Síðasta laugardag varð saklaus póstur velmeinandi stúlku til allra frambjóðenda (með hlekk á stjórnarskrá Bútan) lítil þúfa sem velti stóru hlassi. Fyrst komu einn eða tveir póstar þar sem henni var þakkaður áhuginn, svo annar hlekkur til baka, þá var allt í einu eins og frambjóðendur áttuðu sig á því að þeir væru allir komnir með tölvupóst hver hjá öðrum, fleiri bættust í hópinn til að tjá sig og áður en við var litið var hávaðinn eins og í fuglabjargi.
Í bestu merkingu þeirra orða.
Þegar hér var komið sögu var næsta skref að stofna póstlista og fara að ræða málin fyrir alvöru. Ekki hefur sljákkað í bjarginu nema yfir blánóttina síðan. Og hughreystandi hve vel fer á með öllum. Auðvitað ekki allir sammála um allt, en alltaf þannig að hægt er að ræða málin.
– – –
Fyrir rúmum mánuði var uggur í mér. Mér leist ekkert á þetta. Þess vegna bauð ég mig fram. Svo kom í ljós að ég var ekki sá eini, við vorum yfir fimm hundruð, flest með mikið til sömu hugmynd í grunninn um það hvað þyrfti að gera, þótt eitthvað greindi á um útfærslurnar.
Enn um sinn hafði ég þær áhyggjur að það væri hægt að velja saman 25 manns sem allir hefðu góðar, skýrar og mótaðar hugmyndir um úrbætur á stjórnarskránni, og ekki einu sinni svo frábrugðnar hver frá öðrum, en allt gæti samt farið handaskolum fyrir þessi vandræði með það sem virðist oft vera okkur svo erfitt: að opna hugann fyrir hugmyndum annarra, að taka gagnrýni þeirra á manns eigin.
En eftir að hafa fylgst með umræðum á póstlista frambjóðenda er mér farið að líða mun betur með þetta.
– – –
Það fyrsta sem sprettur af þessu er undirskriftalisti frambjóðenda (eitthvað á annað hundraðið þegar þetta er skrifað) þar sem skorað er á RÚV að taka sér tak og bæta úr umfjöllun sinni um kosningar til stjórnlagaþings. Það er grátlegt að sjá hvernig útvarp allra landsmanna situr með hendur í skauti meðan minni miðlar eins og Svipan og DV mala samkeppnina í umfjöllun.
Mér skilst að listinn verði afhentur með viðhöfn síðdegis á morgun. Enda tíminn fyrir ríkisútvarpið nógu naumur héðan af.
– – –
Og að síðustu: Mér er nánast sama hverja þú kýst – þetta er ágætt fólk upp til hópa. Svo lengi sem þú ferð og kýst einhverja. Það er það sem mestu máli skiptir.