Ignóbelsverðlaunin 2011

Ignóbelsverðlaunin 2011 voru veitt við hátíðlega athöfn á fimmtudagskvöldið var. Eins og ég hef rakið á þessu bloggi á hverju einasta ári síðan ég byrjaði, þá eru þetta verðlaun sem kallast á við Nóbelsverðlaunin, en í stað þess að verðlauna það merkasta úr vísindaheiminum, þá eiga verðlaunahafarnir það sameiginlegt að hafa miðlað heiminum nýrri og áður óþekktri þekkingu sem fær fólk fyrst til að skella uppúr, og síðan til að hugsa. Í einhverjum tilvikum (þetta er þó ekki reglan) er um að ræða rannsóknir sem er ekki hægt og á ekki að vera hægt að endurtaka.

Meðal verðlaunahafa í ár kenndi margra grasa.

Ignobel2011-1
Skjaldbaka geispar. Skýringarmynd.

Frá örófi alda hefur fólk velt fyrir sér geispum og tilgangi þeirra, smithættu og þróunarfræðilegum uppruna. Ignóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði í ár fara til vísindamanna frá Bretlandi, Hollandi, Ungverjalandi og Austurríki fyrir framlag sitt til rannsókna á þessu sviði, greinina „No Evidence of Contagious Yawning in the Red-Footed Tortoise,“ (PDF) þar sem einmitt er sýnt fram á (titillinn segir þetta alltsaman, raunar) að ekkert bendi til þess að geispar rauðfættra skjaldbaka séu smitandi. Ekki fer neinum sögum af rannsóknum á geispatíðni rannsakenda meðan rannsóknin fór fram.

Ignóbelsverðlaunin í efnafræði fóru í ár til japanskra rannsakenda fyrir þróun þeirra á Wasabi-bjöllunni, brunavarnarkerfi sem er ætlað að vekja sofandi fólk í brennandi húsum um nótt með því að úða ertandi wasabi-dufti um vistarverurnar, eins og lesa má um í einkaleyfisumsókn þeirra þar að lútandi (PDF).

Hver kannast ekki við að hafa verið alveg í spreng, og láta það hafa áhrif á ákvarðanir sínar. Verðlaunin í læknisfræði fóru í ár til fjölþjóðlegs rannsóknarhóps (Holland, Bretland, Belgía, Bandaríkin, Ástralía) sem bar saman ákvarðanatöku fólks þegar því var ýmist 1) ekkert mál, 2) dálítið mál, 3) mikið mál, 4) óþægilega mikið mál, eða 5) þegar það var nýbúið að pissa. Rannsóknirnar sýndu fram á það að þegar maður er í alveg ógeðslega miklum hlandspreng, þá hættir fólki til að taka betri ákvarðanir um sumt, en verri ákvarðanir um annað.

"Tasks that make one sigh" - Titillinn segir það alltsaman.
"Tasks that make one sigh" - Titillinn segir það alltsaman.

Ignóbelsverðlaunin í sálfræði fóru í ár til hans Karls Halvor Teigen við Háskólann í Osló, fyrir rannsóknir hans á því hvað það er sem fær fólk til að stynja úr leiðindum. Það gerði hann með því að leggja fyrir viðföng sín ýmis leiðinleg úrlausnarefni (sjá mynd), og fylgjast með viðbrögðum þeirra við úrlausnina. Niðurstöður hans má lesa um í greininni „Is a Sigh ‘Just a Sigh’? Sighs as Emotional Signals and Responses to a Difficult Task„. Ekki fylgir sögunni hversu mikið hann Karl Halvor dæsti sjálfur við rannsóknirnar, en gera má því skóna að á verðlaunakvöldinu hafi hann haft um nóg að spjalla við handhafa lífeðlisfræðiverðlaunanna.

Bókmenntaverðlaun Ignóbels í ár féllu í skaut John Perry við Stanfordháskóla í Bandaríkjunum fyrir kenningu hans um skipulagða frestunaráráttu (Theory of Structured Procrastination), sem gengur í grófum dráttum út á að ágæt leið til að afkasta miklu sé að nota vinnu sína við eitthvað mikilvægt sem afsökun til að koma sér undan því að gera eitthvað ennþá mikilvægara. Verðlaunaverkið, „How to Procrastinate and Still Get Things Done,“ er aðgengilegt í fullri lengd á internetinu og hver sá sem ætlar sér stóra hluti í lífinu getur hérmeð notað lestur þess sem hina fullkomnu afsökun fyrir því að vera ekki að gera eitthvað annað akkúrat núna.

Ignobel2011-3
Karlkyns bjöllur í ástaleik. Við bjórflöskur.

Ignóbelsverðlaunin í líffræði fóru til Ástralíu, þar sem vísindamennirnir Darryl Gwynne og David Rentz komust að því að karldýrum bjöllunnar Julodimorpha bakewelli er gjarnt að reyna að maka sig við bjórflöskur. Í greininni „Beetles on the Bottle: Male Buprestids Mistake Stubbies for Females (Coleoptera)“ velta þeir fyrir sér mögulegum afleiðingum þess á vistfræði tegundarinnar og þróunarfræðilegum afleiðingum með tillliti til kenningarinnar um kynjað val.

Ignóbelsverðlaunin í eðlisfræði voru veitt frönskum og hollenskum vísindamönnum, fyrir rannsóknir þeirra á því hvers vegna keppendur í ólympísku kringlukasti verða ringlaðir, en keppendur í sleggjukasti hinsvegar ekki.

Heimsendaspámenn eiga sér langa og þyrnum stráða sögu. Í ár ákvað Ignóbelsverðlaunanefndin að heiðra þau Dorothy Martin (sem spáði heimsendi árið 1954), Pat Robertson (sem spáði heimsendi árið 1982), Elizabeth Clare Prophet (sem spáði heimsendi árið 1990), Lee Jang Rim (sem spáði heimsendi árið 1992), Credonia Mwerinde (sem spáði heimsendi árið 1999) og loks Harold Camping (sem spáði heimsendi í september 1994, og svo aftur í maí síðastliðnum og enn aftur núna síðar í þessum mánuði) með Ignóbelsverðlaununum í stærðfræði fyrir að kenna fólki að fara varlega í stærðfræðilegum útreikningum og ályktunum um afleiðingar þeirra.

Friðarverðlaun Ignóbels í ár hlaut hann Arturas Zuokas, borgarstjórinn í Vilnius, fyrir nýstárlega áætlun sína þess efnis að nota skriðdreka til að stemma stigu við ólöglega lögðum bílum í miðborginni. Jón Gnarr gæti íhugað einhverjar lausnir í líkingu við þessa til að taka fyrir það að fólk leggi ólöglega við íþróttamiðstöðvar og í miðborg Reykjavíkur á stórhátíðum:

Að síðustu má geta þess að John Senders við Torontoháskóla hlaut lýðheilsuverðlaunin fyrir tilraunir sínar í umferðaröryggi, sem fólust í því að aka eftir hraðbraut með hjálm á hausnum sem reglulega skellti hlíf fyrir augun á honum þannig að hann sá ekki hvert hann var að keyra. Hér er sjón svo sannarlega sögu ríkari: