Leitt þótti mér að heyra um refaskytturnar tvær sem létust uppi á Auðkúluheiði. Og þess frekar þegar nöfn þeirra voru birt og ég áttaði mig á að þetta voru fyrrum vinnufélagar mínir.
Eða svonaaa…
Hann Flosi réði mig í handlang hjá sér fyrir réttum tuttugu árum. Hann var múrarameistari og sá um að múra innan nýbyggingu Héraðshælisins á Blönduósi. Þetta var í lok sumars; Einar í Vísi hafði ekki áhuga á kröftum (óeiginlegrar merkingar) mínum til sumarvinnu lengur en út ágúst og Menntaskólinn átti ekki að hefjast fyrr en mánuði síðar. Svo fimm vikur í september munstraði hann Flosi mig í sekkjaburð og steypuhræringar. Hann var snaggaralegur og ákveðinn í fasi, skarpleitur, dökkur yfirlitum og hvass til augna. Aldrei lá honum styggðaryrði til mín þótt eflaust hefði hann getað tínt eitthvað til þess einhvern tíma.
Einar vann með honum – við vorum þrír í þessu, karlarnir. Þá þegar var hann orðinn goðsögn í lifanda lífi fyrir skytteríið. Ekki styttist sú saga með árunum – þeir sem vilja geta flett því upp sem Unnur Jökulsdóttir skrifaði um hann í bók sína, Íslendingar. Þau eru mörg verri en það, eftirmælin.