Þýska forkeppnin í í Grand Prix der Volksmusik var haldin 21. maí og var með dálítið öðru sniði en í öðrum löndum, þar sem úrslit réðust ekki beint úr innhringiprósentum, heldur var skipt upp eftir stigagjöf frá Norður-, Suður-, Austur- og Vestur-Þýskalandi. Keppendurnir voru 15 og fékk hver frá einu upp í fimmtán stig frá hverjum landsfjórðungi. Ég hef áður minnst á þessa keppni og má til með að geta að ég sýti að Isartaler Hexen skyldu ekki hafa komist áfram.
Í þriðja til fjórða sæti voru tvö lög jöfn með 48 stig. Annars vegar voru það þau skötuhjú Claudia og Alexx með sinn hugljúfa móðurástaróð, „Mama, danke.“ Rétt er að vekja athygli á að þetta verður ekki eina lagið í úrslitum sem lofsyngur móðurástina (sjá sigurlagið í svissnesku forkeppninni) – ég hef rökstuddan grun um að þetta hafi meira en lítið að gera með það hverjir eru helstu markhópar keppninnar. Claudia og Alexx eru svo sannarlega ungur og ferskur slagaradúett sem hefur svo sannarlega tekið fólksmúsíkurheiminn með trompi síðan þau fóru að syngja saman fyrir fjórum árum. Og þau eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér, enda yngri en ég sjálfur, samanlagt. Og hafa útlitið svo sannarlega með sér – svo sannarlega draumapar hverrar tengdamömmu:
Claudia und Alexx – Mama, Danke
Það er nú meira en hægt er að segja um hrukkudýrin og hjónakornin þau Judith og Mel sem deildu með þeim þriðja til fjórða sætinu með laginu „Liebe gibt – Liebe nimmt.“ Þau hafa nú verið að í tuttugu ár og – eins og þau segja sjálf frá – standa á hápunkti ferils síns. Gegnum þykkt og þunnt, súrheit og sælu og það álag sem fylgir því að tjalda á hinum kalda og einmanalega toppi þýskrar Volksmúsíkur, þá lafa þau enn saman, alltaf jafn ástfangin. Það er greinilegt að hér er sungið frá innstu hjartarótum um þeirra eigin persónulega reynsluheim (upptaka frá keppniskvöldinu sjálfu):
Öðru sætinu (með 52 stig) náði fjórtán ára fermingardrengur frá Karlsruhe, hann Rico Seith (heimasíðan hans er algjört cutting edge í Volksmusik-geiranum) með lagið „Tausend Augen Hoffnung.“ Fyrsta platan hans er væntanleg núna síðar í mánuðinum og mun eflaust renna út eins og heitar lummur, enda þétt pökkuð af slögurum sem hafa nú þegar gert það gott, svo sem „Santa Rosa“ og „Hallo Mam“ (samanber markhópun), að ógleymdu silfurlaginu. Ég hef því miður ekki séð hvernig hann stóð sig á þýska keppniskvöldinu, en hér er klippa sem ég hef sýnt áður frá öðru söngvakvöldi í sjónvarpssal:
Sigurvegari kvöldsins var Volksmusik-goðsögnin Oswald Sattler sem hafði sér til fulltingis fjallafóstbræðurna Die Bergkameraden til að kyrja átthagamærðina „Ich träume von der Heimat.“ Þeir möluðu þetta með næstum fullt hús stiga (59 stig) og stigið sem uppá vantaði fór frá norðurhlutanum til þeirra Judith og Mel, enda er það þeirra heimabyggð (mafía og klíkuskapur). Ég hef séð a.m.k. þrjár klippur af flutningi þeirra í sjónvarpssal og þeir eru ekkert um of að hrista upp í forminu – alltaf stilla þeir sér eins upp og sömu tveir fóstbræðurnir halda á sigvaðnum og ísöxinni. Sjáið hvernig þeir gersamlega áttu salinn á kvöldinu sjálfu: