Temavika lágmenning (fyrri hluti): „Unser Star für Oslo“ (ist gefunden)

(VARÚÐ: þessi færsla er um Evróvisjón söngvakeppnina.)

– – –

Þegar kemur að Evróvisjón söngvakeppninni er Stefan Raab bjargvættur Þjóðverja.

Þetta er ekki vongóð draumlýsing, heldur staðreynd. Af síðustu tólf skiptum hefur þeim sex sinnum mistekist að skríða upp fyrir miðju. Af hinum sex skiptunum var Stefan Raab með puttana í þýska laginu í þrjú skipti: Hann samdi lagið „Guildo hat euch lieb!“ sem fleytti hinum ástsæla skallapoppara Guildo Horn uppí sjöunda sætið árið 1998. Hann söng sjálfur hið víðfræga „Wadde Hadde Dudde Da“ árið 2000, í föngulegum félagsskap til fimmta sætis. Og svo samdi hann aftur lag og texta árið 2004: „Can’t Wait Until Tonight,“ fyrir Max Mutzke, sigurvegara keppninnar SSDSGPS („Stefan sucht den Super-Grand-Prix-Star“), sem Stefan Raab hélt sem forval fyrir Evróvisjónkeppnina það árið. Það dugði til áttunda sætis.

Síðan hefur þátttaka Þýskalands verið ein samfelld eyðimerkurganga. Stefan Raab missti áhugann á Evróvisjón og startaði í staðinn sinni eigin söngvakeppni, „Bundesvision,“ sem hann hélt úti þartil í fyrra. Þá kom þýska ríkissjónvarpið ARD að máli við hann og kumpána hans á Pro Sieben sjónvarpsstöðinni og grátbað um aðstoð við að rétta úr Evróvisjónkútnum með einhverju í líkingu við SSDSGPS þarna um árið. Útkomunni úr þeim viðræðum var svo hleypt af stokkunum í gærkvöldi þegar fyrsti þáttur af „Unser Star für Oslo“ var sýndur í beinni útsendingu úr sjónvarpssal Pro Sieben í Köln.

Serían á sér forsögu: fyrr í vetur var farið af stað með inntökupróf í Idolstílnum þar sem leitað var að upprennandi stjörnum til að halda uppi heiðri þjóðarinnar. Þau bestu tuttugu úr þeim prufum eru þau sem fá að spreyta sig í tveimur fyrstu þáttunum, þeim í gær og öðrum að viku liðinni. Í hvorum þætti kjósa áhorfendur svo áfram fimm af tíu flytjendum. Síðan taka við þrír þættir í viðbót á Pro Sieben sem ég veit ekki alveg hvernig fara fram, því næst það sem er kallað „fjórðungsúrslit“ á ARD, þar á eftir „undanúrslit“ á Pro Sieben og loks endanlegur lokaúrslitaþáttur á ARD þann tólfta mars. Nákvæmlega hvernig skorið verður niður úr tíu í einn í seinni sex þáttunum hef ég ekki hugmynd um. Né heldur hvernig farið verður að því að velja lagið: hvort það sé partur af prógramminu eða hvort Stefan Raab sjái bara um það sjálfur þegar flytjandinn hefur verið fundinn. En í hverjum þætti situr hann í dómarasæti (svipað og Cowell et al.) og fær sér til fulltingis tvo meðdómara fyrir hvern þátt – alltaf nýja og nýja. Já, voðalega Idol eitthvað.

Og hvernig var svo þátturinn í gærkvöldi?

Hann var ekki alveg eins leiðinlegur og Idol, í stuttu máli. Þegar níu flytjendur voru búnir varð ég að játa þetta voru allt krakkar sem gátu sungið, svona nokkurn veginn, og höfðu einna helst mismiklar líkur á því að komast áfram eftir óljósari mælistikum einsog „karakter,“ „útgeislun“ og, tjah, „eigind.“

(er það ekki orð, annars?)

Þá steig á svið síðasti keppandinn, og líka sá yngsti, átján ára skotta frá Hanover að nafni Lena Meyer-Landrut. Það var eitthvað við það hvernig hún steig á sviðið sem sagði manni að annaðhvort yrði þetta alveg stórkostlegt fíaskó eða eitthvað algjörlega æðislegt. Eftir nokkrar sekúndur í viðbót var morgunljóst hvort væri. Kannski ofrausn að segja að stjarna sé fædd. En að minnsta kosti á leiðinni í burðarliðinn. Sjáið hana taka lagið „My same“ sem upphaflega var með Adele og gera að sínu eigin:

Ég gæti þulið upp hina krakkana fjóra, en þau voru minni spámenn. Ég geri mér vonir um sterkan og skemmtilegan kandídat í þættinum að viku liðinni, þá gæti orðið spennandi keppni í framhaldinu. Annars sýnist mér þetta bara búið.

Slúttum þessu á tveimur bónusum, þeim Guildo og Max (entransinn hans Stefáns hef ég birt hérna áður í öðrum pósti).