Sigurvegarar, fagurfræði bílslysa og Egill Helgason

Ég er að verða of góðu vanur.

Á mínum fyrri vinnustað var sosum hægt að finna dýrindis sjálfmalandi kaffimaskínur vítt og breitt um bygginguna. Samt sótti maður alltaf mest í gömlu góðu uppáhellinguna niðri í matsal. Hér á CBS (nei, ekki þessu CBS, heldur þessu CBS) er bara um eitt að velja: Alvöru hágæðamaskínu sem malar oní bollann og dælir útí úr röri sem er beintengt við kælidunk fullan af ökólógískri söðmelk. Svo nú byrja morgnarnir á vænum bolla af latté, styrktum með aukaskammti af tvöföldum espresso. Og ekki spillir fyrir að á föstudögum er boðið uppá pylsur, brauð með chokoladepålæg og vínarbrauð í desert.

Það kallar maður sko Morgenmad for Erobrere.

– – –

Sem verðandi einstæðingur er ég búinn að finna uppáhalds skyndibitastaðinn minn í Hróarskeldu. Það er sjoppulegur kebabstaður á horninu þar sem strætóinn heim á Heilagan Jóhannes á leið hjá ofan úr bæ niður á samgöngumiðstöðina. Þegar maður sér hann renna hjá er mátulegt að henda álpappírsumbúðunum og skunda út á stoppistöð fyrir heimferðina.

En það er ekki það besta. Og ekki heldur að boðið er upp á hið ágætasta bras af falafel og rækjum í durumkökur. Nei.

Það besta er sjónvarpið á staðnum: Gervihnattaútsending frá þýsk-tyrkneskri sjónvarpsstöð sem sérhæfir sig í frantískum kollösjum af endalausum kappakstursslysum og mótorsýningaólukkum.

Dáleiðandi fegurð. Ballard væri svo stoltur.

– – –

Sem minnir mig á skemmtilega tilviljun: Í ljósi grátbroslegs debatts á tölvuöld má ég til með að nefna að síðustu mánuði hef ég í hjáverkum dundað við að púsla saman powerpoint-ljóðinu „Um ástæður þess að mig langar að ríða Agli Helgasyni.“ Hér er mynd sem bregður þar fyrir:

egillerlennon1.jpg

Þeir sem vita af hvunnlags dagskrám og uppákomum næstu mánuðina sem höfða til lægstu hvata allra sannra óvina hinna æðri lista mega endilega hnippa í mig. Bara verst hvað ég er stopult á landinu á næstunni.