Guðni Ágústsson ætlar víst ekki að fara í framboð í Reykjavík. Framsóknarflokkurinn er í vandræðum eftir að Óskar Bergsson náði ekki, öllum að óvörum í flokknum af einhverjum ástæðum, að rífa fylgi hans upp í borginni og vék af framboðslistanum.
Einhvern tíman hefði þótt eðlilegast að næsta manneskja á lista hefði þá tekið oddvitasætið og aðrir færst upp. En í Framsókn skjálfa þeir sem ráða greinilega á beinunum og ákváðu að freista þess að fá stærri kanónu en Óskar og Guðrúnu Bryndísi til þess að leiða listann. Fljótlega eftir að Óskar hætti var nafni Guðna Ágústssonar lekið í umræðuna og sett af stað ferli sem átti að enda nú í dag með tilkynningu um að Guðni tæki að sér oddvitasætið í borginni.
En fléttan gekk ekki alveg upp. Það varð eitthvað minna úr því að Guðni væri talaður upp sem frambjóðandi sem myndi auka fylgi flokksins í borginni. Þvert á móti eiginlega. Og það bætti ekki úr skák að Guðrún Bryndís var greinilega mjög ósátt með þennan ráðahag.
Það sem gerðist hinsvegar var að fólk fór að rifja upp hitt og þetta úr sögu Guðna sem stjórnmálamanns, t.d. að hann hefði á sínum tíma talað um að flugvöllurinn ætti að fara úr Vatnsmýrinni, sem er algjörlega andstætt stefnu Framsóknar í borginni. Og svo fór fólk að benda á það hvernig Guðni hefur kosið að tjá sig um konur á skemmtikvöldum undanfarin misseri.
Í gærkvöld kom svo í ljós að Guðni er hættur við. Eyjan birtir frétt með alveg stórkostlegri fyrirsögn um að nettröllin hafi haft sigur. Í fréttinni er vitnað í Styrmi Gunnarsson sem segir að lítil spenna sé eftir í kosningabaráttunni í borginni eftir að Guðni ákvað að fara ekki fram. Það er auðvitað tóm della, þó að það hefði auðvitað verið spennandi að sjá hvort að Guðna hefði tekist að færa Framsókn niður fyrir tvö prósentin.
En í fréttinni er líka vitnað í Egil Helgason sem segir:
Framboð Guðna hefur verið aðalfréttin síðustu vikuna – og aðalumræðuefnið á Facebook.
Reyndar verður að segjast eins og er að margir fóru algjörlega fram úr sér – sjaldan hefur maður séð jafn illa talað um mann á þessum umræðuvettvangi og Guðna síðustu vikuna.
Óhroðinn var eiginlega með eindæmum.
Fleiri hafa tekið undir þetta og virðast jafnvel halda því fram að þessi óhroði hafi orðið til þess að Guðni hafi hætt við.
En bíðum nú við, hvaða óhroði? Það sem helst er hægt að lýsa sem óhroða úr umræðunni síðustu daga eru orð Guðna sjálfs. Varla er það orðin óhroði og loftárásir að vitna í það sem menn sjálfir segja?
Og þeir sem segja að sjaldan hafi verð talað jafn illa um mann á Facebook en Guðna undanfarið geta ekki hafa verið að fylgjast vel með. Ef við höldum okkur bara við flokkinn sem Guðni er í þá hafa Sigmundur Davíð, Gunnar Bragi og Vigdís Hauksdóttir þurft að þola miklu harðari umræðu en Guðni nokkurn tíman. Mikið má skinn Guðna hafa þynnst frá því hann hætti á þingi ef hann hrökklaðist aftur ofan í barstólinn á Klörubar við þá umræðu sem hefur verið í gangi seinustu daga.
Það er eiginlega út í hött að harkan í umræðunni ein og sér hafi ráðið úrslitum. Mögulega er ástæðan sú að Guðni og fylgismenn hans séu einfaldlega það illa áttaðir að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því fyrr en á reyndi hvað svona hegðun fer illa í fólk í dag. Kannski voru gerðar einhverjar kannanir sem komu illa út. Kannski töldu menn líklegt, miðað við hversu fljótt ógeðsleg ummæli Guðna komu fram, að við frekari eftirgrennslan kæmu fram einhverjir hlutir úr tíð Guðna sem ráðherra og þingmanns sem gætu skaðað framboðið.
En að hvernig fólk brást við á Facebook sé ástæðan fyrir því að Guðni hætti við kaupi ég ekki. Ekki þegar um er að ræða flokk Sigmundar Davíðs og Vigdísar Hauksdóttur.
-bætt við
Ég gleymdi auðvitað einni mögulegri ástæðu fyrir því að Guðni gæti hafa hætt við. Innanflokksdeilum innan Framsóknar.