Að hafa rangt fyrir sér – og finnast það gott

Mér finnst stundum gott að hafa rangt fyrir mér. Ég á alla jafna ekki í miklum vandræðum með að viðurkenna það, sé mér sýnt fram á vitleysu mína með afgerandi hætti, því að mér finnst gott að læra eitthvað nýtt. Og svo er líka gott að hafa rangt fyrir sér þegar maður heldur að hlutirnir séu verri en þeir eru.

Í dag varð ég hugsi yfir þessari frétt. Það á semsagt að fara að bjóða upp á tveggja ára diplómanám í leikskólakennarafræðum vegna skorts á leikskólakennurum. Mér fannst þetta ekki alveg nógu sniðugt. Ég velti því fyrir mér hvað fólk hefði fyrir sér í því að þetta myndi fjölga leikskólakennurum. Mér fannst líka skrýtið að það ætti bara að bjóða upp á diplómanám á leikskólastiginu en ekki öðrum stigum og velti fyrir mér hvort að það skorti á virðingu við fagstéttina leikskólakennara. Og ég fór á Facebook og röflaði eitthvað útaf þessu.

En svo fóru frekari upplýsingar að koma fram. Reynslan af diplómanáminu sem boðið var upp á árin 2000-2005 var sú að nánast allir sem fóru í gegnum það héldu áfram í B.Ed gráðu (og jafnvel lengra). Það verður ekkert slegið af inntökuskilyrðum eða kröfum í náminu að neinu leyti. Þetta er eingöngu hugsað sem fyrsta þrep þeirra sem eru í náminu, þeir fá þá diplómu sem nýtist þeim til launahækkunnar og geta haldið áfram síðar kjósi þeir að hverfa frá námi um tíma. Einn af toppunum á Menntavísindasviðinu í HÍ kom til sögunnar og tók af allan vafa um það að það yrði engin afsláttur gefinn af náminu. Og bent var á skýrslu sem sýndi það sem við í stéttinni vitum svosem alltof vel, ef ekkert verður gert á næstunni verður sá mikli skortur á leikskólakennurum sem ríkir hér á landi óbærilegur eftir óhugnalega stuttan tíma. Ástandið er verra hjá okkur en í grunnskólanum, þó að þar líkt og í framhaldsskólanum þurfi að fara að huga að aðgerðum líka.

Ég tek líka undir það sem kemur fram í fréttinni að best væri ef sveitarfélögin styddu verðandi leikskólakennara í námi. Ég gerði samning við Kópavogsbæ þegar ég hóf mitt B.Ed. nám og varð ekki fyrir neinu tekjutapi þrátt fyrir að missa úr vinnu vegna skólasóknar. Á móti skuldbatt ég mig til þess að vinna hjá bænum í tvö ár eftir útskrift. Gjöf en ekki gjald.

En ég hafði semsagt rangt fyrir mér. Þetta var eitt af þeim skiptum sem það var gott að vera leiðréttur.