Götumynd Laugavegarins

Sit á Máli og menningu (heitir það það annars ekki ennþá? það er alltaf allt að breytast hérna) og horfi upp með götunni. Voðalega er þetta niðurnítt eitthvað.

Hvernig er það, er öllum orðið alveg sama um götumynd Laugavegarins í dag? Hvað er eiginlega málið? Allir fjargviðruðust yfir þessu í smátíma, það vantaði bara að forkólfar þjóðarinnar rykju hingað niðureftir til að taka húsin sín útúr götumyndinni og svo koðnar þetta bara niður eins og annað, jafnvel þótt ekkert hafi komið upp sem skiptir meira máli en akkúrat þetta: Það verður að bjarga götumynd Laugavegarins. Svo kem ég hingað heim og allt er bara yfirfullt af einhverjum fréttum úr bankakerfinu og fjármálamarkaðnum dag eftir dag (hverjum er ekki sama!) og allir búnir að gleyma hvað það er sem skiptir máli í þessu þjóðfélagi: Það verður að bjarga götumynd Laugavegarins. Það er bara ekkert sem er mikilvægara fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar í alþjóðasamfélaginu í dag.

Erðettekki týpískt.