Sótti fyrri meinalíffræðitímann af tveimur á miðvikudagsmorgninum – þetta er jú meginástæðan fyrir því að við erum hérna. Fannst ég vera klárasti nemandinn á svæðinu (og kannski var ég það, ég veit það ekki). Þetta gekk allavega ágætlega.
Vinnudagurinn þar á eftir fór hinsvegar fyrir lítið, þar sem ég þurfti að vera kominn heim um tvöleytið – frúin var búin að panta síðdegið fyrir sínar eigin stúdíur.
Hvað gerði ég með krökkunum? Mest lítið.
Hvenær var það nú aftur… Já, það var á mánudaginn. Þá var ég of seinn heim með strætó – rétt missti af sexunni niðri á Lækjartorgi þannig að frúin var of sein í klippingu. Á meðan fóru tvö þau yngri í heimsókn til gamalla vina og nágranna í … Bakkahverfinu? heitir það það? og við hjónin svo bæði eftir klippinguna til að ná í þau og spjalla við kunningjahjónin af gamla staðnum.
Það var ljúft. Og aldrei þessu vant varla nokkuð rætt um pólitík.
Ég má til með að geta þess að ég er ánægður með þessa klippingu. Hún fer henni.
En þetta var nú útúrdúr.
Aðeins til baka að miðvikudagsmorgninum: Fyrir utan kennslustofuna í Læknagarði lá fyrsta eintakið af morgunblaðinu sem ég hef séð frá því ég kom til landsins – það var ekki einusinni boðið uppá það í Flugleiðavélinni á leiðinni.
Ég blaðaði ekki í því. Ég hafði skárri hluti að gera.
Um kvöldið ákváðum við hjónin svo að skella okkur í bíó. Styrktum íslenska kvikmyndagerð og sáum Jóhannes.
Manni leið vel að henni lokinni. Aðallega fyrir að hafa tekið þátt í að efla íslenska atvinnuvegi.
– – –
Svo átti ég alltaf eftir að geta þess að við vorum dregin afsíðis á Frankfurt til að láta fremja sprengjuleit á fartölvunum okkar. Það var dálítið spes.
– – –
Í lok langs vinnudags í dag var indælt síðdegiskaffi hjá Ellu frænku minni. Þangað mættu bæði Sigga dóttir hennar og strákarnir hennar, og svo stóri bróðir minn með dóttur sinni (þau sjáum við aftur betur á laugardaginn kemur). Svo vorum við sein í kvöldmat með stórtengdafjölskyldunni á eftir.
Nú brá ég mér frá og hringdi í foreldra mína í Hveragerði. Það var ágætt í þeim hljóðið.
En vinnudagurinn sumsé. Hann var langur. Og snerist að hluta til um pólitík í restina. Af öðru og vísindalegra tæi en þá sem hefur verið rædd við önnur tækifæri í heimsókninni. Og sosum hvorki illt né gott um það að segja – þetta er partur af því að vera í bransanum.
En þegar ég gekk út á stoppistöð með ipod í hendi kom ekki til greina að hlusta á neitt annað á leiðinni til hennar Ellu frænku en Kaizers Orchestra. Þeir negla þetta. Ef ekki (blessunarlega) í textanum, þá í taktinum:
Nú eru allir gengnir til náða á heimilinu nema ég sem geng frá þessu lítilræði og sötra Polar. Frúin er í saumaklúbbi með æskuvinkonum sínum úr Borgarnesinu. Megi hún vera sem lengst og njóta þess hið besta.
Á morgun fæ ég frí og verð heimavið með börnunum.