Ráðherra og fréttaefni

Það er voðalega mikið af því sem ákveðnir fjölmiðlar kalla „stóra X-málið“ í gangi þessa dagana. Í dag var það auðvitað stóra viðtalsmálið.  Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra neitaði að fara í viðtal við RÚV um ástandið í Úkraínu nema að það yrði í beinni eða að hann fengi óklippta upptöku af viðtalinu í hendurnar.

Nú veit ég að það er vinsælt að frýja þingmönnum Framsóknar vits en  ég neita að trúa því að Gunnar Bragi hafi ekki áttað sig á því að með þessum skilyrðum var hann auðvitað að neita viðtali yfirhöfuð. Þetta kallaði ekki á beina útsendingu og þeir sem eru vanir samskiptum við fjölmiðla vita að kröfur um heildarupptökur og önnur álíka gögn eru óraunhæfar.

En það sem mér finnst merkilegast eru útskýringar ráðherra á þessum skilyrðum. Hann vill nefnilega meina að fréttamenn RÚV hafi klippt út alveg ógurlega fréttnæm ummæli eftir sig á föstudaginn. Hann útskýrir með eftirfarandi orðum hver fréttapunkturinn var:

Jú, ég kom því á framfæri að vitanlega gæti utanríkismálanefnd komið með niðurstöðu, tillögu varðandi þá gagnrýni sem komið hefur fram varðandi þingsályktun um að draga umsókn Íslands að ESB til baka. Fréttamanni þótti það ekki fréttaefni að ráðherra opni a slíkt.

Ég sá að Helgi Seljan benti á Facebook á að það væri engin frétt í þessu. Ráðherra þarf nefnilega ekkert að „opna“ á þennan möguleika. Hann er einfaldlega mjög skýr í stjórnsýslunni.

Ég held þó að það sé alveg vinkill á frétt í þessu. Þarna kemur nefnilega berlega fram í hvaða ljósi ráðherrar líta á þingið. Það er ekki sjálfstætt löggjafarvald heldur framlenging af framkvæmdavaldi ráðherra, sem hefur það í hendi sinni hvort að opnað sé fyrir að þingið geti gert breytingar á málum sem hann leggur fram.

Þetta er sennilega ekkert voðalega frumleg frétt. Við höfum svosem vitað að svona er þetta ansi lengi. Og það má auðvitað deila um hvers vel það hefði komið sér fyrir ráðherrann ef að þessi ummæli hefðu fengið að fljóta með. En það er svo auðvitað líka enn eitt dæmið um það hversu illa áttaðir meðlimir stjórnarmeirihlutans eru þessa dagana að ráðherra geri mál úr þessu.