Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2008

Vindlar Faraós

Flesta daga vinnuvikunnar á ég leið gegnum samgöngumiðstöðina í Lyngby tvisvar á dag. Sem ég færi ekki í tal nema fyrir það að þar má finna tóbaksverslun með sama nafn og ofangreind Tinnabók.

Og hví nefnir hann það, skyldirðu spyrja?

Sosum ekki út af neinu sérstöku. Nema því að ég kemst alltaf í ágætt skap við að sjá blessaða búðina, þrátt fyrir varninginn.

Þar small það loksins… (og ögn um Flatus)

…hvernig maður gerir alla íslensku stafina á dönsku lyklaborði. Þ og ð komu síðast – bara núna rétt í þessu.

Ég sé að allt er að ganga af göflunum þarna hjá ykkur út af einhverju sem kallast matvælaöryggi. Hvað í anskotanum er að ykkur þarna uppi á skerinu? Eru allir að verða vitlausir eða hvað?! Hvað er málið?!!!

En yfir að mikilvægari tíðindum.

Það hryggði mig, skömmu áður en ég fór af landi brott, að keyra gegnum Kollafjörðinn og sjá að merkar menningarleifar höfðu verið eyðilagðar af auglýsingadeild SPRON og hreinsunardeild Reykjavíkurborgar. Svo það gladdi mig að frétta frá doktor Gunna að forvörsludeild Flatusarsafnaðarins virðist hafa verið snögg að kippa því í liðinn. Og prumpum fyrir því.

Ég hef persónulegar ástæður til að gleðjast yfir þessu. Af sömu ástæðum vil ég taka fram strax að ég hef pottþétta fjarvistarsönnun: ég var ekki einu sinni á landinu þegar téð þjóðþrif voru framin. Ástæðurnar verða raktar ef þörf krefur þegar líður á haustið, sennilega undir lok septembers.

Annars er allt ljómandi bara.

Saman á ný

Öll komust þau til mín heilu og höldnu. Ég ver mínum virku dögum í vinnunni meðan þau stika spítalasvæðið (sem er reyndar mun fýsilegra en það hljómar – Jóhannes skírari er með alveg gullfallegar grundir), bregða sér í bæinn, niður að höfn eða á leikvöllinn í almenningsgarðinum. Svo um helgar bregðum við saman undir okkur betri fótum: Um síðustu helgi var það Dýragarðurinn og Víkingaskipasafnið. Um þá næstu miðbæjarmarkaðurinn og Brjóstsykurslandið.

Ég er búinn að telja stelpunum trú um að þær séu að fara í Allsnægtalandið (sbr. Gosa eða ignorerist annars) en það virtist ekki hræða þær tilfinnanlega. Þær kalla það líka eitthvað skrítið: Afskekktalandið eða Allsnektarlandið eða eitthvað svoleiðis.

Sit annars á torginu í Hróarskeldu og bíð eftir strætó heim á Jóhannes. Ég ætlaði á fund á tölvuöld núna klukkan fimm að staðartíma (11 AM EST) en svo var bara fullsetinn rafræni bekkurinn þegar ég loggaði mig inn og ekkert pláss fyrir undirritaðan.

Ojæja. Vonandi verður hægt að nálgast upptöku þegar öllu þessu er lokið. Það ætti að duga.

En í staðinn kemst ég þá heim klukkutíma fyrr heim og get bloggað í millitíðinni. Það er þó alltaf vel.

Ekki á morgun, heldur hinn…

…svo það styttist.

Ég bý í lítilli eins herbergis íbúð með eldhúsi og baði, tótalt rétt rúmir tuttuguogfimm fermetrar. Fullkomið fyrir mig, en kannski dálítið þröngt fyrir fimm manna fjölskyldu og fjóra í sumarfríi (dvs þaraf). Svo það var ágæt redding þegar fannst handa mér önnur slík í sama stigagangi næsta mánuðinn, svo hægt verður að eyða deginum í annarri og nóttinni í hinni (eða, börnin fara að sofa öðrumegin og foreldrarnir hafa það kósí hinumegin).

Þetta leggst bara vel í mig.

Ég er mun meiri alvörumaður í þessari dvöl það sem af er en ég átti von á. Búinn að festa minnismiða upp um alla veggi og kaupa mér svarta möppu undir pappírsfarganið. Eða, minnismiða upp á þá veggi sem ég þakti ekki með gömlum Vox Academica plakötum, kurteisi frá Þórarni Leifssyni.

Hef fundið tvö netkaffihús það sem af er, Ráðhúskjallarann og Hótel Pindsen. Ég verð að athuga með að fá mér pung – á mánaðargrundvelli er ekkert vit í að punga út sem svarar einum kaffibolla í hvert skipti sem maður vill kíkja í tölvupóstinn eða skæpa heim.

Og bara for ðö rekkord: Skæp bjargaði lífi mínu. Það er besta uppfynding tölvualdar. Punktur.

Jæja, kominn til Hróarskeldu og byrjaður í vafstri. Flaug út á þriðjudag, sat minn fyrsta vinnufund á miðvikudagsmorgninum, eyddi fimmtudeginum í pappírsvinnu hjá hinu opinbera og vann aftur á föstudagsmorguninn. Það virtist vera nokkuð týpískur vinnudagur fyrir vini okkar Dani: Endaði á því að allir fóru í hádegismat.

Kominn heim í kompuna gerði ég það sem ónefndur maður myndi kalla heiðarlega tilraun til að drepa mig: Ég fór á línuskauta um spítalahverfið. Faðmaði nokkra trjástofna og umferðarskilti á leiðinni en kom heill og sveittur heim.

Þessi frásögn er vaðandi í sköllum. Mér finnst það bara alltílæ.

Nú hlakka ég bara fyrst og fremst til þess að fá fjölskylduna til mín. Fjórir dagar þangað til.