eigin tungu og menningar.“ Í framhaldinu er m.a. talað um að réttur málminnihlutahópa (Sama og Rómafólks) og réttur þeirra sem tala táknmál eða þurfa á túlkaþjónustu að halda vegna fötlunar skuli tryggður með lögum.
Takið eftir að greinin heitir ekki „Um þjóðtungu.“ Það er ekki til þess sem hún er.
Fyrir fleiri dæmi má benda á ljómandi góða samantekt Erlu Hlínar Hjálmarsdóttur, annars frambjóðanda til stjórnlagaþings. Þau spanna allt frá því að tryggja rétt fólks fyrir dómi og í samskiptum við opinbera aðila, yfir í að táknmál viðkomandi lands er viðurkennt sem opinbert tungumál til jafns við raddmál.
Í öllum álitamálum við ritun nýrrar stjórnarskrár eru fleiri en ein fær leið. Það á líka við hér. En að hnykkja á rétti heyrnarlausra til eigin tungu og eigin menningar finnst mér sjálfsagt og nauðsynlegt. Með einum hætti eða öðrum.
– – –
Að lokum er hér ljóð í tilefni dagsins. Það er flutt á íslensku táknmáli en er þýtt úr bandarísku táknmáli (ASL). Ensk þýðing fylgir: