Hvunndagurinn tekur á sig mynd í einverunni.
Það kom með mér hingað yfir fullur ruslapoki af fötum sem krakkarnir voru vaxnir uppúr. Á laugardeginum lagði ég uppí góðan göngutúr yfir í Waldhäuser Ost hverfið – hverfi með háreistum blokkum sem rísa yfir Waldhausen-býlið hérna austan við Heuberger-Tor-Weg. Ég vissi að það væri fatagámur þarna einhversstaðar. Taldi mig hafa nógu góða hugmynd nákvæmlega hvar til að geta rambað á hann.
Það var ekki alveg.
En ég fann hann fyrir rest eftir að hafa gengið góðan dagpart um hálft hverfið með fullan ruslapoka af fötum í fanginu. Fékk góða hjálp hjá afgreiðslustelpunum á OMV-bensínstöðinni við Waldhausen. Hann var þarna einhversstaðar.
Á leiðinni heim horfði ég á naktar greinarnar á eplatrjánum við Waldhausen og fór að hugsa um Mondrian. Fannst í smástund rofa eitthvað til. En skil samt enn ekkert hvað hann var að fara með öllum þessum kompósisjónum í rauðu, gulu og bláu.
Um kvöldið fór ég á körfuboltaleik. Sá Tígrana hans Walters tapa fyrir Trier. Strákarnir okkar byrjuðu vel í fyrsta fjórðungi en svo var þetta bara eintómt klúður hjá þeim í hinum þremur.
Ég keypti mér samt trefil, að sjálfsögðu.
Á sunnudeginum þann sextánda bar ekkert sérstakt til tíðinda. Fyrir utan að það laust niður í mig í morgunsturtunni að ég átti enn eftir að segja upp síma- og internetsamningunum mínum við Deutsche Telecom. Tveggja ára samningurinn sem ég skrifaði uppá við komuna rennur út þann fimmtánda apríl. Og klausa í samningnum um að maður verði að segja upp skriflega með þriggja mánaða fyrirvara, altsvo í mínu tilviki í síðasta lagi laugardaginn fimmtánda janúar. Annars endurnýjaðist samningurinn sjálfkrafa til tveggja ára í viðbót.
Fokk, sagði ég þá.
Þetta slapp samt fyrir horn, ég mætti eftir svefnlitla nótt við opnun á mánudagsmorgninum með uppsögnina tilbúna og undirskrifaða, búinn að æfa mig í helstu svívirðingum og fyrirfestufrösum. Hvernig á að segja „Bitte“ einsog viðmælandi manns eigi að skammast sín fyrir tilveru sína. En svo kom ekkert til þess, DT-strákurinn ósköp geðþekkur og allur af vilja gerður að slútta þessu. Málið er dautt, við reddum þessu bara.
Þeir eiga þetta nefnilega til líka, hérna úti. Ef pappírarnir eru svona nokkurn veginn í lagi.
Í gærkvöldi fór ég svo á tónleika á Schocken-klúbbnum í Stuttgart. Dró þangað með mér Frakka og Fríslenska valkyrju. Dikta lék fyrir, kannski ekki dansi, en svona nettu fótatappi. Góð stemming. Staðurinn hálffullur af Íslendingum – ranghugmyndir mínar um að ég væri nánast eini Íslendingurinn í Schwaben snarlega leiðréttar. Ég hafði samt ekki minnstu löngun til að tala við neinn þeirra.
Nema reyndar strákana sjálfa í Diktu, þegar ég keypti af þeim diskana þeirra báða. Og fékk plakat í kaupbæti. Allt áritað. Ég horfi á áritað plakatið uppi á vegg um leið og ég skrifa þetta:
Til Þín! Frá Okkur! Áfram Ísland!