Þjóðráð – tillaga að svari við femínísku spursmáli

Mikið sem fólk nennir að bylta sér yfir spurningunni hvað kalla skuli ráðherra sem ekki er herra. Sérstaklega þar sem svarið hefur alltaf verið til staðar í tungumálinu. Lausnin er einföld: við leggjum af þetta óþarfa viðskeyti.

Úr Orðabók Menningarsjóðs (1983):

ráð, -s, -H […] 9 (æðsti) stjórnandi; nefnd […]

Sumsé: Það er ekkert sem segir að þetta orð geti ekki átt við einstakling. Og þekkist meiraðsegja fyrir, að minnsta kosti þegar talað er um rússneska embættismenn (ég minni á ríkisráðið Erast Fandorín).

Ég get ekki sagt að mér þyki nokkuð að eftirtöldum dæmum:

Geir H. Haarde, forsætisráð

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráð

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráð

Árni M. Matthiessen, fjármálaráð (ef ekki bara hreinlega fjárráð!)

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráð

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráð og samstarfsráð Norðurlanda

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráð

…og svo framvegis.

Ég óttast ekki misskilning – ef upp koma agnúar, þá pússast þeir fljótt af. Áður en við verður litið getur þetta orðið eðlilegur partur af daglegu máli.