Mér finnst ekkert endilega nauðsynlegt að skjóta þá. En ég sé nákvæmlega ekkert að því, svo lengi sem veiðar eru innan sjálfbærs meðalhófs, umhverfis- og viðskiptalega.
Að því sögðu finnst mér aðgerð Einars K. Guðfinnssonar, að gefa út reglugerð um hvalveiðar til 2013, eftir að Geir H. Haarde hafði beðist lausnar fyrir ráðuneyti sitt, fyrirlitleg.
(Pungspark, er það ekki tískuorð dagsins í dag?)
Ég leyfi mér að skera þetta út svo ekki fari milli mála: Fyrirlitleg.
Eins og ég sagði: Ég get alveg trúað að stofnarnir beri þessa grisjun. Þótt ég hlæji að því argúmenti að hún hafi áhrif á viðgang annarra nytjastofna.
(Og meðal annarra orða, þá fékk ég fyrr í kvöld dýrindis bita af súrum hval í kvöldmat hjá tengdaforeldrum mínum. Og mér lá við að tárast. Ekki yfir því hvað mér þótti hann súr (sem hann vissulega var) heldur yfir því hvað þetta var ljúffengt. Alveg eins og ég mundi það frá því er ég smakkaði síðast, fyrir einhverjum áratugum.)
En efnahagurinn? Eitt er að deila um hvort þau störf sem vinnast við hvalveiðar tapist í ferðaþjónustunni. En ef þetta er iðnaður sem stendur ekki einu sinni undir sjálfum sér, ef ekki er einusinni hægt að selja afurðirnar án fyrirgreiðslupólitíkur og pilsfaldakapítalisma af gamla skólanum, þá er ekki verið að gera neitt annað en að skutla sig í afturbægslið.
Og mér hryllir við í hvert sinn sem ég heyri hin ýmsustu útvegssamtök fagna þessari ákvörðun í áróðursherferð (en orð við hæfi: herferð – þetta er skipuleg árás á viðkvæmustu og varnarlausustu bletti íslenskrar þjóðarsálar) þar sem hvalveiðar eru hylltar sem kærkominn og jafnvel ómissandi liður í viðreisn íslensks efnahagslífs, eða hvernig sem þetta er orðað.
Skotgrafir og skæruhernaður. „Sjúgiði bara þennan súra bita af rengi þarna, kommúnistadrullusokkarnir ykkar!“
Og hvalveiðar sem liður í viðreisn íslensks efnahags?! Gimjabreik, for krængátlád.