Mánaðarskipt færslusafn fyrir: ágúst 2008

Krukkuborg

Ég ætla í bíó í kvöld, til að halda upp á árangursríka viku í vinnu og einkaframa. Það er verið að sýna einhvessgnar skandinavískan glæpaþriller: Jar City, í Dagmarbíóinu. Mér líst vel á það, það lítur út fyrir að vera fín mynd.

Flissað í K (‘eimskööör!)

Ég er búinn að vera flissa yfir þessu annað veifið nánast alveg síðan ég ýtti á <Birta> og loggaði mig út þarna áðan. Lausnin rann upp fyrir mér (‘eimskööör!) þegar stokkurinn dældi á mig „The Kiss“ með Cure tvisvar sinnum í röð. Þá var eins og blessuð skepnan skildi.  Ekki þar fyrir að ég hafi ekki haft milljón tækifæri til að átta mig á þessu áður. Hér er listinn eins og hann var frá upphafi til enda:

  • Kalt – Curver
  • Kalugerine – Le Mystére des Voix Bulgares
  • Kani – s/h draumur
  • Känslan av Jorden Krympar, Växer – Sci-Fi Scåne (sænskur einyrki)
  • Kara Turuya – Huun-Huur Tu
  • Kargyraa – Huun-Huur Tu
  • Karle Pyar Karle – Ashar Bhosle (Bollywoodtónlist)
  • Karma Police – Radiohead
  • Karma Police – Strung Out strengjakvartettinn
  • Karmacoma – Massive Attack
  • Katrusya – The Wedding Present
  • Kaupakonan hans Gísla í Gröf – Haukur Morthens
  • Kayan – Huun-Huur Tu
  • Kazhi, Kazhi, Angio – Le Mystére des Voix Bulgares
  • Kdyz V Noci Sezi – Jablkoň (tékkneskir flipparar)
  • Keep on Loving You – REO Speedwagon
  • „Keep on Truckin‘“ – Úr Reservoir Dogs
  • Keeping the Dream Alive – Münchener Freiheit
  • Kennedy – The Wedding Present
  • Kentucky Avenue – Tom Waits
  • Kentucky Rain – Elvis Presley
  • The Key – Kristin Hersh
  • KGB – Kaizers Orchestra (norskt wonk)
  • Khöömei – Huun-Huur Tu
  • Kick in the Eye (live) – Bauhaus
  • Kick in the Eye (single) – Bauhaus
  • Kick in the Eye (album version) – Bauhaus
  • Kid A – Radiohead
  • The Kid from Red Bank – Count Basie
  • Kid on my Shoulders – White Rabbits
  • Kids in America – Kim Wilde
  • Killer / Papa was a Rolling Stone – George Michael
  • Killer Queen – Queen
  • Killing an Arab – The Cure
  • Kimdracula – Deftones
  • Kindin Einar – Hjálmar
  • The Kindness of Strangers – Nick Cave & The Bad Seeds
  • King of Comedy – R.E.M.
  • The King of Denmark – Morton Feldman (mínímalísk sýra)
  • King of New York – Fun Lovin‘ Criminals
  • King of the Kerb – Echobelly
  • King Volcano – Bauhaus
  • King Volcano (live) – Bauhaus
  • Kingdom‘s Coming – Bauhaus
  • Kingdom‘s Coming (live) – Bauhaus
  • Kirsuber – Nýdönsk
  • Kisa litla – Hraun
  • The Kiss – The Cure
  • The Kiss – The Cure (kjú ljósapera)
  • Kiss Chase – Lush
  • Kiss Kiss Kiss – Yoko Ono / Peaches
  • Kissability – Sonic Youth
  • Kissing a Fool – George Michael
  • Kína – Jón Ólafsson
  • Kjötbrúðan – s/h draumur
  • Klara – Ólöf Arnalds
  • Klæddu þig – Nýdönsk
  • Knekker deg til sist – Kaizers Orchestra
  • Knife Chase – Tom Waits
  • Knives Out – Radiohead
  • Know – System of a Down
  • The Know-it-all – The Millennium / The Ballroom (ekki hugmynd hvað þetta er)
  • Knucklehead – Powersolo
  • Kod Bethlehema – Af diski með Betlehemstónlist
  • Kojamyk – Huun-Huur Tu
  • Koleda na Bozic – Sami Betlehemsdiskur
  • Koleda na Bozic – Og aftur
  • Koledna Nosht – Le Mystére de Voix Bulgares
  • Koledna Pesen – Le Mystére de Voix Bulgares
  • Koledna Prikazka – Le Mystére de Voix Bulgares
  • Koledna Zvezda – Le Mystére de Voix Bulgares
  • Kolíček – Jablkoň
  • Kolotoč – Jablkoň
  • Kombu – Huun-Huur Tu
  • Komdu – Hraun
  • Komdu í partí – Mannakorn
  • Kommeniezuspät – Tom Waits

 

… og þá var ég kominn heim og batteríið að verða búið.

 Ég gæti sagt söguna af því af hverju ég byrjaði á akkúrat þessu lagi: „Kalt“ með Curver, af sumarsmelladiski sem Smekkleysa gaf út í tilefni af hálfrar aldar afmæli lýðveldisins. En ekki núna.

Á leiðinni heim rambaði ég á styttri leið eftir yndislegum afskekktum skógarstíg síðasta spölinn gegnum spítalalóðina. Ég fann hálft Twix sem ég hafði gleymt í vasanum. Það ýrði dropum. Stukku froskar. Skriðu sniglar. Svifu drekaflugur.

Ljúft.

Jæja. Ég er farinn að sjóða mér pasta í kvöldmatinn.

Vírað

Dagarnir líða við störf. Einn og hálfur tími í lest á morgnana. Einn og hálfur tími í lest á kvöldin. Matur í kantínunni í hádeginu. Brauðbollur með spægipylsu og niðursoðnum makríl í túmat á kvöldin. Parker Lewis, Jeremy Clarkson og ammríska útgáfan af Skrifstofunni. Lesið fyrir svefninn. Hringt heim umþaðbil daglega. Skæpað með hléum.

– – –

Í síðustu viku átti Logi tveggja ára afmæli. Ég fylgdist með gegnum internetið. Sem er annað en hægt er að segja um endurkomu handboltastrákanna – ég lét hana alveg fram hjá mér fara.

– – –

En ég mætti samt á úrslitaleikinn á Café Blasen. Maður lifandi hvað það er sjoppuleg búlla. En stemmingin var ánægjuleg.

– – –

Er með iPodinn á uppstokkun í lestinni meðan ég les sitthvað (þessa dagana Yacoubian-bygginguna milli vísindapappíra og Nýheðsavísa). Fannst skrýtin tilviljun þegar fyrst kom tónleikaútgáfan af „Kick in the Eye“ með Bauhaus (frá lokatónleikunum í París), og svo strax á eftir singuls-útgáfan af sama lagi. Og strax þar á eftir LP-útgáfa sama lags af Mask. Svo kom sitthvað annað, eitthvað með Hun-Huur Tu, „Kid from Red Bank“ með Count Basie, „King of New York“ með FLC. Eitthvað fleira.

Þá fór þetta að verða dálítið skuggalegt. Fyrst var dembt á mig „King Volcano“ með Bauhaus, stúdíóútgáfunni. Svo kom „King Volcano,“ tónleikaútgáfan. Þá kom „Kingdom’s Coming“ með sömu hljómsveit, stúdíóútgáfan. Og það segir sig sjálft hvaða lag kom þar strax á eftir. Í tónleikaútgáfu.

Ég tek fram að það eru eitthvað tæplega sexþúsund lög á æpoddinum mínum.

Ég hef ekki ennþá þorað að hlusta lengra. Er tæknidraugurinn að reyna að segja mér eitthvað?

– – –

Gekk um daginn alveg upp að búðinni „Vindlar Faraós“ og uppgötvaði að þar er höndlað með teiknimyndasögur og hlutverkaleiki.

Segir sig sosum sjálft, svona eftirá að hyggja.

Íslendingar í Ham

Að gefnu tilefni verð ég að taka undir með forsetafrúnni, að Ísland er stórasta land í heimi. Og ég stenst ekki mátið að benda á að þarafleiðandi eigum við forsetafrú sem talar með stórustu tungu í heimi.

Íslensk fegurð

(rifjað upp í tilefni af kveðjustund)

Þau voru á leið heim.

Hún hafði ekið manni sínum og dætrum upp til Kaupmannahafnar. Fluginu hafði seinkað, það var enn góður tími til stefnu og hjónin ákváðu fyrir stelpurnar eftir aksturinn að eyða því sem eftir væri af deginum í Tívolí, þegar búið væri að ganga frá öllum málum á flugvellinum.

Þau tóku lest niður í miðborgina.

„Húrra,“ sagði sú eldri, „mig hefur alltaf langað að fara í lest.“

Þau áttu indælan dag, þótt ekki viðraði sem best; það var þungskýjað og gekk yfir með skúrum meðan þau vöfruðu um skemmtigarðinn. Öðru hvoru fann hún eiginmann sinn strjúka henni létt um mjóbak og rass. Kyssa hana á hálsinn. Eldri dóttir þeirra hljóp á milli þeirra leiktækja sem hún hafði aldur til. Sú yngri svaf í regnhlífarkerrunni.

En það sem hún átti aldrei eftir að gleyma átti sér stað áður, á leiðinni frá Kastrup upp til Kaupmannahafnar:

Þau voru öll dálítið slæpt eftir aksturinn og rekistefnuna á flugvellinum. Maður hennar stóð yfir regnhlífarkerrunni með yngri stelpuna frammi við dyrnar. Sjálf sat hún með eldri stelpuna í kjöltu sér úti við gluggann. Stelpan flatti báðar hendur á glerinu og hallaði enninu upp að því.

Í fyrstu sást ekkert út um gluggann nema svört iður jarðar.

Móðan af líkamshita stelpunnar á glerinu.

Svo bjarmaði smám saman fyrir glætu.

„Vá,“ sagði dóttir hennar.

Lestin þaut út úr járnbrautargöngunum og rann eftir niðurgröfnum stokki með hlaðna veggi á báðar hliðar. Það rigndi úr þungbúnum himni.

„Vá,“ sagði dóttir hennar.

Smám saman sléttist úr börmum stokksins og þeir breyttust í grasi grónar hlíðar sem teygðu sig upp í gráan himininn. Rigningartaumar skriðu eftir glerinu. Þar fyrir handan voru myrk ský og gulnað grasið sem þaut hjá undir þeim.

„Vá,“ sagði þriggja ára dóttir hennar, „þetta er svo fallegt.“

Og hún, sem var dálítið niðurdregin (hún taldi sér trú um að það væri eftir asann og ergelsið yfir seinkuninni á fluginu) og hafði dálitlar (en ástæðulausar) áhyggjur af því hvort þau hefðu tíma til að hendast þetta, hún leit upp og framan í dóttur sína sem hallaði sér upp að glerinu.

„Já, það er alveg rétt hjá þér ástin mín. Þetta er mjög fallegt.“

Hún faðmaði dóttur sína að sér.

„Hættu mamma, ég er að horfa.“

Meðan dóttir hennar horfði hugfangin út um gluggann stalst hún til að strjúka sér um kinnina.

(Reykjavík 2005)

Vil du være organdonor?

Sjónvarp, útvarp, gluggapóstur og veggspjöld á öllum betri almenningssamkomustöðum: Það langar alla að vita hvað ég ætla að gera við innyflin úr mér þegar ég er hættur að nota þau.

Ekki það að neitt annað standi til en að hafa þau öll með sér heim í heilu lagi – ég á ekki von á að þurfa að skilja neitt eftir hérna á meginlandinu. En bara for ðö rekkord, þá er mér ósárt um galleríið þegar þar að kemur að ég hef ekkert við það að gera lengur. Þó eru ákveðnir partar sem ég myndi ráða fólki frá að endurnýta, svo sem augnbotnar, sjóntaugar, ýmsir misæskilegir partar af heilabúinu og öll vinstri öxlin eins og hún leggur sig, til dæmis.

Henni myndi ég ekki óska upp á mína verstu óvini, ætti ég nokkra svoleiðis.

– – –

Annað í fréttum: Nú eru ekki eftir nema fjórir dagar sem ég hef þau hjá mér.

*dæs*

Sigurvegarar, fagurfræði bílslysa og Egill Helgason

Ég er að verða of góðu vanur.

Á mínum fyrri vinnustað var sosum hægt að finna dýrindis sjálfmalandi kaffimaskínur vítt og breitt um bygginguna. Samt sótti maður alltaf mest í gömlu góðu uppáhellinguna niðri í matsal. Hér á CBS (nei, ekki þessu CBS, heldur þessu CBS) er bara um eitt að velja: Alvöru hágæðamaskínu sem malar oní bollann og dælir útí úr röri sem er beintengt við kælidunk fullan af ökólógískri söðmelk. Svo nú byrja morgnarnir á vænum bolla af latté, styrktum með aukaskammti af tvöföldum espresso. Og ekki spillir fyrir að á föstudögum er boðið uppá pylsur, brauð með chokoladepålæg og vínarbrauð í desert.

Það kallar maður sko Morgenmad for Erobrere.

– – –

Sem verðandi einstæðingur er ég búinn að finna uppáhalds skyndibitastaðinn minn í Hróarskeldu. Það er sjoppulegur kebabstaður á horninu þar sem strætóinn heim á Heilagan Jóhannes á leið hjá ofan úr bæ niður á samgöngumiðstöðina. Þegar maður sér hann renna hjá er mátulegt að henda álpappírsumbúðunum og skunda út á stoppistöð fyrir heimferðina.

En það er ekki það besta. Og ekki heldur að boðið er upp á hið ágætasta bras af falafel og rækjum í durumkökur. Nei.

Það besta er sjónvarpið á staðnum: Gervihnattaútsending frá þýsk-tyrkneskri sjónvarpsstöð sem sérhæfir sig í frantískum kollösjum af endalausum kappakstursslysum og mótorsýningaólukkum.

Dáleiðandi fegurð. Ballard væri svo stoltur.

– – –

Sem minnir mig á skemmtilega tilviljun: Í ljósi grátbroslegs debatts á tölvuöld má ég til með að nefna að síðustu mánuði hef ég í hjáverkum dundað við að púsla saman powerpoint-ljóðinu „Um ástæður þess að mig langar að ríða Agli Helgasyni.“ Hér er mynd sem bregður þar fyrir:

egillerlennon1.jpg

Þeir sem vita af hvunnlags dagskrám og uppákomum næstu mánuðina sem höfða til lægstu hvata allra sannra óvina hinna æðri lista mega endilega hnippa í mig. Bara verst hvað ég er stopult á landinu á næstunni.

Mamma, Sigur Rós, afi og kýrnar á Bjarnastöðum

Hvernig gat ég klikkað á þessu. Ég gleymdi að nefna hinn yndislega Oft spurði ég mömmu. Það er fegursta hugmynd sem þrykkt hefur verið á íslenskt plast á geisladiskaöld.

– – –

Það færðist í tal í hádegismatnum að krakkarnir í Sigur Rós væru að spila á Bít-festivalinu nú um helgi komanda. Sumir undruðust að svona lítil samkunda réði við að bjóða uppá svona stórt heddlæn. Ég þagði sem fastast undir þessu öllu, og kom þar sitthvað til:

  1. Ég er ennþá dálítið hallur undir Hávamálalínuna í því hvernig óhorskur skyli haga sér í ókunnra manna hópi, til að verða ekki „að augabragði.“
  2. Það tók mig dálítinn tíma að átta mig á því um hvaða hljómsveit þau voru að tala – maður er ekki vanur alþjóðlega framburðinum á nafninu.
  3. Það kom dálítið á mig þegar farið var að tala um hvað þetta væri rosalega stórt nafn. Ég varð bara alveg stúmm.
  4. Svo var bara ekkert gengið á mig með að tjá mig um þetta, þótt mér ætti kannski að vera málið skylt. Enginn sem spurði mig hvort ég þekkti þessi rosalegu selebb. Og hefði ég þó getað gortað yfir því að hafa kannast við hann Kjartan á æskuárum mínum á Blönduósi: „No, not personally, but I remember him as a little boy. His father was a teacher of mine. And when I was 15, I had a crush on a couple of his older sisters…“  En alas, enginn spurði.

– – –

Þessu óskylt: Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér misheyrn úr æsku. Mér fannst lengi sem von væri á síðustu Bjarnastaðabeljunni um miðaftans-spil.  Að það væri svona mikil spilagleði í fjósinu að Bjarnastöðum.

Sem minnir mig á að afi minn hélt því fram við mig að í laginu væri sungið um kýrnar á Bjarnastöðum í Vatnsdal í Húnaþingi. Getur nokkur staðfest eða hrakið þessa fullyrðingu?

Grasekkill…

…eða, tjah, það er kannski að teygja á hugtakinu. En ég er nú einn í danska kotinu mínu (sem ber nafn með rentu) meðan kona og börn eru í tveggja nátta heimsókn til frændfólks í Árósum.

– – –

Ég keypti mér nokkra diska í fríhöfninni á leið út: Mugiboogie, Með suð í eyrum…, Von brigði og The Silent Treatment. Allt stórgóðir diskar. Sándtrakk sumarsins á Æ-potinu. Svo stóðst ég ekki mátið að grípa með leikritasafnið „Með öðrum morðum,“ sem kannski verður að játast að hafi ekki elst hið allra besta. Þó eru sumir þættir betri en aðrir (þeir síðustu þrír bera af) og óneitanlega var dálítið fyndið fyrir mann í minni stöðu að sitja heila lestarferð gegnum Sjáland undir þættinum um manninn sem dó úr dönskueitrun.

– – –

Svaf sumsé einn í nótt og var vitjað af draugi úr fortíðinni. Það var mjög athyglisverð heimsókn.

En smáatriði hennar verða ekki útlistuð hér.