Það er ekki margt sem drífur á dagana. En eitthvað þó.
Tónleikarnir með Joy Kills Sorrow í þýsk-bandarísku vináttumiðstöðinni voru frábærir. Svo frábærir að ég keypti tvo diska með þeim, einn fyrir mig og einn fyrir þýskan vin minn, vinnufélaga og fjölskylduföður sem bauð mér og fleirum út að borða í afmælismorgunkaffi á sunnudeginum. Það var drukkið kaffi og spjallað, tvær af fjölskyldunum eru á leið til Íslands í sumar og því var töluvert rætt um það hvað ætti að gera þar. Svo börðust krakkarnir fyrir því að farið var í arabíska símann. Nokkra hringi.
Bakkushan nennti ég enganveginn, þegar til átti að taka.
Á fimmtudagskvöldið var ég boðinn í mat til bandarískra nágranna. Þar var boðið uppá hið ágætasta „Gumbo,“ sötraður Stuttgarter Hofbräu og rætt um hin ýmsustu mál. Mér var boðið með niðrí D.A.I. að horfa á Superbowl í nótt, en ég þakkaði pent. Í staðinn ætlaði ég að fara með bóndanum á heimaleik með Walter Tígrunum niðri í Paul Horn Arena á laugardagskvöldinu. Um laugardagsmorguninn beið mín hinsvegar tölvupóstur frá honum þar sem hann sagðist vera veikur og ekki treysta sér. Í staðinn fyrir að fara einn á leikinn (þar sem ég hefði reyndar hitt a.m.k. tvo ef ekki þrjá vinnufélaga) ákvað ég að vera heima og reyna mig við að elda Maultaschen frá grunni. Það lukkaðist ekki nema svona og svona. Kannski engin skelfileg katastrófa, alveg ætt svosem, en bara ekki nógu gott. Það verður reynt aftur síðar.
Það er eitthvað sem stendur til á næstunni. Ég ætla að reyna að gleyma ekki að horfa á seinni undanúrslitaþáttinn á morgun (ólíkt þeim fyrri fyrir viku síðan), þar sem Þjóðverjar velja lag handa henni Lenu Meyer-Landruth til að keppa með í Evróvisjón í Düsseldorf seinna í vor. Ég segi kannski eitthvað um það seinna. Og jafnvel um íslensku keppnina – ég á mér hefð til þess.
Á miðvikudagskvöldið stefnir í að við förum út að borða nokkur á deildinni, með vinnufélaga og ágætum vini mínum sem veiktist í september síðastliðnum og er e.t.v. að snúa aftur þessa dagana. Um næstu helgi ætla ég svo að fara með bandaríska húsbóndanum að sjá heimaleik með VfB.
En núna ætla ég að horfa á annan þáttinn af sex í Das Boot – miniseríunni, sem ég gat ekki staðist að kaupa mér um daginn.