Sko…
…hjaddna…
…nú er ég afskaplega hrifinn af borgaralegri óhlýðni. En samt verð ég að segja að mér finnst aðgerðir þeirra verta og kúnna sem tóku það upp hjá sér að brjóta reykingabannið um liðna helgi óttalega ógeðfelldar.
Eiginlega hrein viðurstyggð.
(En það er mér reyndar farið að finnast um allar reykingar, nú á gamals aldri.)
Gott og vel: það eru seldar sígarettur. Fólki er frjálst að kaupa þær. Fólki er frjálst að eyðileggja í sjálfu sér heilsuna með þeim – ef það endilega vill.
En það er þetta með frelsi einstaklingsins: það nær ekki nema að nefi þess næsta.
Athugið: Nefi. Ekki lungum.
Óbeinar reykingar drepa. Það er ekkert flóknara.
Spyrjið Ingimar Eydal.
Spyrjið Hauk Mortens.
(Persónulega finnst mér fólki reyndar fullfrjálst – meðan það norpar í sig nikótínið – að næla sér í lungnabólgu í leiðinni. Þetta er jú svo frjálst.)
Gott og vel: Vertar vilja fá að innrétta lofþétt reykherbergi. Breyta lögum og reglugerðum og allthvaðer. En að hvetja til reykinga í almennum rýmum því til áréttingar, það er ekki bara borgaraleg óhlýðni, það er…
…það er gíslataka á reyklausum skemmtistaðagestum. Það er eiturefnahernaður – nakinn stríðsrekstur með eldi og brennisteini.
Svo hvað er til ráða? Hvernig sýnir maður borgaralega gagn-óhlýðni? Hér eru nokkrir möguleikar:
- Sniðganga staði þar sem hvatt er til reykinga „á eigin ábyrgð.“ Bara verst hvað það er máttlaust: „Búhú! Viltu ekki vera í reyknum þar sem fjörið er? Farðu þá bara heim til mömmuðinnar aumingi!“
- Það er hægt að sýna viðkomandi veitingahúsum sama virðingarleysi í umgengni og reykingamenn gera þegar þeir kveikja sér í. Einn möguleiki er að kaupa sér bjór til þess eins að hella honum á gólfið. Eða á barborðið. Eða skvetta honum á veggina. Samt: þótt það væri dálítill rauður belgur til vertanna (fyrir utan að þurfa sjálfur að punga út fyrir ölinu) þá stæðu þeir stikkfrí sem fremja glæpinn sjálfan, „á eigin ábyrgð.“ Auk þess að þegar líður á nóttina er kominn bjór út um öll gólf og alla veggi hvort sem er, og myndi þá varla sjá högg á vatni.
- En það er þetta með að reykja „á eigin ábyrgð.“ Það væri hægt að hella yfir borð þar sem reykingar eru stundaðar. Yfir öskubakka. Yfir hendur með logandi sígarettum. Yfir blússuermar og jakkaboðunga. Það er ekki eins og væri allur skaði af því – það þarf hvort sem er að þvo reykjarbræluna úr þessu öllu saman.
Að sjálfsögðu væri glapræði að ætla sér að stunda opsjónir númer tvö og þrjú upp á sitt eindæmi – þess háttar aðgerðir færi enginn heilvita maður út í nema þær væru samræmdar (og kannski varla þá).
Einhverjar fleiri hugmyndir?