Siðleysi hundaeiganda

Það býr siðlaus hundaeigandi í nágreni við leikskólann sem ég vinn á.

Seinasta vetur lentum við starfsfólkið ítrekað í því að þurfa að skófla upp hundaskít úr sandkassa og af fleiri stöðum í leikskólanum. Stundum voru börn byrjuð að moka í honum og einnig höfðu þau stigið á hann. Þegar þetta hafði gerst nokkuð oft sendum við myndir og orðsendingu í Kópavogspóstinn og þetta hætti svo að gerast snemma seinasta vor.

Það hefur líka verið óþolandi algengt að kettir hafi notað sandkassana okkar sem klósett. Til að stemma stigu við því eru nú komin net yfir sandkassana í leikskólanum og virðist þau virka ágætlega.

En í dag komu nokkur börn hlaupandi til mín fljótlega eftir að við komum út og sögðust hafa fundið kúk. Og viti menn, þessi líka fíni hundaskítur! Og slatti af honum líka. Inni í afgirta svæðinu fyrir yngstu börnin, sem eru 1-2 ára gömul, þar sem þau leika sér helst fyrst eftir að þau byrja á leikskólanum, fjarri ærslunum í reynsluboltunum úr eldri hópum.

Mér finnst þetta fullkomið siðleysi. Hversu hreinræktaður hálfviti þarftu að vera til þess að fara með hundinn þinn á leikskóla þegar hann þarf að skíta? Og hversu takmarkaður máttu vera á andlega sviðinu til þess að átta þig ekki á því að EF svo illa vill til að hundurinn þinn skíti á leikskólalóð þá skiljirðu ógeðið ekki eftir!

Nú ætla ég að láta í ljós ákveðna fordóma sem ég hef. Katta- og hundaeigendur eru, sumir, með sjálfhverfasta fólki sem þekkist*. Þeim fyrrnefndu finnst mörgum algjörlega fráleitt að lausaganga katta verði bönnuð, þrátt fyrir að henni fylgi mikill óþrifnaður og smithætta sem bitnar helst á börnum, almennt ónæði í mörgum tilfellum (kettir hafa oftar en einu sinni haldið fyrir mér vöku og jafnvel stokkið inn um glugga um miðjar nætur hér heima) og að köttunum sjálfu sé búin hætta vegna hennar. Þeir síðarnefndu eru furðulega gjarnir á að halda að upphirða á úrgangi dýranna þeirra sé samfélagsverkefni sem einhver annar en þeir sjálfir beri ábyrgð á.

Ég hef ekkert á  móti hundum og köttum. Þvert á móti eiginlega og mér finnst ömurlegt að ofnæmi sem ég hef fyrir köttum takmarkar samskipti mín við þá talsvert. Um dýraeigendur sem virðast halda að ábyrgð á dýrum sínum sé á hendi fleiri aðila en þeirra sjálfra gildir annað.

Og þú, siðleysinginn sem notar leikskólann minn sem úrgangssvæði fyrir hundinn þinn: þú ert rakið fífl. Megi allir fuglar landsins drita á höfuðið á þér.

*Þetta er, eftirá að hyggja, kannski fullmikil alhæfing þó að ég dragi aðeins úr henni. Flestir dýraeigendur eru ábyrgt fólk þó að svörtu sauðirnir geti gert mann mjög piraðann.