Framsókn og mannréttindi

Ok, lett mí gett ðis streit. Framsókn tilnefndi einstakling í mannréttindaráð borgarinnar sem er á þeirri skoðun að hann eigi að hafa hærri sess í samfélagi og meiri réttindi en þeir sem eru öðruvísi en hann. Þegar oddviti flokksins var beðin um útskýringar á þessu vísaði hann sérstaklega til skrifa þessa einstaklings um að trúfrelsi eigi ekki að gilda fyrir þá sem eru annarar trúar en hann sjálfur. En eftir að í ljós komu upplýsingar sem hægt er að nálgast með algjöru lágmarksgúgli (þetta kemur er t.d.  ofarlega á lista þegar nafn þessa einstaklings er gúglað, hefur líklega verið ofar fyrir atburði dagsins í dag) þar sem fram kemur að einstaklingnum finnst líka óboðlegt að þeir sem eru ekki sömu kynhneigðar og hann hafi sömu réttindi var hann látinn fara.

Það sem skipti Framsókn í Reykjavík máli var semsagt ekki það að þeir voru að skipa einstakling í Mannréttindaráð sem telur sig eiga að vera rétthærri en aðrir, heldur að inn í það mengi falla fleiri en bara þeir sem fulltrúar Framsóknarflokksins telja sig rétthærri.

En allt skilur þetta samt eftir sig eina spurningu: Af hverju var Gústaf Níelsson ekki tilnefndur af Framsóknarflokknum í nefnd sem hefur með skipulagsmál að gera?

Costco og frjálslyndið

Risastórt bandarískt verslunarfyrirtæki sýnir því nú áhuga að opna verslanir á Íslandi. Fyrirtækið vill geta selt lyf, áfengi og innflut kjöt í verslunum sínum hér á landi. Ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka vel í að breyta lögum og jafnvel veita undanþágur svo að það sé hægt.

Nú ætti ég auðvitað að gleðjast yfir því að hugmyndir um aukið frjálsræði í þessum málum fái góðar undirtektir hjá stjórnvöldum, og geri það svosem að einhverju leyti. En þetta er bara svo innilega lýsandi fyrir hentistefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að hugmyndafræði.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður, vísar á fréttina sem ég bendi á hér að ofan með þeim orðum að nú sé góður tími til þess að auka frelsi í viðskiptum. Af hverju fyrst núna? Flokkurinn hans hefur verið í ríkisstjórn í 19 ár af seinustu 23. Það hefur verið nægur tími til þess að leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum og að rýmka löggjöf um innflutning á kjöti. Vilja þingmenn Sjálfstæðisflokksins meina að það hafi bara ekki verið góður tími til þess?

Getur í alvörunni verið að það sé góður tími núna af því að Costco ætlar á móti að kaupa fisk af Íslendingum til þess að selja í verslunum sínum? Eða af því að Costco er svona alvöru, stórt bandarískt fyrirtæki?

Ef einhverjar breytingar (lagabreytingar nota bene, ekki undanþágur) í átt til frjálsræðis verða gerðar þá er það fínt. En mikið ofboðslega finnst mér tilefnið hallærislegt.

SÍS í skrýtnum leik – aftur

Ég fékk í hendurnar leyfisbréf sem leikskólakennari í júní árið 2011. Þá var staðan í kjaramálum leikskólakennara ekkert sérstök. Við vorum í raun tveimur samningum á eftir viðmiðunarstéttum þar sem samningur okkar brann inni í hruninu. Um það má lesa hér. Ég kom beint inn í stétt í kjarabaráttu, stétt sem var á leið í verkfall.

Degi eða tveimur áður en boðað verkfall átti að hefjast náðust samningar. Samningurinn var að ég held ágætur miðað við stöðuna sem var uppi en eitt það mikilvægast í honum var bókun sem í raun staðfesti það að leikskólakennarar ættu að vera á sambærilegum launum og viðmiðunarstéttir – sem eru fyrst og fremst kennarar á öðrum skólastigum.

Nú þremur árum síðar stöndum við aftur í kjarabaráttu. Núna er staðan sú að það er nýbúið að semja við viðmiðunarstéttirnar. Fyrir liggur bókun þar sem viðsemjendur okkar viðurkenndu að við ættum að búa við sambærileg kjör og þær. Samt sem áður virðast samningaviðræður ganga hægt og búið er að boða eins dags verkfall þann 19. júní. Af hverju gengur þetta svona hægt? Hafa viðsemjendur okkar, sveitastjórnir á landinu í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga skipt um skoðun? Ef svo er, er þá ekki svolítið mikilvægt að gert sé grein fyrir því hvaða rök liggja fyrir því?

En það er svo margt skrýtið við þetta ágæta samband sveitarfélaga. Fyrir þremur árum skellti sambandið út furðulegu spili inn í miðjar viðræður (hér og hér). SÍS lagði hreinlega til að sveitarfélög og leikskólastjórar fremdu verkfallsbrot með því að halda leikskólum opnum. Leikskólastjórar voru settir í slæma stöðu og urðu eðlilega ósáttir. Á endanum voru þessi tilmæli dregin til baka.

Í gær gerist það svo að SÍS sendi nánast samhljóðandi tilmæli til leikskólastjóra. Tilmæli sem sambandið dró sjálft til baka fyrir þremur árum. Tilmæli sem sambandið veit að fela að öllum líkindum í för með sér verkfallsbrot. Tilmæli sem stilla leikskólastjórum og öðru starfsfólki leikskóla sem ekki er í FL upp á móti leikskólakennurum.

En það er svosem ekki erfitt að sjá hver tilgangurinn er. Pólitíkusarnir sem stjórna SÍS eru jú akkúrat það, pólitíkusar. Og þetta er í raun bara ósköp hefðbundin pólitík sem snýst um það að hafa áhrif á almenningsálitið.

Sambandið vill fyrst og fremst stilla leikskólakennurum upp á móti börnum og foreldrum. Það vill gefa í skyn að leikskólar geti bara víst starfað þó að leikskólakennarar séu í verkfalli, en að vondu leikskólakennararnir standi í vegi fyrir því. Mér finnst ólíklegt að það verði gengið eftir því að farið verði eftir þessum tilmælum, enda var það líklega aldrei ætlunin. Það er algjört aukaatriði.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga er stjórnað af pólitíkusum. Stjórn þess skipa í dag Halldór Halldórsson, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Björk Vilhelmsdóttir, Guðríður Arnardóttir, Gunnar Einarsson, Elín R. Líndal, Eiríkur Björn Björgvinsson, Gunnlaugur Stefánsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Jórunn Einarsdóttir. Einhverjir af þessum einstaklingum munu fara úr stjórn á næstunni eftir sveitastjórnarkosningarnar en þeir bera í dag ábyrgð á athöfnum Sambandsins.

Það væri mjög áhugavert ef einhver myndi ganga á eftir því að þeir útskýrðu þetta seinasta útspil, og svo auðvitað hvort og þá hvað hafi breyst varðandi leikskólakennara og viðmiðunarstéttir frá árinu 2011.

Guðni Ágústsson og vonda fólkið á netinu

Guðni Ágústsson ætlar víst ekki að fara í framboð í Reykjavík. Framsóknarflokkurinn er í vandræðum eftir að Óskar Bergsson náði ekki, öllum að óvörum í flokknum af einhverjum ástæðum, að rífa fylgi hans upp í borginni og vék af framboðslistanum.

Einhvern tíman hefði þótt eðlilegast að næsta manneskja á lista hefði þá tekið oddvitasætið og aðrir færst upp. En í Framsókn skjálfa þeir sem ráða greinilega á beinunum og ákváðu að freista þess að fá stærri kanónu en Óskar og Guðrúnu Bryndísi til þess að leiða listann. Fljótlega eftir að Óskar hætti var nafni Guðna Ágústssonar lekið í umræðuna og sett af stað ferli sem átti að enda nú í dag með tilkynningu um að Guðni tæki að sér oddvitasætið í borginni.

En fléttan gekk ekki alveg upp. Það varð eitthvað minna úr því að Guðni væri talaður upp sem frambjóðandi sem myndi auka fylgi flokksins í borginni. Þvert á móti eiginlega. Og það bætti ekki úr skák að Guðrún Bryndís var greinilega mjög ósátt með þennan ráðahag.

Það sem gerðist hinsvegar var að fólk fór að rifja upp hitt og þetta úr sögu Guðna sem stjórnmálamanns, t.d. að hann hefði á sínum tíma talað um að flugvöllurinn ætti að fara úr Vatnsmýrinni, sem er algjörlega andstætt stefnu Framsóknar í borginni. Og svo fór fólk að benda á það hvernig Guðni hefur kosið að tjá sig um konur á skemmtikvöldum undanfarin misseri.

Í gærkvöld kom svo í ljós að Guðni er hættur við. Eyjan birtir frétt með alveg stórkostlegri fyrirsögn um að nettröllin hafi haft sigur. Í fréttinni er vitnað í   Styrmi Gunnarsson sem segir að lítil spenna sé eftir í kosningabaráttunni í borginni eftir að Guðni ákvað að fara ekki fram. Það er auðvitað tóm della, þó að það hefði auðvitað verið spennandi að sjá hvort að Guðna hefði tekist að færa Framsókn niður fyrir tvö prósentin.

En í fréttinni er líka vitnað í Egil Helgason sem segir:

Framboð Guðna hefur verið aðalfréttin síðustu vikuna – og aðalumræðuefnið á Facebook.

Reyndar verður að segjast eins og er að margir fóru algjörlega fram úr sér – sjaldan hefur maður séð jafn illa talað um mann á þessum umræðuvettvangi og Guðna síðustu vikuna.

Óhroðinn var eiginlega með eindæmum.

Fleiri hafa tekið undir þetta og virðast jafnvel halda því fram að þessi óhroði hafi orðið til þess að Guðni hafi hætt við.

En bíðum nú við, hvaða óhroði? Það sem helst er hægt að lýsa sem óhroða úr umræðunni síðustu daga eru orð Guðna sjálfs. Varla er það orðin óhroði og loftárásir að vitna í það sem menn sjálfir segja?

Og þeir sem segja að sjaldan hafi verð talað jafn illa um mann á Facebook en Guðna undanfarið geta ekki hafa verið að fylgjast vel með. Ef við höldum okkur bara við flokkinn sem Guðni er í þá hafa Sigmundur Davíð, Gunnar Bragi og Vigdís Hauksdóttir þurft að þola miklu harðari umræðu en Guðni nokkurn tíman. Mikið má skinn Guðna hafa þynnst frá því hann hætti á þingi ef hann hrökklaðist aftur ofan í barstólinn á Klörubar við þá umræðu sem hefur verið í gangi seinustu daga.

Það er eiginlega út í hött að harkan í umræðunni ein og sér hafi ráðið úrslitum. Mögulega er ástæðan sú að Guðni og fylgismenn hans séu einfaldlega það illa áttaðir að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því fyrr en á reyndi hvað svona hegðun fer illa í fólk í dag. Kannski voru gerðar einhverjar kannanir sem komu illa út. Kannski töldu menn líklegt, miðað við hversu fljótt ógeðsleg ummæli Guðna komu fram, að við frekari eftirgrennslan kæmu fram einhverjir hlutir úr tíð Guðna sem ráðherra og þingmanns sem gætu skaðað framboðið.

En að hvernig fólk brást við á Facebook sé ástæðan fyrir því að Guðni hætti við kaupi ég ekki. Ekki þegar um er að ræða flokk Sigmundar Davíðs og Vigdísar Hauksdóttur.

-bætt við

Ég gleymdi auðvitað einni mögulegri ástæðu fyrir því að Guðni gæti hafa hætt við. Innanflokksdeilum innan Framsóknar.

Að springa á limminu

Ég er búinn að gefast upp á mynd-á-viku verkefninu. Það kom semsagt í ljós að þegar maður er í fullri vinnu, MA námi, allskonar félagsstörfum og vill líka eiga tíma með kærustu og vinum þá er ekki gott að binda sig við svona verkefni. Vandamálið er svosem ekki að komast í að taka myndirnar, þegar maður er oftast með vél á sér gengur það ekkert illa. Að finna sér tíma til þess að vinna myndirnar og henda þeim á netið gekk hinsvegar ekki vel.

Ég ætla bara frekar að reyna að vera duglegur almennt að taka myndir, og mun örugglega deila eitthvað af þeim hingað.

Pólitíkusarnir og KÍ þingið

Þessa dagana stendur yfir 6. aðalþing Kennarasambands Íslands. Eins og venjan er á svona þingum komu pólitíkusar í heimsókn. Þær heimsóknir voru svolítið spes.

Illugi Gunnarsson er menntamálaráðherra. Það var auðvitað fullkomlega eðlilegt að hann kæmi á KÍ þing og héldi erindi. Það sem var ekki eðlilegt er að hann lét breyta fyrir sig dagskránni þannig að hann talaði fyrstur og rauk svo út. Hann þurfti víst að mæla fyrir málum á þingi. Þetta þýddi það að hefðbundin dagskrá, sem felst í því að formaður KÍ setji þingið eftir tónlistaratriði frá tónlistarnemendum og gestir tali svo á eftir, var rofin. Þetta þýddi líka að Illugi kom sér hjá því að sitja undir góðri og kjarnyrtri opnunarræðu Þórðar Hjaltested, sem menntamálaráðherra hefði haft gott af að hlýða á.

Þingfulltrúar voru ekki mjög glaðir með ráðherrann sinn. Og gleðin jókst ekki beinlínis þegar í ljós kom að málefnin sem hann þurfti að standa fyrir á þingi voru hlutir eins og örnefni. Já, örnefni.

Ræða Illuga var svosem ekkert merkileg. Það var ræða Halldórs Halldórssonar ekki heldur. Halldór talaði líkt og Illugi um mikilvægi sátta og samstöðu. Að við þyrfum að vinna saman að því að bæta menntakerfið okkar. Sem er auðvitað alveg rétt.

Þess vegna var alveg stórmerkilegt að sjá tóninn í auglýsingu Sjálfstæðismanna í Reykjavík sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Við hliðina á stórri mynd af Halldóri var texti þar sem það var m.a. fullyrt að skólakerfið hafði brugðist börnunum okkar en þrátt fyrir það fengi það að hjakka í sama farinu.

Fyrr má nú vera sáttatónninn.

Ég held að yfirgnæfandi meirihluti kennara átti sig á því að skólaþróun er bæði jákvæð og nauðsynleg öllum skólakerfum. Og þó að eflaust mættu einhverjir kennarar vera jákvæðari gagnvart breytingum þá held ég í alvörunni að það muni ekki standa á okkur að taka þátt í þeim og, eins og eðlilegast væri, að vera leiðandi þegar kemur að þeim.

Það verður hinsvegar að viðurkennast að viljinn til þess að standa í breytingum sem ákveðnar eru að ofan minnkar þegar komið er fram við mann á þann hátt sem stjórnmálamenn bæði í sveit og ríki hafa gert. Maður er einhvern veginn ekki til í samstarf við menn sem vilja vera vinir manns einn daginn en segja að maður valdi ekki starfinu sínu þann næsta.

Kennarar á móti breytingum

Algengt viðkvæði í umræðunni um styttingu framhaldsskólans er að kennarar séu bara alltaf á móti öllum breytingum. Að þeir séu hrikalega íhaldssöm stétt sem stendur vörð um staðnað menntakerfi sem ekkert hafi breyst í áraraðir. Ég held að þetta sé tóm vitleysa.

Andstaðan við „tillögurnar“ sem lagðar hafa verið fram núna hafa að mínu viti ekkert með það að gera að kennarar vilji heilt yfir ekki endurskoða námstíma til stúdentsprófs. Tvö atriði skipta þar miklu meira máli. Annars vegar það að það er ekkert fast í hendi varðandi þessar tillögur. Ráðherra hefur slegið úr og í varðandi það hvort að iðnnámið eigi að fylgja með. Hann talaði líka um það fyrr á kjörtímabilinu að skoða þyrfti skólakerfið heildstætt, en ekki endilega að einblína bara á framhaldsskólann. Og það er alveg augljóst að áður en svona nokkuð er ákveðið er gáfulegra að gera mat á skólakerfinu og sjá hverju þarf og er hægt að breyta. Allt þetta hafa kennarar bent á.

Hitt atriðið er svo það að sú taktík að henda styttingunni inn á samningsborðið örfáum klukkutímum fyrir verkfall, eftir langar viðræður, er einfaldlega fáránlegt. Og er einhver í alvörunni hissa á því að stétt sé ekki alveg tilbúin til þess að fá kjarahækkun útfrá þeim forsendum að hækkunin verði til með því að segja upp hluta hennar?

En það er þetta með það að kennarar séu alltaf á móti breytingum. Þeir sem halda þessu fram geta ekki haft mikla þekkingu á skólakerfinu á Íslandi og þeim breytingum sem þar hafa átt sér stað.

Kennaramenntunin sjálf tók miklum breytingum fyrir örfáum árum síðan. Nýjar aðalnámskrár eru samþykktar með nokkra ára millibili. Og ef við skoðum bara framhaldsskólann þá hefur verið hringlað fram og til baka með brautafyrirkomulag og einingakerfið á undanförnum árum.

Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla voru 4-5 brautir í boði í mörgum skólum. Á meðan ég var ennþá í námi var framboðið takmarkað við þrjár brautir. Fyrir nokkrum árum var tekið upp nýtt einingakerfi sem í rauninni gerði reiknilíkanið sem skólarnir notast við til þess að reikna út fjárhag sinn ónýtt. Það á enn eftir að bæta úr því (og hefði kannski verið gáfulegra og ræða það á undan þeim breytingum sem mönnum langar að gera).

Nú og svo er nú ekkert svo langt síðan að skólum var veitt leyfi til þess að ákveða sjálfir hver almennt lengd námstíma til stúdentsprófs er. Tillögur Illuga snúast því í raun um aukna miðstýringu í menntakerfinu.

Ég er algjörlega á því að það þurfi að gera breytingar á íslensku menntakerfi. Reyndar er ég á því að öll menntakerfi eigi alltaf að vera að leita að leiðum til þess að þróa sig áfram. Mér er hinsvegar ekki sama hvaða breytingar eru gerðar og á hvaða forsendum.

Og það að kennarar hafi staðið í vegi fyrir öllum breytingum á íslensku menntakerfi í áratugi er tóm della. Þvert á móti má jafnvel segja að stundum hefðu þeir einmitt betur komið í veg fyrir stefnulaust hringl með ákveðin skólastig af höndum yfirvalda.

Punktar

Stundum finnst mér voðalega gott að setja niður blogg sem eru bara nokkrir frekar samhengislausir punktar sem verða kannski seinna að alvöru bloggfærslum.

  • Stjórnunarfræðin sem ég hef lært í MA náminu eru áhugaverð. Eitt af því sem mér finnst áhugaverðast er að dágóður partur af þessu er eitthvað sem mér finnst í rauninni common sens. Það er t.d. nokkuð augljóst að til þess að breytingar gangi vel þarf starfsfólkið að vera með í för. Það þarf að sjá tilganginn með breytingunni og sjá kostina fram yfir gamla dótið. En það sem er svo ennþá áhugaverðara er að maður er alltaf að heyra af stjórnendum sem virðast ekki átta sig á hlutunum sem manni sjálfum finnst einfaldastir
  • Ég var að undirbúa mig fyrir foreldraviðtöl í leikskólanum í dag og skrifa niður nokkur atriði um börnin í hópnum mínum. Ég áttaði mig þá á því hvað ég er í rauninni með frábærum börnum á hverjum degi. Það er gaman.
  • Fred Phelps er dáinn. Það er ljótt að segja það en só bí itt: Farið hefur fé betra. Hann stóð fyrir hatur og fordóma og gerði virkilega ógeðslega hluti.
  • Ég hef staðið mig að því undanfarið að verða fyrir smá vonbrigðum þegar stórir sjónvarpsviðburðir eiga sér stað og ég er ekki í aðstöðu til að hanga á twitter. Seinni undanúrslitakvöldið og svo úrslitakvöldið í Söngvakeppninni um daginn er tvö góð dæmi. Það er fátt skemmtilegra en að gera smá grín á twitter þegar svona er í gangi.
  • Lokarannsóknin mín heldur áfram að formast í hausnum á mér, með aðstoð frábærra leiðbeinenda. Ég held að þetta verði ákaflega áhugaverð vinna.
  • Ég tók þátt í að dæma páskabjórana fyrir ákveðin fjölmiðil í gær (kemur í ljós um helgina). Það var mjög skemmtilegt. Ég rakst enn og aftur á það hvað smekkur fólks er ólíkur þegar kemur að bjór. Þarna var fólk með ólíkan bakgrunn og þekkingu á bjór og ég er nokkuð viss um að niðurstöðurnar hefðu orðið aðrar ef eintómir bjórnördar hefðu tekið þátt. En þá hefði væntanlega ekki verið dæmt á sömu forsendum heldur og almennir neytendur kannski ekki mikið grætt á niðurstöðunum.
  • Pústið í bílnum er farið aftur. Sennilega það sama og síðast, þ.e. að rörið hefur farið af alveg við hljóðkútinn. Hjörtur vinur ætla að kíkja á þetta með mér. Það er gott að eiga einn Hjört.
  • Í staðinn ætla ég að taka myndir í brúðkaupsveislunni hans og Valdísar í sumar. Nú er ég kominn með almennilegt flass á stóru vélina og ætla að bæta við mig diffuser fyrir veisluna. Þá verð ég held ég bara góður. Gríp litla krílið með líka.
  • Eva bauð mér á Ali Baba eftir bjórdómgæsluna í gær. Það er fínn matur. Svona staðir eru á hverju horni í Gautaborg þar sem ég kíkti til títtnefnds Hjartar í heimsókn 2012. Mér finnst það mjög sjarmerandi að geta gengið inn á svona litla og ágæta matsölustaði í íbúðarhverfum, þetta er eitthvað sem vantar mikið til hér. Ég bý sjálfur reyndar í næstu götu fyrir ofan Nýbýlaveg þannig að ég get svosem ekki kvartað sjálfur en Dominos og American Style er kannski ekki alveg sama dótið.
  • Á morgun er föstudagur. Einhvern veginn er maður ekki alveg jafn spenntur fyrir helgunum þegar maður veit að þær fara meira og minna í lærdóm. En það stefnir reyndar í vinahitting og spil líka. Það er eitthvað til að hlakka til.

Arðgreiðslur úr skólum

Nú berast af því fréttir að Menntaskólinn Hraðbraut muni hugsanlega hefja aftur rekstur. Skólinn var lagður niður í kjölfar þess að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á rekstrinum og komst að því að greiddur hafði verið út arður sem skólinn stóð í raun ekki undir, að nemendur í honum hafi um árabil verið færri en þjónustusamningur hans við ríkið hafi sagt til um og skólinn því fengið tæpum 200 milljónum hærri framlög frá ríkinu en honum í raun bar og þess að eigandi hans hafi lánað aðilum tengdum sér 50 milljónir af rekstrarfé skólans.

Þarna var semsagt eitthvað skrýtið í gangi en eigandinn hefur fengið jákvæðar móttökur frá núverandi menntamálaráðherra um að hefja rekstur aftur.

En það sem ég hef verið að spá í undanfarið tengist Hraðbraut í sjálfu sér ekki beint, en það eru arðgreiðslur úr rekstri skóla. Nú er það svo að hreinir einkaskólar finnast varla hér á landi, þ.e. skólar sem reka sig algjörlega með skólagjöldum. Nemendum fylgir fé, það hefur verið stefnan hér, og því fá skólar úthlutað opinberu fé til reksturs síns. Samt er það svo að sé rekstrarfélag sjálfstæðs skóla hlutafélag (en ekki t.d. sjálfseignastofnun) þá geta eigendur hans greitt sér arð af rekstrinum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hraðbraut kemur enda fram að arðgreiðslurnar hafi verið í samræmi við lög og þjónustusamning skólans, en að þær hafi hinsvegar ekki staðið undir sér þegar miðað er við að skólinn var að fá greitt of mikið miðað við nemendafjölda.

Finnst fleirum en mér þetta furðulegt? Að ég geti stofnað rekstrarfélag utan um skólahald, fengið úthlutað úr sjóðum sveitarfélags eða ríkis og greitt sjálfum mér arð af því fé? Og áður en einhver fer að tala um að í slíkum skóla væri hægt að innheimta skólagjöld þá vil ég benda á að forsendurnar fyrir því að hægt sé að reka t.d. framhaldsskóla eru einmitt þessi opinberu gjöld. Það er engin að fara að greiða að fullu kostnaðinn við sitt eigið (ólánshæfa) framhaldsskólanám. Hvað þá ef að ofan á það bættist kostnaður svo að eigandi gæti greitt sér arð úr rekstri skólans.

Það er eitt að hreinir einkaskólar geti greitt eigendum sínum arð (umræðan um hvort eðlilegt sé að reka menntastofnanir sem gróðafyrirtæki kemur kannski seinna). En að það sé yfirhöfuð leyfilegt að skólar sem engin rekstrargrundvöllur væri fyrir ef ekki kæmu til greiðslur úr sjóðum sveitarfélaga eða ríkis greiði eigendum arð skil ég engan veginn.