Mánaðarskipt færslusafn fyrir: febrúar 2007

Haldið til poka

Ég er að hlusta á perluna hans Eiríks Fjalars um nútímastúlkuna Nönnu. Fyndnasta sköpunarverk Ladda fyrir utan kannski Grínverjann. Hafði ekki leitt að því hugann svo áratugum skipti þegar ég áttaði mig á því í gærkveldi að ég misskildi alltaf annað erindið hér í denn:

Ekki er hún uppfull af hroka.

Aldrei hún framar tranar sér.

Hæversk og heldur til boka (svo).

Helvíti viðkvæm hún er.

Í þriðju línunni hélt ég alltaf að hann Eiríkur syngi „Hæversk og heldur til poka.“ Þetta var í þá daga þegar ég lifði enn í mínu verndaða málumhverfi og hafði ekki náð því í þaula hvernig slefmælgin virkaði hjá ykkur málsóðunum hérna fyrir sunnan. Ég velti því dálítið fyrir mér á sínum tíma afhverju stúlkan væri að halda til þessum poka. Og var helst á því að hún væri bara svona rosalega hæversk stúlkan: þetta væri ælupoki sem henni fyndist nauðsynlegt að hafa við höndina fyrir þá samferðamenn hennar sem væru búnir að fá nóg af samvistunum.

Mig dreymdi um daginn að það væri búið að skipta um nafn á götunni okkar. Vegna allrar stigmatíseringarinnar í kringum umfjallanirnar um „Stóra Breiðavíkurmálið“ hafði einhver silkihúfan komið því í gegn að gatan okkar mátti ekki lengur heita Breiðavík – það gat bara valdið misskilningi. Í staðinn var búið að vinna eitthvað voðalega nútímalegt götuheiti, eitthvað mun asnalegra. Hamavík eða Slimavík eða Gúmavík eða eitthvað svoleiðis. Það var óttalegt Þorláksgeislabragð af nafninu. Voða Þúsaldarlegt alltsaman. En eins og vill verða með það sem sagt er í draumum var mér fyrirmunað að muna það orðrétt.

Mikið var ég þá feginn þegar ég vaknaði.

Einu sinni var…

Ég átti alltaf eftir að segja frá því að ég fór í leikhús í nóvember síðastliðnum. Og varð djúpt snortinn. Mér liggur við að segja, ég varð fyrir „leiklistarupplifun.“ Varð uppnuminn.

Dagskráin sem um ræðir hét „Einu sinni var…“ og var sett upp af leikfélaginu Hugleik í Þjóðleikhúskjallaranum. Hún samanstóð af 12 manns sem sátu uppi á sviði, kváðu rímur og stungu kvint, milli þess sem þau skiptust á um að standa upp og segja sögur af forfeðrum sínum og formæðrum. Hljómar kannski ekki einsog mikið, en að sitja þarna og hlusta á sögurnar (já, upplifunin!) var dáleiðandi. Töfrum slungið. Í bílnum á leiðinni heim rifjaði ég upp þær sögur sem ég kunni af forfeðrum mínum og formæðrum, og bræddi með mér hvaða sögu mig myndi langa til að segja.

Kannski ég geri það bara einhverntímann.

En það þarf ekki að hafa mín orð fyrir þessu. Ég vísa á ágæta leikhúsrýni Silju Aðalsteinsdóttur á vef Tímarits Máls og Menningar.

Nú ber svo gleðilega við að þessi dagskrá verður endurflutt í tvígang, næstkomandi sunnudags- og þriðjudagskvöld, í Þjóðleikhúskjallaranum klukkan átta. Og ég segi bara eins og þau á TMM: Í guðs bænum ekki missa af því. Ég ætla að fara og sjá þetta aftur á sunnudagskvöldið. Og dreg frúna með.

Yfirlýsing

Auk þess má taka fram að ég og öll mín fjölskylda stendur einhuga með framlagi Gunna og Heiðu í úrslitum íslenska foratsins fyrir söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Afburðabesta lagið í ár.