Ólöglegt verðsamráð

Ég var búinn að finna mér uppáhaldskaffi til hvunndagslegs heimabrúks – Dallmayr Prodomo – einhverntíma á haustdögum. Ætlaði að reyna að halda mig við það sem oftast. Þá birtist rétt fyrir jólin frétt um að dómur hefði fallið í máli sem snerist um ólöglegt verðsamráð kaffirisanna þriggja hér í Þýskalandi: Melitta, Tchibo og Dallmayr. Með sekt uppá samtals 159 og hálfa milljón evra. Þá ákvað ég að finna mér nýja uppáhaldstegund til heimilisnota.

Ég er enn að leita. Og tek feginn á móti uppástungum. Ég hef reynt mig við týpur frá bæði Jacobs og Eduscho án þess að ná fullum sáttum. En jólunum var blessunarlega reddað með sendingu ofanaf skeri af hátíðarblöndu frá Rúbín.

Soddan synd. Ég var mjög sáttur við Dallmayr Prodomo. En sumt gerir maður bara ekki. Hvar í landi sem maður er staddur.

Ekki satt?