Mikið sem fólk nennir að bylta sér yfir spurningunni hvað kalla skuli ráðherra sem ekki er herra. Sérstaklega þar sem svarið hefur alltaf verið til staðar í tungumálinu. Lausnin er einföld: við leggjum af þetta óþarfa viðskeyti.
Úr Orðabók Menningarsjóðs (1983):
ráð, -s, -H […] 9 (æðsti) stjórnandi; nefnd […]
Sumsé: Það er ekkert sem segir að þetta orð geti ekki átt við einstakling. Og þekkist meiraðsegja fyrir, að minnsta kosti þegar talað er um rússneska embættismenn (ég minni á ríkisráðið Erast Fandorín).
Ég get ekki sagt að mér þyki nokkuð að eftirtöldum dæmum:
Geir H. Haarde, forsætisráð
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráð
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráð
Árni M. Matthiessen, fjármálaráð (ef ekki bara hreinlega fjárráð!)
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráð
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráð
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráð og samstarfsráð Norðurlanda
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráð
…og svo framvegis.
Ég óttast ekki misskilning – ef upp koma agnúar, þá pússast þeir fljótt af. Áður en við verður litið getur þetta orðið eðlilegur partur af daglegu máli.