Sigurvegarar, fagurfræði bílslysa og Egill Helgason

Ég er að verða of góðu vanur.

Á mínum fyrri vinnustað var sosum hægt að finna dýrindis sjálfmalandi kaffimaskínur vítt og breitt um bygginguna. Samt sótti maður alltaf mest í gömlu góðu uppáhellinguna niðri í matsal. Hér á CBS (nei, ekki þessu CBS, heldur þessu CBS) er bara um eitt að velja: Alvöru hágæðamaskínu sem malar oní bollann og dælir útí úr röri sem er beintengt við kælidunk fullan af ökólógískri söðmelk. Svo nú byrja morgnarnir á vænum bolla af latté, styrktum með aukaskammti af tvöföldum espresso. Og ekki spillir fyrir að á föstudögum er boðið uppá pylsur, brauð með chokoladepålæg og vínarbrauð í desert.

Það kallar maður sko Morgenmad for Erobrere.

– – –

Sem verðandi einstæðingur er ég búinn að finna uppáhalds skyndibitastaðinn minn í Hróarskeldu. Það er sjoppulegur kebabstaður á horninu þar sem strætóinn heim á Heilagan Jóhannes á leið hjá ofan úr bæ niður á samgöngumiðstöðina. Þegar maður sér hann renna hjá er mátulegt að henda álpappírsumbúðunum og skunda út á stoppistöð fyrir heimferðina.

En það er ekki það besta. Og ekki heldur að boðið er upp á hið ágætasta bras af falafel og rækjum í durumkökur. Nei.

Það besta er sjónvarpið á staðnum: Gervihnattaútsending frá þýsk-tyrkneskri sjónvarpsstöð sem sérhæfir sig í frantískum kollösjum af endalausum kappakstursslysum og mótorsýningaólukkum.

Dáleiðandi fegurð. Ballard væri svo stoltur.

– – –

Sem minnir mig á skemmtilega tilviljun: Í ljósi grátbroslegs debatts á tölvuöld má ég til með að nefna að síðustu mánuði hef ég í hjáverkum dundað við að púsla saman powerpoint-ljóðinu „Um ástæður þess að mig langar að ríða Agli Helgasyni.“ Hér er mynd sem bregður þar fyrir:

egillerlennon1.jpg

Þeir sem vita af hvunnlags dagskrám og uppákomum næstu mánuðina sem höfða til lægstu hvata allra sannra óvina hinna æðri lista mega endilega hnippa í mig. Bara verst hvað ég er stopult á landinu á næstunni.

3 replies on “Sigurvegarar, fagurfræði bílslysa og Egill Helgason”

  1. Tjah, þar liggur Rattatið grafið, Þórdís. Þetta er spurning um flutning, frekar en birtingu. Þetta er einmitt svona „gjörningur“ af því tagi sem allir unnendur sannra lista ættu að fyrirlíta, og sem skilar sér ekki í powerpoint-slæðunum einum og sér. Kannski væri hægt að gera úr þessu gott Youtube-vídeó, bara verst hvað ég er illitterat í þessu nýmóðins internetfjölmúlavíli.

    Fátt myndi gleðja mig meira en að vera boðið á alþjóðlega ljóðahátíð í Reykjavík. Bara verst að ég sé ekki framá að vera á landinu akkúrat þá helgina, svo þar hef ég þægilega afsökun. En ef eitthvað væri er nær dregur jólum (nóv/des) þá væri það alveg rakið.

Comments are closed.