Ég er í alveg rosalega ballardískum fíling þessa dagana. Jákvætt fídbakk milli þess hvernig ég sé hlutina í kringum mig og bókanna sem ég er að lesa.
Um daginn var ég í strætó að lesa Crash. Í sætinu fyrir framan mig voru tvær táningsstúlkur að tala um vin sinn sem ku hafa keyrt á vegg á 100 km hraða/klst (heyrðist mér á þeim). Í Ártúnshöfðanum fór öll umferð í hægagang: bílarnir siluðust framhjá bifreiðavöllunum við Húsgagnahöllina. Boglína dregin af hreinsuðum útblæstri og nöglum sem gæla við tjörustein. Svo sáum við skýringuna þegar við mjökuðumst yfir Gullinbrú: Í skjóli blikkandi blárra ljósa á eyjunni milli akstursstefna stóðu sjúkraflutningamenn yfir feitlaginni miðaldra húsmóður sem sat sem fastast undir stýri í bláum Volvó með krumpaða vélarhlíf. Hinumegin við okkur var risavaxinn ruslagámur í vegkantinum; böggull sem virtist hafa dottið úr pósttösku risavaxins bréfbera. Mér stóð.
Í morgun lagði ég bílnum á efri hæð bílastæðahússins sem stendur undir brúnni á flaggskipi íslenskra erfðarannsókna. Í polli á bílastæðinu spígsporuðu tveir tjaldar. Þeir flugu kvakandi burt þegar Pajerojeppi malaði inn heimreiðina.
Annars er svarið fundið Magnús: Egill Helgason er R.R. Ég held að það sé alveg málið. Það er reyndar blíding obvíös um leið og maður stoppar til að pæla í því. Veistu um einhvern sem getur hjálpað mér með fótósjopp?
Annað í fréttum: mér hefur verið bent á að það verði aukasýning á hinu ágæta Hugleikriti, 39 ½ vika, á föstudagskvöldið kemur. Fagni því allir góðir menn.