Ég var á hjartnæmum tónleikum fyrr í kvöld: Tónleikum sem Félag heyrnarlausra hélt til að fagna því að Alþingi skyldi hafa viðurkennt íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra í vor sem leið. Heyrandi og heyrnarlausir listamenn fluttu tónlist hlið við hlið fyrir nánast fullri Langholtskirkju.
Falleg stund.
Hún minnti mig á dálítið. Mér varð hugsað til þess að öll lög kvöldsins voru lög við ljóð sem upphaflega voru samin við íslenskan eða enskan texta og svo þýdd yfir á táknmál fyrir tilefnið. Mér varð hugsað til þess að það er til ljóðlist á táknmáli sem hefur ekki verið þýdd yfir á íslenskt raddmál, hvað þá sett við tónlist. Og allt í einu rifjaðist upp fyrir mér kvöld á liðinni öld þegar ég sat með konunni minni á öldurhúsi í hópi heyrnarlausra og einn þeirra fór með ljóð fyrir okkur. Ég sá hann flytja það og hugsaði að þetta væri ekki hægt að þýða. En það skondna var að um leið og ég sá hann fara með ljóðið skildi ég um hvað það var, þótt ég kynni ekki tungumálið. Þetta ljóð rifjaðist upp fyrir mér í kvöld og mér datt í hug að ef það yrði þýtt, þá væri það einhvern veginn svona:
– – –
flýgur fugl yfir
(kyssir sléttan vatnsflötinn)
flýgur fugl undir
– – –
En svo hefðuð þið náttúrulega bara þurft að sjá það.