Umvörpum (sic)

Hér er eitt sem mér þætti gaman að sjá einhverja hrekja:

Orðmyndin umvörpum er algengasta villa sem til er í rituðum texta á internetinu.

Örsnöggt gúgl leiddi í ljós að það kemur fyrir u.þ.b.  809 sinnum („Exact phrase, Icelandic pages“) meðan hin rétta orðmynd unnvörpum kemur fyrir u.þ.b 1420 sinnum. Það er: Í 36% tilfella virðist þetta orð skrifað vitlaust.

Það eru reyndar dæmi sem fara nærri:

Ef lagðar eru saman niðurstöður fyrir „rauðann dauðann“ (685) „rauðan dauðan“ (671) og „rauðann dauðan“ (3) og bornar saman við „rauðan dauðann“ (2500) þá virðist þessi frasi sleginn vitlaust inn í 35% tilfella. En ef algengasta villan er borin saman við réttritunina, þá gefur það okkur ekki nema rétt tæplega 22% villutíðni.

Sama er með ýmsar vanskapanir af „ég kvíði“ (4050). Með öllum ég/mig/mér kvíðir/kvíður/hvíðir/hvíður möguleikum (2443) fæst í heildina 38% villutíðni. En algengasta villan („mér kvíður;“ 1210) gefur ekki nema 23% villutíðni út af fyrir sig, borin beint saman við réttu útgáfuna.

Umvörpum. Þrjátíu og sex prósent. Býður einhver betur?

9 replies on “Umvörpum (sic)”

 1. Á undan tvívaramæltu nefhljóði eins og v er mjög eðlilegt að nefhljóð verði varamælt (eins og skýr dæmi eru um í alþjóðaorðum úr latínu: impress, intrinsic) og hér er því mjög eðlilegt að bera fram emm. Þetta hefur svo áhrif í stafsetningunni.

 2. Jájá. Sosum skiljanlegt. En samt vitlaust. Enda hafa þessi tvö orð hvort sína merkinguna og gefur auga leið hvor þeirra á við í þessu tilviki.
  Svo segi ég nú bara eins og unglingarnir, sá óupplýsti pöpull sem ég er:
  Tvívaramælt nefhljóð?! WTF?!!!

 3. Ekki þurfti að leita lengi:

  „Ég hlakka“ = 101.000
  „Mig hlakkar“ = 25.300
  „Mér hlakkar“ = 13.600

  Rangt í 38,5% tilfella. En það er kannski gölluð mæling. Ekki aðeins er þetta augljósasta dæmið að taka þegar fjallað er um útbreiddar beygingarvillur (slík sýnikennsla telst varla með sem villa), heldur gera líka sumir í því að beygja þetta vitlaust í gríni. Góður vinur minn segir „mér hlakkar til í fótnum“ svo oft að það er löngu hætt að vera fyndið — en það er ekki enn farið að vera málvilla af því að það er enn viljandi (vænti ég).

  Það er bara erfitt að finna leitarstrengi sem finna villur án þess að annað slæðist með. Til dæmis er erfitt að pilla út þá mögnuðu villu að nota „víst“ í staðinn fyrir „fyrst.“ Google leiðir hjá sér greinarmerki og finnur því fullgildar glefsur eins og „Eitt er allavega víst: hann er nagli!!!“ þegar leitað er að „víst hann er.“ Það skyggir á skemmtilegu tilfellin:

  „Þetta er nú engin spurning víst hann er að reyna við ykkur báðar“

  „þú mátt halda leikfanginu þínu eitthvað áfram víst hann er ekki endurskoðandi.“

  „víst hann er búinn að vera óhreyfur í c.a. hálft ár, settiru nokkuð after run olíu inn á vélina eða einhvað álíka?“

  „Bara sign um það að hann eigi að vera slökkviliðsmaður víst hann er alltaf á staðnum þar sem er eldur:)“

  Það þarf einhverja meira krassandi græju en Google til að mæla tíðni þessarar villu.

  [Samfélagið krefst þess að ég bíði með þessa athugasemd til morguns svo að það komist ekki upp hvernig ég varði föstudagskvöldinu. En fari það kolað, ég ætla að gera uppreisn. Ég má þetta alveg.]

 4. Örvilnað 6 – örvinglað 37 – 86% röng

  Ítarefni:

  Örvilnun 143 – örvinglun 112 – 44% röng
  Örvilnaður 75 – örvinglaður 127 – 63% röng
  Örvilnuð 26 – örvingluð 80 – 75% röng
  Örvilnan 98 – örvinglan 292 – 75% röng

  Ef eitthvað toppar þetta mun ég toppa það aftur, enda er ég með hóp fólks í vinnu við að sjá mér fyrir efni í einmitt svona pælingar.

 5. Er þetta rétt, eða er þetta rangt? Hvenær er eitthvað rétt og hvenær er það rangt? Og er eitthvað rétt eða rangt? Getur nokkur maður svarað því? Kannski er örvinglun/örvinglan framsækin og betrumbætandi afbökun. Ekki veit ég. Og veit ég þó það að ég veit ekki neitt.

 6. Einmanna toppar líka umvörpum. Einfalt gúgl gefur 22.900 niðurstöður fyrir einmana en 15.900 fyrir einmanna!!! Sem sagt skrifað rangt í tæplega 41% tilvika.

Comments are closed.